Sunday, November 05, 2006

Gömul kona höstlar í sundlauginni



Ég er kominn í mjög gott form. Ég komst að því í dag þegar ég synti rúman kílómetra skriðsund nánast án þess að blása úr nös. En það var líka annað sem gerðist í sundlauginni sem gerist ekki á hverjum degi.

Ég var að klára fimmhundruð metrana þegar ég þurfti að stoppa til þess að taka gufuna úr sundgleraugunum. Ég synti alveg á milljón upp að bakkanum og reis hálfur upp úr vatninu. Þá sá ég að á brautinni við hliðina á mér var gömul kona í miklum holdum að horfa á mig. Og hún var þannig á svipinn að ég hugsaði með mér: Hún er pottþétt að fara að segja eitthvað við mig. Og það reyndist vera svo.
- Flott hjá þér, sagði hún og brosti.
Það kom örlítið fát á mig en svo svaraði ég henni.
- Já, hehe, takk fyrir það.
Svo setti ég sundgleraugun á mig og spyrnti mér frá bakkanum.

Ég hugsaði um þetta í nokkurn tíma. Af hverju var hún að segja þetta? Flott hjá mér? Hvað fannst svona gamalli feitri kellingu svona flott? Og svo hætti ég að hugsa um þetta.

Síðan lauk ég við sundið og ætlaði uppúr í gufuna og heitapottinn. En viti menn. Sú gamla var ennþá á sama stað uppvið bakkann. Og þegar ég leit til hennar gaf hún mér þetta líka rosalega augnaráð. Ég veit ekki hvað hún var að spá með því að setja upp þennan svip. Hún var líklega að reyna vera tælandi, eggjandi eða sexý eða eitthvað. Alveg var svipurinn einsog hún hefði í huga að draga mig á tálar. Og þannig horfði hún til mín á meðan hún gekk rólega í burtu í átt að tröppunni sem gamlingjarnir nota til að komast uppúr lauginni.

Þegar hún var svo horfin stóð ég kyrr í smástund. Síðan brosti ég með sjálfum mér og skellti svo uppúr. Svo fór ég bara í gufuna og heita pottinn.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home