Tuesday, October 24, 2006

Ljósmóðirin sem skammaði mig út af osti



Ég var á spítalanum í dag á kvennadeild. Morgunninn hafði verið mjög mikill mánudagsmorgunn. Ég hafði gleymt að borða almennilegan morgunmat og var orðinn svangur. Mig langaði allt í einu alveg ofboðslega í ristað brauð með osti. Af fyrri reynslu var ég nokkurn veginn viss um að það yrði mikil hættuför fyrir mig að læðast inn í býtibúrið og fá mér ristað brauð með osti.

Ég var á deild þar sem ljósmæður hafa gætur á öllu og maður má helst ekki gera neitt án þess að þær viti af því. Og það sem meira er þá eiga ljósmæður það til að verða mjög auðveldlega pirraðar á læknanemum.

Og ég, læknaneminn, var þarna sársvangur og lagði á ráðin hvernig ég ætti að laumast inn í býtibúrið og komast óséður út. En ég var og svangur til að hugsa svo að ég lét bara til skarar skríða.

Ég skundaði inn í býtibúrið og var snöggur að finna brauð og skellti því í ristina. Fann svo smjörið. Svo leitaði ég að ostinum og sá að það voru tveir pakkar af ostsneiðum inní ísskápnum. Annar pakkinn var opinn og í honum var aðeins ein ostsneið mjög skorpin og gömul. En hinn pakkinn var óopnaður og fullur af gæðalegum ostsneiðum.

Á meðan ég virti fyrir mér ostapakkana heyrði ég í ljósmæðrunum. Þær voru allar saman komnar í kaffistofunni við hliðina á býtibúrinu. Ég hugsaði með mér: Á ég að sætta mig við þessa gömlu skorpnu ostsneið eða á ég að taka áhættu og opna nýja pakkann? Ég ákvað að taka áhættu. Ég greip óopnaða pakkann og réðst á hann með hníf. Ég ætlaði sko aldeilis að fá mér nýjan ost á brauðið, skilja gömlu ostsneiðina eftir og komast óséður út úr býtibúrinu með dýrindis brauð og nýjan ost.

Og þar sem ég var að hamast á nýja ostsneiðapakkanum heyri ég hvernig einhver nálgast býtibúrið. Ég hugsaði ónei núna er ljósmóðir að koma þrammandi og ég er hérna að laumast í ostinn! Og það leið ekki að löngu. Ein ljósmæðranna var mætt í býtibúrið og rak upp stór augu. Hún horfði fyrst á mig, svo á gamla ostapakkann og því næst á nýja ostapakkann sem ég hafði verið að hamast á. Svo horfði hún aftur á mig með stingandi augnaráði. Brauðsneiðarnar voru komnar upp úr brauðristinni en ég þorði ekki að hreyfa mig.

Þá benti ljósmóðirin á plastbox sem var á rúlluvagni við hliðina á ísskápnum og tók til máls.
- ÞÚ ÁTT AÐ NOTA OSTINN SEM ER Í ÞESSU BOXI.
Hún horfði svo á mig hneyksluð og sýndi mér hvað var á vagninum. Allskonar meðlæti á brauð og svo auðvitað ostur.
Ég sagði þá æ æ, fyrirgefðu, ég vissi þetta ekki…

Ég var frekar vandræðalegur á þessu augnabliki með gamla ostapakkann á borðinu og þann nýja í höndunum sem ég hafði reynt að tæta í sundur. Ég ákvað bara að brosa eins og engill á meðan hún var inni í býtibúrinu. Svo þegar hún fór smurði ég brauðsneiðarnar og fékk mér ost. Og sneiðarnar voru að sjálfsögðu úr nýja pakkanum.

4 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Þetta er ekkert nema frekleg skerðing á réttindum manns til að fá sér ost. Ég finn til með þér!

3:51 AM  
Blogger Rustakusa said...

Hvað er þetta með þig og býtibúrið ;-)

6:39 AM  
Anonymous Anonymous said...

Þetta er eins og með hundana, þeir skynja ótta, og fara þá gjarnan að glefsa.

Ég held þú verðir að rusla af þér þessum ljósmæðra/býtibúrskvenna/hjúkrunarfræðinga ótta. Hroki er jafnan birtingarmynd óttans, og á deildum LSH er hroki dauðasynd, sérstaklega ef þú ert læknanemi/læknir/sérfræðingur. Til að starfsævin verði sem heillaríkust væri best að vinna bug á kellu-óttanum, annars verður glefsað í þig við hvert tækifæri.

Gangi þér vel vel og mundu að býtibúrskonur/hjúkkur/ljósmæður eru líka fólk.. bara á lægri launum.

10:22 AM  
Anonymous Anonymous said...

Með þessu áframhaldi kæri bróðir, þá endar þetta með því að það verður mynd af þér á vegg fyrir framan hvert einasta býtibúr og eldhús á LSP ...og fyrir neðan myndina stendur NOT WANTED...

4:09 AM  

Post a Comment

<< Home