Monday, June 19, 2006

Batterí í klósettinu

Í gær var ég í heimsókn hjá Óla Ísberg vini mínum. Við vorum að fara að horfa á Ísland-Svíþjóð í handboltanum. Það var ýmislegt í gangi eins og t.d. það að Óli var að hita kaffi fyrir mig og ég var í sófanum að bíða eftir kaffinu. Svo varð mér skyndilega mál, ég þurfti að fara á klósettið.

Óli á eitthvert bláasta klósett sem til er í heiminum. Það er svo blátt á litinn að það er ótrúlegt. Í hvert sinn sem ég kem inn á baðherbergið hjá Óla, þá segi ég við sjálfan mig: “Vá, hvað þetta er blátt klósett.” En þetta klósett er nú svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að í þetta skipti voru ofan í því batterí. Já, það voru batterí ofan í klósettinu hjá Óla. Tvö venjuleg batterí voru ofan í klósettinu, svona AA batterí held ég að þau séu kölluð. Og þegar ég sá batteríin, þá fór ég að hugsa. Hvernig í fjandanum komust batterín í klósettið?

Mér duttu í hug allskonar tilgátur um það hvernig batteríin enduðu í þessu klósetti. Sumar tilgáturnar voru ansi skrautlegar, vægast sagt. Þegar ég kom fram eftir að hafa verið á klósettinu, þá sagði ég Óla og Lilju, sem var þarna með okkur, frá því að það væru batterí í klósettinu. Og svo sagði ég þeim frá einni tilgátunni sem mér hafði dottið í hug. Ég sagði þeim frá tilgátu sem mér þótti mest við hæfi að segja og þau hlógu mjög mikið. Tilgátan gekk út á það að einhverjum hefði verið “mikið mál”, farið á salernið og að þetta, tvö batterí, hafi verið afraksturinn. Einsog ég sagði þá fannst mér þessi tilgáta mest við hæfi en hún er kannski ekki líklegust til að vera rétt. Líklegra er til dæmis að einhver hafi verið með þessi batterí í höndunum og bara hent þeim ofan í klósettið. Það er sennilega líklegasta skýringin. En þegar ég hafði sturtað niður, þá sá ég að það var bara eitt batterí eftir. Hitt hafði skolast burt og er núna á botninum á Faxaflóa, eða kannski í maganum á heimskum fiski sem hefur átt leið hjá og ekki getað staðist freistinguna um að éta batteríið.

4 Comments:

Blogger Ari Eldjárn said...

Var bláa klósettið ekki bara svo hægrisinnað að það losaði sig við vinstra batteríið til að vera ekki með neitt miðjumoð?

5:23 AM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Jú, það hlýtur að vera. "Í fréttum er þetta helst: Hægrisinnað klósett losaði sig við vinstrisinnað batterí". En fiskurinn sem át síðan batteríið hlýtur þá að vera einskonar Framsóknarfiskur, þar sem hann virðist éta allt sem að kjafti kemur.

10:19 AM  
Blogger Ari Eldjárn said...

Hahahahahaha!!! Djöfull erum við vitlausir maður! Bloggaðu meira svo ég geti haldið áfram að kommenta! Vel á minnst Sverrir, manstu þegar Bjarki róni vann nafnakeppni MT fyrir ljóta stólborðið með uppástungunni "mamma"? Nú er búið að stofna fyrirtæki sem HEITIR "mamma"!!!! Talandi um að vera á undan samtíma sínum...

4:11 PM  
Anonymous Anonymous said...

Heyr á endemi! Þarf nú líka elektrón til að fara á klósettið??

4:43 PM  

Post a Comment

<< Home