Tuesday, January 02, 2007

Gamlárspartý með klámhundum



Eins og venjan er þá fór ég í veislu með fjölskyldunni á gamlárskvöld. Við vorum saman komin hjá frænku minni sem býr í Vesturbænum. Þarna voru ættingjar mínir og kunningjafólk en einnig voru í húsinu þrír hundar.

Tveir þessara hunda eru systkini. Þau eru svört, lítil og loðin og heita Fróði og Freyja. Fróði er aðeins loðnari og meiri um sig en systir hans. Þau systkinin eru svolítið stressaðar týpur og eru stundum á þeytingi en geta líka verið stillt og prúð. Þriðji hundurinn var frekar stór blendingstík, undirgefin, fyrirferðarlítil og ósköp ljúf og hét Fía.

Við í fjölskyldunni höfðum komið okkur fyrir í sófunum í stofunni og sátum í hring og vorum að spjalla. Umræðuefnið var eitthvað frekar hversdagslegt. Veislan var rétt að byrja og við biðum eftir því að maturinn yrði tilbúinn.

Og á teppinu í stofunni, í miðjunni á hringnum sem sófarnir og stólarnir mynduðu, voru Fróði og Freyja. Þau voru að leika sér. Og við vorum öll að fylgjast með hundunum leika sér. Við dáðumst að því hvað þau léku sér fallega saman.

Ég er nokkuð viss um að ég geti fullyrt að enginn okkar gestanna hafi getað séð það fyrir að svona angurvær og falleg stund gæti á augabragði snúist upp í andstæðu sína. Sú manneskja væri áreiðanlega gædd yfirnáttúrulegum spádómshæfileikum ef hún hefði séð það fyrir að þessi hugljúfa stund myndi breytast eins og hendi væri veifað í argasta klám og sifjaspell.

Því skyndilega og öllum að óvörum byrjaði litli loðni Fróði að gelta digurbarkalega og svo stuttu síðar hljóp hann að systur sinni. Hann stökk með framlappirnar upp á afturendann á henni, hagræddi sér dólgslega og byrjaði svo að hamast á henni eins og hann ætti lífið að leysa.

Þessi athöfn stóð yfir í þónokkra stund. Á meðan þetta var í gangi breyttist andrúmsloftið í stofunni. Þögnin var í hæsta máta vandræðaleg. En nokkrir gestanna sem tjáðu sig upphátt um að sem fyrir augum bar. „Það er nú aldeilis,“ var það að fyrsta sem heyrðist kallað í stofunni og ísinn var þarmeð brotinn. Síðan reyndi eigandi hundanna að kalla til þeirra: „Svona hættiði þessu“. En þau létu skipunina sem vind um eyru þjóta og virtust njóta athyglinnar í botn.

En svo gerðu þau hlé á sýningunni og Fróði hætti að hamast á systur sinni. Hann lagðist þess í stað niður kylliflatur og iðaði allur og lék á reiðiskjálfi og pískraði eins og að hann væri að drepast úr greddu. Þá byrjaði systir hans að sleikja hann. En þá var hrópað úr sófanum: „Sko, þetta fær hann að launum“.

En allt var ekki búið enn. Því Fróði stökk á fætur og hoppaði aftur upp á systur sína með byrjaði að hamast af sömu áfergju og áður. Þá æpti einhver gesturinn: „Sifjaspell,“ og var greinilega algerlega misboðið.

Og þessi seinni hálfleikur í æsandi en vafasömum atöfnum systkinanna varði mun skemur en sá fyrri. En rétt undir lokin kom þriðji hundurinn, hin ljúfa Fía, valhoppandi. Og þegar hún sá ósköpin snarstöðvaði hún, rak svo upp stór augu og byrjaði að gelta. „Fía vill að þið hættið þessu,“ sagði einhver í stofunni. En einhver svaraði um hæl: „Nei, ætli hún vilji bara ekki vera með þeim í þessu“. Og einmitt þá hættu systkinin og hlupu út úr stofunni. Gestirnir horfðu hver á aðra, ýmist kímnir eða óttaslegnir á svip. Svo var maturinn tilbúinn.

7 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Huhh! Það er nú aldeilis!

Heyr á endemi!

8:15 AM  
Anonymous Anonymous said...

Huhh! Það er nú aldeilis!

Heyr á endemi!

8:15 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ja hérna mig hér, Sverrir minn!! Það sem á þig er lagt!!! hahahaha!!! Vona að þú sért búinn að ná þér eftir allan dónaskapinn, en úr því að þetta var endurtekið þá á maður nú sennilega að segja "dónasköpin" eða er það ekki ?? (svona í ft.)
Gleðilegt nýtt ár elskan!!!
kveðja, Hjördís frænka :)

1:04 PM  
Blogger Rustakusa said...

Ja hérna hér, í hvurslags félagsskap ertu búinn að koma þér í.

3:16 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég get svo svarið það...hvers konar félagsskap er litli bróðir minn í??? ;)
Sódóma Reykjavíkur í Vesturbænum...hnusss bara.

Bíð ennþá eftir sér blogg um stóra plastkassann sem þú kallar "síma".
Hann er svo gamall þessi sími að þú þarft að tala dönsku í hann á sunnudögum!

4:47 PM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Já ég veit, þetta er ekki sími heldur telefon. :)

5:32 AM  
Anonymous Anonymous said...

Þetta er vasaljós með innbyggðum síma. ;)

6:20 AM  

Post a Comment

<< Home