Thursday, December 14, 2006

Hjólreiðagatan Langahlíð



Langahlíð er gatan sem ég keyri nokkrum sinnum á dag til þess að komast leiðina heim til mín. Gatan liggur þvert á Miklubrautina og útfrá henni ganga aðrar hlíðagötur, þar á meðal Drápuhlíðin.

Nýverið var skipulagi Lönguhlíðar breytt. Verktakar voru allt sumarið og nánast allt haustið við framkvæmdir. Gatan var þrengd úr fjögurra akreina í tveggja akreina götu. Þessum tveimur akreinum sitt hvorum megin var breytt í stíg ætluðum hjólreiðamönnum. Núna hafa gangandi vegfarendur, ökumenn og fólk á hjóli sínar brautir. Gangstétt, ökubraut og hjólabraut. Ég held að Langahlíð sé fyrsta gatan í Reykjavík sem er með þessu skipulagi. Allavega er hún með þeim fyrstu.


Kannski var Langahlíð endurhönnuð með danska fyrirmynd í huga. Á svona hjólreiðastígum hjóla Danir (og eflaust fleiri Evrópubúar) á hverjum degi fram og til baka. Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn var fólk byrjað að hjóla á svona hjólastígum fyrir klukkan sex á morgnana. Þessir hjólreiðakappar voru hressari en allt. Ég var bara Íslendingur sem fór seint að sofa og bölvaði þessum hressu Dönum sem fóru að sofa strax eftir fréttir og vöknuðu eldsnemma til að geta farið að hjóla á hjólastígum.

En hjólastígurinn í Lönguhlíð er ekki eins og hjólastígarnir á meginlandinu. Ég hef ekki ennþá séð einn einasta mann hjóla á þessum hjólastígum. Ég hef reyndar ekki tekið eftir neinu öðru en bílum á þessum stígum. Íbúar Lönguhlíðar og hlíðanna í kring virðast nefnilega ekki víla fyrir sér að leggja bílunum sínum á nýju hjólabrautunum.

Til að stemma stigu við þessu voru í upphafi sett færanleg skilti með mynd af reiðhjól á brautirnar. En í íbúarnir gerðu sérð lítið fyrir og færðu skilitin upp á gangstéttarnar. Og héldu síðan áfram að leggja bílunum sínum í trássi við skilaboðin. Síðan voru skilti með sömu mynd boruð föst í jörðina við hliðina á hjólastígunum. En allt kom fyrir ekki. Ennþá lögðu menn bílunum sínum á hjólastígana.

Borgin gafst ekki upp og bætti við skiltum. Ofan á skiltið með hjólinu var sett skilti sem bannaði fólki að leggja bílum á þessum stað. Svo leið og beið. Engin breyting varð á. Fólk hélt áfram að leggja á hljólastígana.

Og seinast þegar ég leit á skiltin þá hafði þeim fjölgað. Þriðja skiltinu hafði verið komið fyrir á sömu stöng og hin tvö skiltin héngu á. Nýjasta skiltið var mynd af pílu. Pílan þjónar sennilega þeim tilgangi að benda fólki á hvar hjólastígurinn er svo að það viti um hvaða hjólastíg hin tvö skiltin gilda. Núna ætti þetta að vera orðið nokkuð ljóst. Mynd af hjóli, bannað að leggja og píla sem bendir á hjólastíginn.

En ennþá er ekkert nema bílar á hjólastígunum. Fullt af kyrrstæðum bílum en enginn á hjóli.

9 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Stundum finnst manni eins og skipulagsfræðingar horfi of mikið á tölvuteikningarnar sínar af fólki sem er jafndreift um ímynduð svæði, ímyndaðar grasflatir eru alltaf grænar og ímynduð tré eru stór, allskostar ókræklótt og snyrtilega klippt af ímynduðum skrúðgarðyrkjumeistara. Þeir gleyma því að hér á landi er slabb á götunum, það er myrkur, grasið er grátt útí svart af skít og það er skítakuldi. Það mætti halda að menn hafi einfaldlega séð auglýsingu frá Hatting bakarínu danska þar sem skandinavísk blómarós hjólar á dömuhjóli með baguette í hjólakörfunni sinni. Alltaf er nú verið að reyna að umskapa okkur, almúgann.

5:36 PM  
Anonymous Anonymous said...

-ÖPR

5:37 PM  
Anonymous Anonymous said...

Já, en spurði ekki Dr. Mengele forðum:
" Eru bíllinn minn ekki líka hjól?"

12:19 AM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Önni: Akkúrat.

Gúrbi: Hvað ertu að tala um? Ég skil ekki baun. :)

3:42 AM  
Anonymous Anonymous said...

hahaha...Gúrbi er bestur :)
Ég ætla að leggja bílnum mínum næst á hjólastígnum við vinnuna og vitna í Dr.Mengele ;)

4:36 AM  
Blogger Bjarki Gunnar Halldórsson said...

Já, þetta er satt. Hjólin eru í fljótu bragði erfið viðureignar hvað varðar íslenskar aðstæður. Samt sem áður er margt sem mælir með aukinni hjólreiðamenningu. Það sem bara svo oft vantar er að hugsa hugmyndina lengra. Eflaust gæti hjólreiðastígurinn verið bílastæði á veturna, þá er hvort sem er enginn að hjóla, en á sumrin verið alvöru hjólreiðastígur.

8:51 AM  
Anonymous Anonymous said...

Á maður ekki að reiða hjólið sitt á hjólreiðagötu?

6:33 AM  
Anonymous Anonymous said...

Nýjasta dæmið eru hugmyndir um nýjan miðbæ í Garðabæ. Ég sá einhverja teikningu af þessu torgi sem þar er fyrirhugað, ágætishugmynd og allt það. Hins vegar vakti litavalið athygli mína. Skv. teikningunni virðist að þetta torg verði allt lagt líparít- og kalsteinshellu. Allt ljómandi, gyllt eiginlega. En hvernig verður þetta svo í alvörunni? Það verða notaðar gráar hellur frá BM Vallá alveg eins og alls staðar annars staðar. Bætið við kræklóttum birkitrjám, snjóföl og dósagámi sem er búið að spreyja á og þið fáið hið óumflýjanlega íslenska torg.

1:36 PM  
Anonymous Anonymous said...

- ÖPR!

1:37 PM  

Post a Comment

<< Home