Monday, December 11, 2006

Húð- og kynsjúkdómafræði


Ég er nýbyrjaður að læra húð- og kynsjúkdómafræði. Fyrirlestrarnir eru haldnir á næstefstu hæð í Landakotsspítala. Þar er stundum mikið stuð.

Eins og gefur að skilja þá gengur húðsjúkdómafræðin að stórum hluta út á það að geta greint rauða flekki á húðinni. Í húðsjúkdómafræðinni er því mjög mikilvægt að vera duglegur að skoða myndir af útbrotum og öðlast þannig færni í greiningu á flekkjum og blettum á húðinni.

Og auðvitað höfum við kennara sem kennir okkur um húðsjúkdóma. Og ég held að hægt sé að fullyrða að það væri á misskilningi byggt ef þessi kennari væri flokkaður í hóp manna sem þættu stórskemmtilegir. Það eru nefnilega afar litlar eða jafnvel hverfandi líkur á því að hann færi með gamanmál í tíma. Honum myndi sennilega seint detta til hugar að slengja fram brandara eða vera með einhvers konar uppistand. Hann er heldur ekki maður sem myndi allt í einu fara að hoppa eða dansa upp á grínið eða þá tvista eða taka stuttan sjómannaræl rétt fyrir frímínútur. Hann er bara ekki þannig maður.

Í raun mætti segja að hann væri andstæðan við hinn stórskemmtilega mann. Hann byrjaði til dæmis fyrsta tímann á því að messa yfir okkur um nútíma kennsluhætti sem eru ömurlegir að hans mati. Hann gerði okkur það ljóst að honum finnst fráleitt að láta nemendur fá fyrirlestrana á tölvutæku formi. Það er að hans mati einsog að breyta læknadeild í bréfaskóla. Menn geti þá bara verið heima hjá sér og fengið fyrirlestrana hjá félögum sínum sem nenntu að mæta. Í þessu samhengi finnst honum það einnig út í hött að ekki skuli vera skyldumæting í fyrirlestra.

Svo hélt hann áfram eins og óðamála klerkur og ræddi um mikilvægi þess að kunna allt um húðsjúkdóma og útbrot. Hann sagði að prófið væri að hluta til byggt á myndum og því þyrftum við skoða myndir af útbrotum eins og við ættum lífið að leysa. Síðan lét hann okkur síðan fá svarthvítt útbýtti með fyrirlestrunum. Í því var allt svarthvítt. Allur textinn og allar myndirnar. Allar myndirnar af útbrotunum voru svarthvítar. Og það var engan veginn hægt að sjá eitthvað vitrænt út úr myndunum. Bara svarthvítar klessur. Þetta fannst honum greinilega vera rétta kennsluaðferðin. Halda ræðu um mikilvægi þess að þekkja útbrot og dreifa síðan svarthvítu útbýtti þar sem myndirnar eru eins lélegt ljósrit af vatnslitamálverki eftir smábarn.

Og við höfum reynt að benda honum á það hversu tilvalið það væri að dreifa fyrirlestrunum á tölvutæku formi. Þá gætum við glósað undir myndirnar, sem væru skýrar og fallegar og í lit. Þá gætum við þekkt útbrotin sem hann vill að við kunnum. Þá yrðum við fyrirtaksnemendur í húðsjúkdómafræðum. En allt kom fyrir ekki. Hann situr við sinn keip, blessaður maðurinn.

Í tíma hjá honum um daginn flaug mér í hug eitt stykki ultmate joke. Í mínum vinahópi er ultimate joke brandari sem er tekinn alla leið, þ.e. ef maður byrjar á ultimate joke þá hættir maður ekki fyrr en maður er kominn yfir strikið. Það er the ultimate joke – maður fer alla leið.

Og þessi ultimate joke er þannig að í miðjum tíma hjá þessum and-stórskemmtilega manni myndi ég spyrja hann spurningar og síðan halda áfram að tala þangað til að ég væri staðinn upp úr sætinu og farinn að þykjast mála með málningarrúllu á vegginn í kennslustofunni.

Ég myndi þannig byrja á að spyrja hann enn einu sinni afhverju hann vildi ekki láta okkur fá fyrirlestrana á tölvutæku formi svo við gætum skoðað myndirnar vel sem er svo mikilvægt þar sem við verðum að þekkja öll útbrotin. Og ég myndi rökstyðja þetta með þeim hætti að það væri alls ekki auðvelt að greina útbrot og sérstaklega ef maður hefur bara gagnslaust svarthvítt útbýtti til að styðjast við. Svo myndi ég halda áfram og segja að það væri svosem í lagi að hafa ekki fyrirlestrana á tölvutæku formi ef það væri leikur einn að greina útbrot. Þ.e. ef það væru bara til örfáar tegundir útbrota og þau væru öll mismunandi á litin en ekki öll rauð eins og þau virðast vera í raunveruleikanum.

