Friday, July 14, 2006

Veiðiferð í Svarthöfða í Hvítá


Um daginn fór ég með fjölskyldunni að veiða lax í Hvítá í Borgarfirði. Veiðisvæðið heitir Svarthöfði (jájá alveg eins og í Star Wars nema bara þetta er veiðistaður en ekki illmenni) og er þar sem Flókadalsá rennur út í Hvítá. Við áttum kvöldvakt og morgunvakt daginn eftir. Með svæðinu fylgir lítið og fallegt veiðihús. Við veiddum 5 laxa, einn sexpunda og fjóra fimmpunda. Þeir voru silfraðir og grálúsugir og lúsin var með hala. Það þýðir að þeir voru alveg nýgengnir í ána. Laxarnir losa sig nefnilega við lúsina á fyrstu sólarhringunum eftir að þeir koma í ferskvatnið. Stundum getur maður séð kríuna steypa sér hnitmiðað til að kroppa lýsnar á yfirborði árinnar og þá veit maður að það er veiðivon. Þetta var ágæt byrjun á laxveiðinni hjá mér. Ég á hinsvegar eftir að fara í átta daga í Grímsá í haust einsog undanfarin ár.


Ég og Gunni brósi vorum að fíflast í tölvunni í sumarbústaðnum okkar áður en við lögðum í hann.



Ég og systir mín fyrir utan veiðihúsið. Hún fékk einmitt maríulaxinn sinn í þessari ferð. Og ég er í nýju rándýru SIMMS vöðlunum mínum. Mér hlýnar um hjartarætur þegar ég hugsa um nýju vöðlurnar mínar.

Hérna er ég í kunnuglegum stellingum með fluguna. Til þess að fá fisk verður maður að trúa því að hann taki fluguna. Jafnframt verður maður að vera einbeittur en samt líka æðrulaus. Þrátt fyrir að vera þaulvanur veiðimaður á ég það til að verða frústreraður ef ég fæ ekki fisk fljótlega. Sérstaklega ef það er mikill fiskur og aðrir eru búnir að fá fisk. Laxinn getur sótt á sálina hjá mér. Spyrjði bara pabba, hann hefur þurft að veita mér nokkurs konar áfallahjálp í löngum og ströngum veiðitúrum.

Einn fimmpundari á land og allir kampakátir. Mig minnir að þessi hafi tekið flugu sem heitir Snælda. Frá vinstri: Nonni, Gunni bróðir, Pabbi og svo auðvitað meistarinn. Pabbi þolir ekki húfuna sem ég er með á þessari mynd en ég er alltaf með hana í veiðiferðum, bæði vegna þess að hún er hlý og laus við allt yfirlæti, en svo finnst mér líka nett gaman að því að pabbi skuli taka húfuna svona nærri sér.

En þetta var skemmtileg veiðiferð. Ég keyrði heim klukkan þrjú um nótt. Að bruna eftir þjóðveginum svona seint um nótt er einsog að vera í draumi.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Flottar myndir ;) Og mér finnst að við eigum öll að fá okkur svona húfur eins og þú átt og mæta með í Grímsá í haust...

12:33 PM  

Post a Comment

<< Home