Thursday, June 15, 2006

Notandanafn og lykilorð

Dagurinn í dag fór í að henda reiður á öllum þeim lykilorðum sem ég hef lært undanfarna daga. Og það er ekkert spaug. Síðan ég byrjaði að vinna í sumar þá hef ég þurft að læra mjög mörg ný notendanöfn og lykilorð. Allskonar ný notendanöfn og lykiorð sem ganga að allskonar nýjum forritum sem eiga að gera mér kleift að gera hitt og þetta.

Ég er mjög lélegur í að muna lykilorð, og sem dæmi þá er ég með miða í veskinu mínu þar sem ég er búinn að krota á öll leyninúmer og PIN kóða sem hugsast getur. En ég er mjög lúmskur því að leyninúmerin eru falin innan í uppskálduðum símanúmerum. T.d. er númerið á Landsbankadebetkortinu mínu í símanúmerinu sem “Palli” á. Bæði símanúmerið og “Palli” eru uppskálduð en hluti símanúmersins er PIN kóðinn fyrir debetkortið. Og símanúmerið hjá “Evu” inniheldur PIN kóðann á Svarta kortinu mínu. Svo er ég með fleiri uppskálduð nöfn og fleiri uppskálduð símanúmer og auðvitað hefur það komið oft fyrir að ég man ekkert hvaða nafn stendur fyrir hvaða kort svo að ég hef staðið kolruglaður með þessa uppskálduðu símaskrá og ekki haft hugmynd um hvaða “símanúmer” á við kortið sem ég ætla taka út af í hraðbankanum.

En sem betur fer ég er búinn að skrifa öll nýju notendanöfnin og lykilorðin á lista og ætla svo sannarlega að standa mig í því að glata ekki listanum. Þá væri ég algjölega úti á þekju í nýju vinnunni. Með tölvu og voða flottheit en gæti ekki einusinni komist inn í hana. Þannig að ég ætla geyma þennan lista á góðum stað og það er ekki séns að ég búi til gervisímaskrá sem inniheldur þessi lykilorð dulbúin sem símanúmer. Það væri t.d. fáránlegt ef ég stæði mig að því að vita ekki hvort ég ætti að nota símanúmerið hans “Gunna” eða “Dodda” til þess að logga mig inn í Windows.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ef menn kunna ekki a.m.k. 7 lykilorð og notandanöfn nú til dags þá vantar einhvern hluta í lífið. Lenti einmitt í svipuðu þegar ég byrjaði í mínu starfi í júní - þurfti ég að læra inn á 5 forrit og með þeim öllum auðvitað notandanafn og lykilorð! En þar sem ég er mjög góð að læra tölur utan að tókst mér fljótt að læra þetta. Nokkuð hart fyrir sumarstarfsmenn verð ég að segja. :)
Tölvur, símar, heimabankar, aðgangur að byggingum, debetkort, kreditkort og fleira - ekkert af þessu er nægilega nytsamlegt án lykilorðs og notandanafns!!

Heiða systir - blog.central.is/jus

4:30 PM  
Blogger Ari Eldjárn said...

Einfaldasta leiðin er að nota skammstafanir. Ef þú þarft t.d. að muna pin-númer fyrir Debet og Kredit, Gemsa og Aðgangskóða að Vinnu og Heimili, login fyrir Tölvuna, Heimabankann og E-mail, þá tekurðu stafina DKVGHTHE og býrð til úr þeim setningu; "Davíð kynnist vel gefnum hárgreiðslumanni tegar hann eldist." Þá geturðu....nei... Jú, þú tekur svo Pin-númerin sem eru kannski 1355, 4893, 2059, 2039, 6053, 5943, 5069, 9659 og...leggur þau saman; 37270 og deilir svo með 8: 4658, 75 og þá...nei...

Svo geturðu líka bara skrifað þetta á blað! Jájá, frændi minn.

7:37 AM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Jájá frændi minn!! Heimur þjóðar! Ég gerði eins og þú sagðir mér, lagði saman öll lykilorðin og dró frá og margfaldaði og fékk út: PIZZA. Sem er snilld!!! Núna man ég allt!!! Bara PIZZA og þá er það komið! Jájá frændi minn. Heimur þjóðar.

11:06 AM  

Post a Comment

<< Home