Monday, August 14, 2006

Til athlægis í bílalúgunni á KFC


Það ætti ekki að teljast neitt tiltökumál þó að maður verði sér til athlægis svona við og við. Segjum til dæmis að maður sé á stað sem er manni allsendis ókunnugur og einhvers sé ætlast til af manni sem maður veit ekki nákvæmlega hvað er, þá er ekki ólíklegt að sjónarvottar hlæi er maður gerir eitthvað vitlaust, enda aðstæðurnar næstum til þess gerðar að gera mann tímabundið að fífli.

Um helgina ákvað ég að bregða mér í bílalúgu KFC í Skeifunni. Mig langaði í kjúklingahamborgara og var sársvangur eftir líkamsrækt. Ég var á Nissan Patrol sem er reffilegur jeppi. Ég kom mér svo fyrir aftast í biðröðinni við fyrrnefndan skyndibitastað. Það voru þónokkrir bílar á undan mér. Röðin myndaði hring í kringum húsið og ég sá ekki lúguna þarsem hún var handan við næsta horn.

Ég var með útvarpið í botni og söng af innlifun með laginu. Það var “Sýnd en ekki gefin veiðin” með Megasi Það fyrsta sem ég sá þegar ég keyrði í röðina var risavaxinn upplýstur matseðillinn. Ég varð pínulítið hissa á því að hann væri ekki á sama stað og lúgan. Ég var nefnilega alveg viss um að maður ætti bæði að panta og vera afgreiddur í lúgunni, alveg eins og á BSÍ. Og þarsem matseðilinn var ekki við hliðina á lúgunni ályktaði ég sem svo að maður ætti fyrst að skoða matseðlinn og leggja á minnið hvað mann langaði í og svo ætti maður að bíða í röðinni, keyra svo fyrir hornið þar sem lúgan var og panta þar.

Ég var sannfærður um að ég væri í mjög góðum málum. Og þessvegna lagði ekkert mig ekkert sérstaklega fram við að skoða nánasta umhverfi heldur horfði bara á matseðilinn og sá að Tower Zinger máltíðin var númer 8 og ég lagði töluna á minnið. Nú skyldi ég sko bíða og koma svo eiturhress að lúgunni og segja já ég ætla að fá eina máltíð númer 8 takk. Ég var alveg með þetta á hreinu. Ég stóð allavega í þeirri trú.

Svo líður og bíður og lagið er í botni og ég syng hástöfum með sjálfum mér inni í bílnum. Eftir skamma stund finnst mér ég heyra einhverskonar óhljóð. Það var helst eins og niðurbælt öskur svona eins og heyrist þegar maður reynir að tala með límband fyrir munninum. Ég hætti að syngja og fór að hugsa með sjálfum mér hvort þetta væru nú raunveruleg óhljóð eða bara skruðningar í hátölurunum. Svo hélt óhljóðið áfram sem varð til þess að ég lækkaði aðeins í græjunum. Þá heyrðist óhljóðið aðeins betur en er samt óskýrt. Alltíeinu fannst mér einsog að einhver gæti verið að hrópa á hjálp eða jafnvel nafnið mitt svo ég fór að kíkja, horfði í baksýnisspegilinn og svo í hliðarspeglana. En ég sá engan og það var enginn fyrir aftan mig í röðinni. Hvaða hljóð var þetta eiginlega?

Svo hættir óhljóðið í dálítinn tíma. En byrjar svo aftur. Og þá ákvað ég að gera eitthvað í málunum. Ég skrúfa niður rúðuna og sting höfðinu út um gluggann. Ég horfi fyrst aftur eftir bílnum og svo fram. Sé ekkert athugavert. Svo virði ég fyrir mér vegginn á KFC sem stendur á samsíða bílnum. Þá sé ég að við hliðina á risavaxna matseðlinum er frekar stór svartur kassi og á honum stendur: STOPP PANTIÐ HÉR.

Þá fór ég að hugsa mjög hratt. Lækkaði alveg niður í tónlistinni en hélt áfram að horfa út um gluggann og kom þá auga á myndavéina sem hékk niðuraf þakskyggninu og starði beint á mig. Þetta hugsaði ég:
Ókei, shitturinn. Þessi svarti kassi er örugglega til þess að taka á móti pöntunum. Og ég á að vera búinn að panta fyrir löngu. Hljóðið sem ég er búinn að vera að heyra hefur örugglega komið úr svarta kassanum sem rödd einhvers starfsmanns sem hefur verið að hrópa til að reyna að ná athygli minni á meðan ég hef verið inni í bílnum með útvarpið í botni og að syngja með. Og á þetta hefur allt starfsfólkið á KFC verið að horfa í beinni útsendingu og hefur hlegið sig máttlaus yfir fíflinu sem heldur að hann eigi að panta í lúgunni.

Um leið og ég hafði hugsað þetta var öskrað út um svarta kassann:
Þú þarna í jeppanum, viltu gjöra svo vel að bakka aðeins, þú átt að panta hérna áður en þú ferð í lúguna!!!
Og ég heyrði það á röddinni að manneskjan átti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum.
Svo pantaði ég: Ehem jájá uuuuuu hérna eeeeehhh eina máltíð númer 8 takk.
Svarti kassinn: Verður tilbúið í lúgunni.
Ég: Ehhhh já... takk.

Svo kom loksins að mér í lúgunni. Stelpan sem afgreiddi mig var með lymskulegt bros á vör og fyrir aftan hana var hópur starfsmanna sem voru allir einhvernveginn flissandi eða hlæjandi. Gjörðu svo vel og verði þér að góðu, brosti hún.
Eeeeehhh... já... takk.

4 Comments:

Blogger Ally said...

Aaaaaaaaahahhahaahahahaha

4:04 PM  
Anonymous Anonymous said...

Gott að pólití sá ekki til þín, hvað þá blaðamaður hjá Dagblaðinu Vísi!

5:12 PM  
Blogger Rustakusa said...

Þú drepur mig hreinlega, Hr. Helmassaður :-)
Ég hefði viljað vera hrossafluga eða bara vesæl fiskifluga og horfa á þetta.. heeeeeehe.

5:17 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ertu bróðir minn??? :) hahahahaha
Ég held að þetta litla tónlistarmyndband þitt er sýnt á starfsmannaskemmtunum KFC með mikilli gleði.
Þú ert kannski bara upprennandi stjarna og veist það ekki? Kannski ertu okkar nýja Leoncie? :)

12:36 AM  

Post a Comment

<< Home