Thursday, September 07, 2006

Grímsá


Jæja, þá er ég að fara í Grímsá á morgun. Ég verð fram á sunnudag og svo fer ég aftur þarnæsta laugardag og verð í sex daga. Verður þetta eins og fyrir þremur árum þegar ég fékk 18 pundarann? Það var stærsti laxinn það árið. Hann tók Rauða Francis númer 10 og ég var í einn klukkutíma og 45 mínútur að landa honum. Ég landaði honum næsta veiðistað fyrir neðan kannski kílómeter frá þar sem hann tók. Þetta var um kvöld og það var kolniðamyrkur þegar við náðum honum í háfinn. Ég sá ekki handa minna skil og pabbi reiknaði út staðsetningu ferlíkisins útfrá birtu norðurljósanna sem endurspegluðu dropana á flugulínunni.

Og núna er hann uppstoppaður í sumarbústaðnum okkar. Þar trónir hann yfir gestum. Uppstopparinn sagði að hann hefði ekki verið minna en 25 pund þegar hann var nýrunninn í ána. Lítil börn hafa meira að segja ruglað honum saman við krókódíl. Pabbi, pabbi ég er hræddur við krókódílinn!! Nei, nei þetta er allt í lagi þetta er lax, já... þetta er stórlax. Veiði ég annan slíkan á morgun eða hinn? Ég get ekki hætt að hugsa um það.



Þetta er 18 punda ferlíkið sem ég veiddi. Pabbi náði að troða sér inn á myndina með meistaranum. Laxinn hangir núna uppstoppaður uppi á vegg. Þið megið koma og skoða hvenær sem er...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home