Tuesday, December 19, 2006

Dave Navarro og Carmen Electra



Ég horfði á þátt á Skjá Einum um daginn sem fjallaði um undirbúning brúðkaups tveggja stjarna í Hollywood. Þetta voru rokkstjarnan Dave Navarro, sem var í Red Hot Chili Peppers og stjórnaði þættinum Rock Star: Supernova og glamúrgellan, leik- og söngkonan Carmen Electra.

Þau voru semsagt ástfangin upp fyrir haus og á leiðinni að ganga í það heilaga. Í þættinum var sýnt frá allskonar uppátækjum turtildúfnanna. Dave Navarro ákvað meðal annars að fara í ristilúthreinsun fyrir giftinguna. Honum fannst hann vera eitthvað svo óþægilega mikið spenntur innan í sér að hann hreinlega þurfti á smá losun að halda. Hann kvaðst einnig með þessu vera að nýta sér síðasta tækifærið sitt til að geta borgað kvenmanni fyrir að „snerta sig“.

Svo brunaði Navarro til miðaldra kerlingar sem kvaðst vera sérfræðingur í ristilúthreinsun. Kerlingin sagði þessa iðju sína vera allra meina bót því að líkaminn væri fullur af skít eða eins og hún orðaði það: Your body is full of shit. Svo veifaði hún dauðhreinsaðri plastslöngu í myndavélina og hófst síðan handa við að losa Navarro ræfilinn við alla innri spennu.

Carmen fór ekki í neina slíka úthreinsun í þættinum. Hinsvegar heimtaði hún að þau yrðu bæði sprautuð með B12 vítamíni í rassinn fyrir giftinguna. Kannski missti ég af því en það kom ekki fram afhverju hún vildi vítamínsprautu í rassinn. Ef til vill óttaðist hún bráðan vítamínskort í
giftingunni sem hugsanlega gæti stuðlað að algjöru heilsuleysi þeirra beggja og þannig komið í veg fyrir hjónabandið. Engin vítamínsprauta ekkert hjónaband.

En læknirnn var kallaður til með sprautur og vítamín. Carmen byrjaði á því að sprauta Navarro í afturendann og sagðist hann ekki finna fyrir neinu en bar sig þó ekkert sérstaklega vel. Navarro vildi síðan sprauta Carmen í rassinn en hann fékk það ekki. Hún var víst eitthvað efins um að rokkarinn væri fær um slíkt. Henni var greinilega mjög annt um bossann sinn.

Daginn eftir að ég sá þennan þátt ætlaði ég að brydda upp á spennandi umræðum um nýjasta slúðrið í Hollywood. Ég var staddur í kunningjahóp og sagði frá þættinum um Carmen og Navarro. Ég sagði frá þessu hreykinn og glaður í bragði því að mér þótti þetta svolítið skemmtilegt.

En upp úr dúrnum kom að allt þetta sem ég hafði sagt voru gamlar fréttir. Ég væri ekki að segja neitt nýtt. Allir vissu allt um málið. Og í lokin var mér tjáð að Carmen og Navarro væru löngu fráskilin. Þau höfðu skilið fyrir mörgum mánuðum.

3 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Helv.íslenska sjónvarpið...svo aftarlega á merinni að við erum löngu dottin af baki ;)

Og brósi tapaði kúlinu á því að reyna að slúðra um fræga fólkið.
Bömmer :)

En..ég vil taka það fram að hvorki ég né Ranald ætlum okkur að fá B12 vítamínsprautur..né ristilhreinsanir fyrir okkar brúðkaup (e.ca 8 mánuði).

Kannski eru fótanudd og andlitsböð ekki "in" lengur...B12 og rassaskolun komin í staðin.

4:05 PM  
Blogger Dr. Sverrir said...

Góða ferð til London :) og skilaðu kveðju til Ranalds.

6:08 AM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ elsku frændi og gleðileg jól elskan!! Vildi bara segja þér að Titanic er sokkið og Kristjá IX Danakonungur er dáinn!!!! Veit að þetta eru erfið tíðindi fyrir þig svona um jólin Sverrir minn en einhver varð að færa þér slæmu fréttirnar!! Þin frænka Hjördís:)

4:59 AM  

Post a Comment

<< Home