Monday, October 09, 2006

Bláar táslur



Eftir allar veiðiferðir sumarsins ákvað ég að taka Patrolinn í gegn. Þvoði hann hátt og lágt og ryksugaði. Inni í honum mátti líka finna stybbu af fiski og vöðlum. Því ákvað ég að kaupa lyktareyði til að hengja upp í baksýnisspegilinn.

Ég skundaði inn á bensínstöð og valdi mér lyktareyði. Ég skoðaði úrvalið. Í boði voru allskonar tegundir lyktareyða til að hengja upp í spegilinn. Mér leist best á höfrunginn og ilina. Reyndar talaði afgreiðslumaðurinn ekki um "il" heldur "táslur". Þannig að ég var þarna inni í bensínstöðinni í hrókasamræðum við hann um höfrunga og táslur. Að lokum keypti ég bláar táslur.

Á leiðinni í bílinn tók ég táslurnar úr umbúðunum og það gaus upp mikill ilmur. Ég efast ekki um að allir á bílaþvottaplaninu hafi fundið ilminn af nýju bláu táslunum mínum. Þá hugsaði ég með mér vá það á ekki eftir að verða líft inni í bílnum ef það er svona sterk lykt af þessum táslum.

En ég hengdi þær upp og ók af stað. Eftir skamma stund fann ég hvernig bíllinn smám saman mettaðist af lyktinni. Og stuttu seinna var orðið erfitt að anda í bílnum. Þannig að ég hugsaði að þetta hlyti bara að vera svona rétt á meðan táslurnar væru nýjar. Þannig að ég andaði bara með munninum til að finna ekki lyktina.

Svo ágerðist fnykurinn og ástandið var orðið óbærilegt. Ég ákvað því að opna gluggann. En þegar glugginn var kominn hálfa leið niður byrjaði ég að hósta. Og stuttu seinna var ég kominn með óstöðvandi hóstakast. Og svo byrjaði ég að hlæja ofan í hóstann. Ég var hlæjandi og hóstandi á víxl. Og þannig var þetta þangað til ég kom á áfangastað. Þá fór ég út úr bílnum og hélt áfram að hósta og hlæja. Hósta vegna bláu táslanna og hlæja að bláu táslunum. Ég hugleiddi að henda táslunum en þær hanga enn í speglinum.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Það er alveg herfileg lykt af svona drasli í svona tvær vikur. Svo verður hún hæfileg. Ég keypti eitt sinn svona ilmdrasl sem leit út eins og dollaraseðill. Ég hengdi hann upp í bílskúrnum til að byrja með og það var svona væminn ilmur í bílskúrnum vikum saman. Svo hengdi ég þetta upp í bílnum. Svo henti ég því stuttu síðar.

Hins vegar þegar ég var í sveit sem únglíngur varð umferðaróhapp rétt hjá bænum. Vörubílstjóri ók bíl sínum ofan í skurð. Í speglinum á trukknum hékk svona ilmdrasl, nema á því var mynd af allsberri gellu. Ég og frændi minn stálum þessu ilmdrasli og földum það. En hvar sem við reyndum að fela það gaus alltaf upp þessi svakalega stybba. Það þótti mjög grunsamlegt. Þetta var geymt í þremur plastpokum þar til þetta hætti að vera merkilegt. Þá var því hent.

- Önundr

3:59 AM  
Anonymous Anonymous said...

Sverrir hefur þú ekki séð fjólubláa höfrunginn minn!
Köttur

11:01 AM  
Anonymous Anonymous said...

Sverrir hefur þú ekki séð fjólubláa höfrunginn minn!
Köttur

11:01 AM  

Post a Comment

<< Home