Sunday, January 21, 2007

Smørrebrøð út um allt



Undanfarna daga hef ég verið daglegur gestur á Læknadögum á Nordica Hóteli. Þar er boðið upp á fyrirlestra, málþing, hádegisverðafundi, verklegar vinnubúðir og að sjálfsögðu allskonar mat og dótarí í boði lyfjafyrirtækja.

Ég fór á allskonar fyrirlestra og lærði heilmargt. Hiti hjá börnum, lungnabólga, meðfæddir hjartagallar, hyperparathyroidismus (kalkvakaofgnótt á íslensku!!) var það sem ég sá meðal annars.

Ég fór líka á einn fancy hádegisverðarfund um almannatengsl í heilbrigðisþjónustu. Þar voru saman komnir stórlaxar af spítalanum og aðstoðarfréttastjóri RÚV. Á boðstólnum voru fancy brauðsneiðar, nokkurs konar smørrebrøð, með laxi, roastbeef, rækjum og parmaskinku. Þetta var vel útilátið vægast sagt.

Ég sat á borði með nokkrum aðilum af spítalanum. Yfirlæknir, sérfræðingar og umsjónardeildarlæknir sátu við borðið meðal annarra.

Áður en fólkið tók til matar síns horfði ég á bakkann með smørrebrøðinu á miðju borðinu. Mér fannst spaðinn sem maður átti að nota til að ferja sneiðarnar frekar lítill og væskilslegur miðað við smørrebrøðið. Og það fyrsta sem ég hugsaði: Vá hvað það væri nú neyðarlegt ef einhver myndi klúðra smørrebrøðinu af spaðanum. Maður myndi líta út eins og algjör lúði.

Svo var komið að mér að fá mér smørrebrøð númer tvö. Það fyrra var gómsætt. Ég var fullur sjálfstrausts. Greip spaðann, skelltu honum undir eina sneiðina og ætlaði að kippa henni á diskinn minn. En það var ekki það sem gerðist. Einhvern veginn tókst mér að vippa fína smørrebrøðinu í fangið á mér. Ég bókstaflega kastaði sneiðinni beint framan á mig með spaðanum.

Þá störðu sessunautar mínir á mig. Og mig langaði til að gufa upp, hverfa frá borðinu. Svo leit ég niður og sá að smørrebrøðið var ekki lengur eins og smørrebrøð heldur var það komið í öreindir. Það var gjörsamlega dreift út um allt. Það var á buxunum, á peysunni, á stólnum og á dúknum. Það eina sem hrökk upp úr mér var:

- Æ, demit.

Svo var mér skyndilega rétt servíetta og ég reyndi að tjasla saman leifunum af smørrebrøðinu. Svo þurrkaði ég það sem eftir var af frómasinu og laxinum á dúknum og peysunni. Ég tíndi saman stærstu leifarnar á diskinn minn. Svo reyndi ég með gafflinum að endurbyggja smørrebrøðið. En það sem var á diskinum var orðið að einhverri kássu. Langt í frá að vera kræsilegt. Ég lagði frá mér gaffalinn. Og svo reyndi ég bara að láta lítið fyrir mér fara og þóttist vera mjög einbeittur að fylgjast með umræðunum um almannatengsl í heilbrigðisþjónustu.

10 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ohh Sverrir...þetta hlýtur að hafa verið neyðarlegt.

Þú hefðir getað líka bara sagt pent..."Hafið mig afsakaðann.." og farið undir borð og öskrað..og sest svo aftur í stólinn þinn eins og ekkert hefði gerst ;)

Finnst samt töff að þú tapaðir ekki kúlinu.

6:09 AM  
Blogger Dr. Sverrir said...

já þetta var neyðarlegt :) en ég tapaði samt kúlinu... þetta var bara svona halló!!! sjáiði mig ég er bjáni!!! :)

8:12 AM  
Blogger Rustakusa said...

nei, þetta er bara krúttlegt og fyndið :-)
Eflaust hafa allir við borðið hugsað það sama, þannig að þú bara braust ísinn.
Næstu sneiðar (hjá öðrum þ.e.)( það hefði nú verið of mikið að skella tveimur eða þremur í kjöltuna) sem fokið hefðu af spaðanum hefði verið vandræðalaust.

Og eitthvað nýtt í hitamálum barna?
Fer fólk ekki að hætta þessu stílakjaftæði?

4:19 PM  
Blogger Ingibjörg góða! said...

Sverrir frændi minn - ég elska þig samt!

1:58 AM  
Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með afmælið brósi minn ;)
Hafðu góðan dag í dag... *knús*

2:52 AM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Rustakusa: Já, það sem er mest spennandi að gerast núna í heilbrigðismálum er víst í Byrginu. Þeir framleiða víst mjög vinsæl video!!! :)

Svanhildur: Takk fyrir það :) gaman að eiga afmæli!!!!

6:47 AM  
Blogger Fríður said...

Til hamingju með daginn fallegi frændi...

kl hvað á ég að mæta í kökur ?

7:06 AM  
Blogger Ingibjörg góða! said...

Elsku hjartans fríði frændi - til hamingju og blessunar með afmælið......

7:58 AM  
Blogger Dr. Sverrir said...

takk takk :)

9:22 AM  
Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með daginn um daginn Sverrir minn!! Ég sem hélt að kalk-vaka-ofgnótt væri: Þegar maður væri orðinn kalkaður og ætti erfitt með svefn.......EN svo lærir maður það rétt áður en maður er kominn í "áhættuhópinn" að svo er EKKI og segir bara við sjálfan sig: HJÚKKIT MAÐUR!!!!! kveðja frá Tenerife.....Hjördís frænka:)

7:25 AM  

Post a Comment

<< Home