Thursday, October 05, 2006

Pirraða konan í býtibúrinu



Ég var á spítalanum í morgun einsog venjulega. Alltíeinu langaði mig í kex. Mig langaði annaðhvort í Póló súkkulaðikex eða Kremkex frá Fróni. Það eru bestu kexin á spítalanum. Þau eru eiginlega bara nammikex.

Þannig að ég skundaði inn í næsta býtibúr. Þar inni var gömul kona að lesa blað. Hún sat við borð og snéri hnakkanum í mig þar sem ég kom inn. Ég vissi nákvæmlega hvar kexið var geymt í þessu býtibúri.

-Góðan daginn mig langar í kex, sagði ég glaður í bragði á leiðinni að kexskúffunni.
-Núúúú? Sagði konan við borðið og ég skynjaði einhvern pirring í tóninum. Hún sýndi annars engin önnur viðbrögð og hélt bara áfram að lesa blaðið.

Ég var hálfundrandi yfir þessu svari en hélt áfram og opnaði kexskúffuna. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ekkert Pólo og ekkert Kremkex til. Bara ógeðslegt hrökkbrauð.

- Oooooo, ekkert gott kex til, sagði ég.
- Ef þetta er ekki nógu gott fyrir þig þá þarftu ekkert kex, sagði kellingin um leið og ég sleppti orðinu. Og ekkert meir. Hún leit ekki einusinni við. Hún hélt bara áfram að lesa blaðið.

Þá var þögn í býtibúrinu. Kexskúffan var ennþá opin og ég horfði á kellinguna. Ég virti hana fyrir mér og sá þá hvað hún var gömul og feit. Og ég sá líka hvað hún var pirruð. Hún var alveg rosalega pirruð. Hún var svo pirruð að ég hefði getað sagt við hana gúgúgúgúgúgúgú búbúbúbúbú og hún hefði samt ekki sýnt nein viðbrögð.

Ég lokaði bara skúffunni. Stóð svo stundarkorn kyrr og brosti. Ef ógeðslegt og þurrt hrökkbrauð er ekki nógu gott fyrir mig, þá þarf ég bara ekkert kex. Og þannig er það bara. Svo gekk ég út.

7 Comments:

Anonymous Anonymous said...

hahahaha....ég elska pirrað fólk :) Það styttir okkur hinum stundirnar og gleður okkur svo!

2:43 AM  
Anonymous Anonymous said...

Hún hefur borðað allt góða kexið sjálf
Heidi

3:59 AM  
Anonymous Anonymous said...

Já..sammála Heiðu...þess vegna leit hún aldrei upp..hún var með fullan munninn af Frón kexi ;)

4:29 AM  
Anonymous Anonymous said...

haha...sverrir þú ert svo fyndinn!!:)

6:31 AM  
Blogger helgabarn said...

Finnst þér hrökkbrauð betra ef það er blautt?

6:48 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég held að þá kallist það lefsa.

- Önundr

3:42 PM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Hahaha lefsa. Vestanlands lefsa... þær eru vondar á bragðið.

5:41 PM  

Post a Comment

<< Home