Saturday, September 23, 2006

16 laxar

Jæja, þá er maður kominn aftur úr sex daga veiðiferð í Grímsá. Við pabbi veiddum 16 laxa og einn sjóbirting. Laxarnir voru á bilinu 4ra til 8 punda og sjóbirtingurinn var 5 pund. Við settum flestalla laxana í hólka, héldum þeim þannig lifandi í ánni og svo voru þeir sóttir í ker og verða notaðir til undaneldis.

Ég heyrði líka margar sögur, venjulegar sögur og veiðisögur. Einhver sagði frá veiðimanni sem hafði séð undarlegt kvikindi svamla um í fossinum fyrir neðan veiðihúsið. Maðurinn mændi á kvikindið sem var feiknastórt og synti í hringi. Að vel athuguðu máli gekk hann upp í veiðihúsið, vakti dóttur sína og sagði henni að það væri minkur í fossinum. Dóttirin fór á fætur, gekk út og sá kvikindið. Hún sagði föður sínum að þetta væri ekki minkur heldur særður lax. Þau hringdu í umsjónarmann árinnar og lögðu sig svo, algerlega uppgefin. Umsjónarmaðurinn kom á staðinn og sá kvikindið. Jú, það var þarna syndandi og það var algert ferlíki. Þetta var sko ekki minkur og ekki særður lax. Svo var kvikindið skotið og það reyndist vera stærðarinnar selur.

Ég heyrði margar svona sögur. Dró af þeim mismikinn lærdóm og hló mismikið að þeim. En það verður að viðurkennast að það er nokkuð fyndið að glápa lengi á risastóran sel synda í hringi og vera algerlega sannfærður um að selurinn sé minkur. Menn eru greinilega misjafnlega glöggir.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home