Monday, September 04, 2006

Í heita pottinum


Um daginn fór ég í Laugardalslaugina og synti eins og venjulega. Svo fór ég í heita pottinn. Þar hafði ég setið um stund og var farinn að huga að því að koma mér uppúr. Þá kom ég auga á stelpu sem ég kannaðist við. Og mér hefur alltaf þótt hún pínulítið sæt og líka staðið í þeirri trú að hún væri svolítið klár. En svo sá ég að hún var að lesa. Já, hún var að lesa bók í heita pottinum. Og þetta var ekki bara eitthvað svona tískutímarit, nei þetta var heljarinnar stór og þykk skáldsaga. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera vandkvæðum bundið að lesa bók í ólgandi heitum potti, þarsem litlir krakkar eru sífellt buslandi, vatnsbunur standa út úr steinum og gamalmenni eiga það til að hrasa með tilheyrandi öldugangi.

En hún var þarna að lesa bókina og ég fer uppúr pottinum og geng að henni.

Ég: Þetta hef ég nú aldrei séð áður, ertu að lesa hérna í heita pottinum?
Hún verður við þetta örlítið vandræðaleg en segir svo: Nei... hæ.
Ég: Er þetta vatnsheld bók?
Hún segir þá eftir dálitla umhugsun og ennþá vandræðalegri: Nei... uuu.. hún er bara svona venjuleg.

Þá var samtalinu lokið. Ég gekk burt. Fór inn í sturtuklefann. Hugsaði um tilsvarið: Nei, hún er bara svona venjuleg. Jájá, ok þetta var bara svona venjuleg bók. Það var einsog að hún hefði gert ráð fyrir að ég hefði virkilega haldið að bókin væri vatnsheld. Já, hún semsagt hélt að ég hefði séð hana vera að lesa bók í heita pottinum og komið upp að henni með það eitt í huga að spyrja hana hvort þetta væri raunverulega vatnsheld bók.

Auglýsing á Rás 1: “Vorum að taka upp nýja sendingu af vatnsheldu kiljunum - Mál og mennig.”

Nei, ég held ekki.

Ef hún hefði bara sagt jáhá þetta er sko vatnsheld bók og kastað bókinni í vatnið. Þá hefðum við horft á blaðsíður bókarinnar drekka í sig vatnið og bókina sökkva til botns í pottinum. Svo hefði hún horft á mig, búin að setja mig örlítið útaf laginu. Þá hefði ég sko ekki gengið rakleiðis burt í sturtuklefann. Og þetta hefði þá sennilega endað á allt annan hátt. Kannski einhvern veginn þannig að ég hefði misst út úr mér:

Heyrðu, mætti ég ekki tylla mér þarna hjá þér?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home