Tuesday, November 21, 2006

Casino Royale



Ég skellti mér á hana í gærkvöldi. Hún var þrusugóð. Framleiðendurnir hafa greinilega haft það markmið að brjóta upp gömlu klisjurnar. Nýi Bondinn jagast til dæmis ekki á því hvort hann vilji drykkinn sinn hristan eða hrærðan. Hann segist bara vera drullusama hvernig drykkurinn er framreiddur.

Nýi Bondinn, Daniel Craig, er massaður en samt svolítið hversdagslegur náungi. Ég átti frekar erfitt með það að taka hann alvarlega þegar ég áttaði mig á því hvað hann er nauðalíkur Halldóri Jónssyni junior bæklunarskurðlækni.




Myndin hefst á æsispennandi upphafsatriði og sagan er nokkuð vel skrifuð. En einhvernveginn vantar risið í myndina. Hún er mjög góð fram að hléi en missir svolítið dampinn í lokin. Sem dæmi má nefna vont atriði sem gerist í sökkvandi húsi í Feneyjum. Bond er þar að kljást við þorpara og dettur það snjallræði í hug að skjóta gat á uppblásna belgi sem virðast gegna þeim tilgangi að halda húsinu á floti. Belgirnir springa og húsið sekkur til botns í mjög langdregnu atriði. Svona kjánalegum atriðum á að sleppa.

Þar sem ég er mikið læknisfræðinörd skemmti ég mér konunglega þegar Bond fékk digitalis eitrun. Digitalis er hjartalyf og er m.a. notað við hjartabilun og hjartsláttaróreglu. Í of stórum skömmtum virkar það sem eitur.

Aðal vondi gæinn í myndinni, Le Chiffre (leikinn af Mads Mikkelsen), byrlar Bond þetta lyf með það fyrir augum að gera Bond óhæfan til að spila póker. Bond fær dæmigerð digitalis eitrunareinkenni, byrjar að rugla, fær sjóntruflanir, verður óglatt og þarf að kasta upp. Bond flýtir sér inn á klósett og ælir. Það mun ekki vera gott því við uppköst tapast kalíum úr líkamanum og getur það aukið eitrunaráhrif digitalis. Eftir að hafa kastað upp hefði Bond því átt að fá sér banana eða nýpressaðan appelsínusafa, sem hvort tveggja er kalíumrík fæða. En nei, í ruglástandinu hjóp Bond út í bílinn sinn.

Svo heppilega vildi til að í hanskahólfinu var sprauta og mótefni gegn digitalis. Þetta hefur sennilega verið Digibind (digoxin immune Fab) sem er einstofna mótefni gegn digitalis og losar líkamann við eitrið. En það dugði ekki til og Bond áttaði sig á því að hann væri um það bil að fá hjartastopp. Því tók hann upp hjartarafstuðtæki sem var líka í hanskahólfinu. En verður of seinn til, hjartað hættir að slá og hann liggur steindauður í bílnum. Til allar hamingju kom þá Bondgellan honum til bjargar.

Og þá beið ég spenntur eftir því að hún færi að hnoða Bond í gang eins og maður á að gera í hjartastoppi. Það má nefnilega alls ekki gefa rafstuð við hartastoppi. En gæran hafði ekki hugmynd um það smellti einu stuði í hetjuna. Þá hélt ég að hún hefði endanlega klúðrað þessu. En annað kom á daginn. Bond vaknaði og var hressari en nokkru sinni fyrr. Það hvarflaði ekki einusinni að honum að skamma dræsuna fyrir að vita ekki réttu meðferðina við hjartastoppi.

8 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Af hverju breyttist Bondgellan í gæru í frásögninni..og svo í dræsu? :)
En þetta var flott lýsing á myndinni samt...og þú mátt líka koma aftur í kaffi..það eru ennþá stelpur að spyrja um þig hér..eða gellur?gærur?dræsur? :)

2:05 AM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Ég kem aftur í kaffi... mjög gott kaffi... trallalallalalllalaaaaaaaaa :)

5:54 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég mun senda inn tilkynningu á innra netið í vinnunni...fólk mun flykkjast að úr öllum deildum ;)
Alltaf velkominn í köff.

Vertu duglegur að læra...

3:23 PM  
Anonymous Anonymous said...

Fyrirspurn!
Núna langar mig að spyrja eftir nokkurra daga vangaveltur
Hvenær gefur maður þá gefa rafstuð?

8:17 AM  
Blogger B said...

Halldór jr. er samt þúsund sinnum meira hot en hr. Bond.

2:51 PM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Maður gefur rafstuð þegar maður er í stuði til að gefa rafstuð!

11:57 AM  
Anonymous Anonymous said...

Semsagt, þegar þú ert í raf-stuði :D

En mér varð einmitt hugsað til þín þegar að læknisfræðilegum staðreyndum kom í myndinni. Mikið datt mér í hug að þú hefðir gaman af þeim kafla - því ég vissi að það var örugglega vitlaust farið með einhverjar staðreyndir :D

12:49 PM  
Anonymous Anonymous said...

Aahaahahaaa lenti í svipuðu yfir 24 um daginn...

Læknirinn: I'm sorry, I can't stop the internal bleeding.

Svo byrjaði hann að hjartahnoða.

2:21 PM  

Post a Comment

<< Home