Saturday, November 04, 2006

Staðlaða afgreiðslukonan




Ég man ekki hvenær ég byrjaði að veita þessu eftirtekt. En sennilega er nokkuð langt síðan. Þannig er nefnilega mál með vexti að það er einsog að afgreiðslukonur í sjoppum, kjörbúðum og þessháttar verslunum séu upp til hópa nokkuð svipaðar í útliti og persónuleika.

Nú má ekki skilja þetta sem svo að ég sé með þessu að fullyrða að afgreiðslukonurnar séu allar eins. Ég er frekar að reyna setja fram þá kenningu að það sé til nokkurs konar staðalímynd fyrir afgreiðslukonur í versluninni á horninu.

Í hverfinu mínu eru sjoppur og kjörbúðir. Í nokkrum þeirra hef ég rekist á mjög svipaðar útgáfur af þessari stöðluðu afgreiðslukonu sem ég held að sé til. Þær eru grannar með svart hár og það er augljóslega litað svart. Þær eru ekki mikið málaðar og bera fáa skartgripi. Þær eru frekar fámálar en þegar þær tala þá gefur röddin til kynna að þær reykja, kannski Salem eða Marlboro Lights. Þær eru kurteisar við afgreiðsluna en ef vel er að gáð er viðmótið nokkuð einkennandi. Það er eins og þeim sé eiginlega bara alveg sama um allt og alla. Þær eru bara þarna, vinna sína vinnu og fara síðan heim. Það er ekkert verið að brosa að óþörfu. Þær henda ekki fram bröndurum við afgreiðsluborðið. Svipurinn er eins og þær beri harm sinn í hljóði.

Og þær eru ekki bara í hverfinu mínu. Ég hef séð þessa grönnu, svarthærðu með salemröddina á fleiri stöðum. Þær eru í sjoppum og kjörbúðum víðsvegar í borginni.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home