Ég var í þrjár vikur í verknámi á lyflækningadeild FSA í vor. Læknadeild útvegaði mér húsnæði á Akureyri. Ég bjó á íbúðahóteli sem var alveg í miðbænum, steinsnar frá ráðhústorginu og rétt hjá Sjallanum. Í tuttugu skrefa fjarlægð var Café Amor. Kaffi Akureyri var einnig rétt hjá sem og bíóið. Snilldarstaðsetning.
Móttökurnar á FSA voru til fyrirmyndar. Sérfræðingarnir gáfu sér tíma til kenna manni og maður fékk tækifæri til að spyrja og spreyta sig. Ég var eina viku á meltingu, eina á hjarta og eina á lungna. Svo tók ég fullt af vöktum. Hápunkturinn var sennilega sjúkraflugið sem var AKUREYRI-EGILSSTAÐIR-REYKJAVÍK-AKUREYRI. Einnig fór ég á skurðlæknaþingið og eftir það út að borða og á "ball" með skurðlæknum og læknanemum á Hótel KEA.
Myndin er tekin um borð í sjúkraflugvélinni.
Það snjóaði massíft allan tímann sem ég var á Akureyri. Það var yfirleitt kafaldsbylur. Mannhæðarháir skaflar mynduðust. Akureyrarbær er byggður í brekku (snarbrattar brekkur allstaðar sem maður lítur) og þar sem ég var fótgangandi var ég sífellt að ganga upp ísi lagðar götur eða algjörlega ófæra troðninga. Svo þegar ég þurfti að komast niður brekkurnar þá gat ég ekki gengið heldur varð að renna mér - ég held að ég hafi skautað niður hverja einustu brekku á Akureyri - á leðurskóm.
Akureyri er alls ekki hönnuð með gangandi vegfarendur í huga. Á Akureyri eru allir á bíl. Menn keyra fram og til baka, í öllum erindagjörðum á bíl, og horfa gapandi út um gluggann á þá sem eru fótgangandi: Hver skyldi vera þarna á ferð? Nei, sko er nýr maður í bænum? Og bara fótgangandi... hann hlýtur að vera eitthvað skrýtinn... hann hlýtur að vera drukkinn.
Svo mikil er bílamenningin að það er siður að keyra í hringi í miðbænum. Þetta hreyfingarleysi bæjarbúa hefur orsakað offituvandamál. Mín tilgáta er sú að um það bil 95% Akureyringa séu of feitir, sérstaklega kvenþjóðin. Það er leitun að grönnum kvenmanni á Akureyri.
Ég hafði oft lagt leið mína í gegnum miðbæinn og útað höfninni. Við höfnina var skip sem var augljóslega í niðurníðslu, algjör ryðkláfur. Ryðtaumarnir á því voru svo áberandi að það sætir furðu að skipið hafi ekki verið fjarlægt fyrir löngu síðan. Það er að mínu mati skömm að þessari ryðhrúgu, hún varpar skugga á annars ágætlega útlítandi miðbæinn.
Ég fór einusinni að tala um þetta skip í vaktherberginu á lyflækningadeildinni. Þegar ég hafði sagt mína skoðun og berlega gefið í skyn hvað mér fyndist um þessa ryðdollu þá komst ég að því að sem gestur í bæ verður maður að gæta tungu sinnar. Mér var úthúðað af nærstöddum starfsmönnum, sjúkraliðum, hjúkkum og læknum. Meira að segja reyndi útlendur sjúkraþjálfari að skammast í mér á bjagaðri íslensku. Mér var sko aldeilis gert ljóst að þetta skip væri enginn ryðdallur heldur dýrmætt og sögulegt skip, hvorki meira né minna en bæjarprýði sem sameinaði Akureyringa í anda.
En nokkrum dögum síðar, einmitt í þessu sama herbergi, vakherberginu á lyflækningadeild, náði ég hátindi frægðar minnar og vinsældar á Akureyri. Í vaktherberginu er stór og mikill gluggi þar sem maður getur séð yfir allan fjörðinn. Það var þegar snjóhríðinni slotaði um stundarsakir að ég vatt mér uppað glugganum. Mig hafði alltaf langað til að sjá "Pollinn" á Akureyri. Ég hafði ímyndað mér hann lítinn og sætan, jafnvel svo smágerðan að hann sæist ekki úr fjarlægð. Ég stóð þarna við gluggann og virti fyrir mér útsýnið, sá fjöllin og allan fjörðinn stóran og mikinn og reyndi svo að koma auga á lítið vatn eða litla tjörn, sem gæti samrýmst "Pollinum".
Hvar er svo þessi Pollur, spurði ég hátt og snjallt.
Dauðaþögn. Allir litu upp og horfðu á mig. Nú voru fleiri í vaktherberginu en þegar ég sagði skoðun mína á ryðdallinum. Ónei, ekki aftur hugsaði ég. Svo byrjaði einhver að flissa og síðan komu hlátrasköllin. Menn tóku bakföll og hlógu í kór lengi lengi. Fjörðurinn sem þú sérð drengur, já allur þessi sjór þarna, þetta er Pollurinn. Velkominn til Akureyrar.
6 Comments:
Hey!! Ég er frá Akureyri og ég er mjó!!
Snilldarsaga samt;)
Hvernig gengur svo klámmyndabransinn herra Sverrir? Ætlarðu að hætta þessu læknisfræðirugli í eitt skipti fyrir öll? P.S. Ef öll fjölskyldan manns er prýðis laxveiðimenn þýðir það að maður er ættarskömm ef maður sofnar alltaf í grynningum þegar maður reynir? Það er bara svo gott að liggja í hálfkafi þegar maður er í vöðlum. Og svo er líka gott að sofa. Sólveig
Allý, þú ert ekki baun frá Akureyri... þú heldur það bara.
Sólv., ég skil ekkert hvað þú ert að fara. Jújú þetta er örugglega bara eitthvað svona hausinn oní maga maginn oní skó, reima svo fyrir og hend'onum útí sjó.
Þú sverð þig í ættina...sumum finnst við óheppin, öðrum finnst við vera skrítin. En við erum sér afbrigði af homo sapien. Vont en það venst ;)
Það er vont bara fyrst og svo verður djöfullegra en orð fá lýst.
Post a Comment
<< Home