Og í framhaldinu tæki ég dæmi um mann sem væri með grænan blett á hægri kinninni. Þessi maður kæmi inn á stofu til læknis sem hefði aðeins skoðað svarthvítar myndir af útbrotum. Og vegna vankunnáttu sinnar getur læknirinn ekki ályktað öðruvísi en svo að maðurinn með græna blettinn á kinninni hefði verið að mála með grænni málningu og rekið sig í og þannig fengið málningu í andlitið. Síðan myndi ég byrja að flauta vel þekkt stef úr málningarauglýsingu (frá Málningu ehf. held ég) sem flestir ættu að kannast við. Svo stæði ég upp og labbaði að veggnum og byrjaði að þykjast mála með málningarrúllu á vegginn. Rólega, upp og niður myndi ég þykjast mála vegginn og flauta lagstúfinn á meðan.

8 Comments:

Anonymous Anonymous said...

HAHAHAHAHAHAHAHA

Vá ég hef aldrei hlegið upphátt að bloggfærslu.. fyrr en nú! Ætli þessi maður sé ekki bara eitthvað hræddur við tölvur :D Sé alveg fyrir mér einhvern skjálfhentan gamlan mann :D

Við höfum nú svo gaman af gamla fólkinu, Sverrir ;)

4:07 AM  
Anonymous Anonymous said...

Sveppur.

Ég tel þetta vera verstu einkunn, sem kennara hefur nokkru sinni verið gefin, síðan Dr. Mengele, sálugi, krítíseraði, munnlega, bæklaða prófessorinn í klínískri erfðafræði, hér um árið. (Og ekki var sú einkunnin framreidd á Biblíumáli.)

Gúrbi.

12:53 PM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Halldór!

Fari það kolað, steinolían hefur gengið til þurrðar

Tvennt sást á gúmbát á Faxaflóa laust fyrir nónbil

Hvar er nú kaleikurinn góði???

Gúrbi: Hvað ertu að tala um? Ég skil ekki baun :)

5:04 PM  
Anonymous Anonymous said...

Mér finnst þessi kennari skemmtilega leiðinlegur karakter. Hann er greinilega tölvufatlaður og frústreraður yfir því og getur ekki viðurkennt vanmátt sinn í þeim málum.

En hvað myndi gerast ef einhver myndi rétta upp hendi í tíma og bjóðast til að kenna honum á nútímatæknina?

Svart-hvítt námsefni er ekki að blíva, þar sem lífið er í lit ;)

Hinsvegar finnst mér græna málingarviðbótin alveg hryllilega fyndin og ég gæti alveg trúað þér að gera eitthvað svona.

11:51 PM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Við erum margoft búin að bjóðast til að kenna honum á nútímatæknina. Hann vill það ekki. Hann ætlar alls ekki að láta okkur fá fyrirlestrana á tölvutæku formi. Hann er jafnþrjóskur og rostungur.

2:54 AM  
Blogger Ingibjörg góða! said...

Ristilspeglun hvað þetta hljómar sem leiðinlegur maður. Heldur þú að þú gætir fengið bekkinn til að standa upp og syngja einum rómi: HALLELÚJA....... þegar hann gengur í salinn.
Annars er þetta ekkert endilega spurning um lit á ofnæmi - heldur lögun - þannig að þú er með óþarfa smámunasemi í þínum greiningum. Svo þarf að taka til greina að líklega var ekki búið að "finna upp" litinn þegar hann var í námi - hvað þá þetta tölvufargan sem er að tröllríða öllu, svo ekki sé talað um þessa Internetbólu - sem springur fljótlega.......

3:33 AM  
Anonymous Anonymous said...

segðu frænkublóm...

Mér finnst að það eigi allir að mæta í svörtu og hvítu einn daginn..hahaha :)

5:19 AM  
Anonymous Anonymous said...

Það er ALGJÖRLEGA ófyrirgefanleg af kennaranum að kenna YKKUR UM húðsjúkdóma!!!! Þeir eru bara EKKI ykkur að kenna Sverrir minn!!! Hafa ALLTAF verið til!!!
Helvítis maðurinn!!! Hjördís frænka:)

5:09 AM  

Post a Comment

<< Home