Wednesday, January 31, 2007

Á forsíðunni


Að sjálfsögðu er kallinn á forsíðu námsskrár Landspítalans 2007. Þarna er ég með Sigrúnu og Hannesi sem eru líka læknanemar.



Wednesday, January 24, 2007

Babel



Ég fór á myndina Babel um daginn. Þetta var mjög fín mynd. Þetta var svona menningarmynd. Maður fær að skyggnast inn í ólíka menningarheima og fylgjst með fólki af ólíkum þjóðarbrotum. Bara voða voða fín mynd sem fær mann til að hugsa. Það var líka heví cool þegar ein japanska stelpan gafst upp á bullinu og fór úr nærbuxunum og var bara í pilsinu að djamma!!!

Sunday, January 21, 2007

Smørrebrøð út um allt



Undanfarna daga hef ég verið daglegur gestur á Læknadögum á Nordica Hóteli. Þar er boðið upp á fyrirlestra, málþing, hádegisverðafundi, verklegar vinnubúðir og að sjálfsögðu allskonar mat og dótarí í boði lyfjafyrirtækja.

Ég fór á allskonar fyrirlestra og lærði heilmargt. Hiti hjá börnum, lungnabólga, meðfæddir hjartagallar, hyperparathyroidismus (kalkvakaofgnótt á íslensku!!) var það sem ég sá meðal annars.

Ég fór líka á einn fancy hádegisverðarfund um almannatengsl í heilbrigðisþjónustu. Þar voru saman komnir stórlaxar af spítalanum og aðstoðarfréttastjóri RÚV. Á boðstólnum voru fancy brauðsneiðar, nokkurs konar smørrebrøð, með laxi, roastbeef, rækjum og parmaskinku. Þetta var vel útilátið vægast sagt.

Ég sat á borði með nokkrum aðilum af spítalanum. Yfirlæknir, sérfræðingar og umsjónardeildarlæknir sátu við borðið meðal annarra.

Áður en fólkið tók til matar síns horfði ég á bakkann með smørrebrøðinu á miðju borðinu. Mér fannst spaðinn sem maður átti að nota til að ferja sneiðarnar frekar lítill og væskilslegur miðað við smørrebrøðið. Og það fyrsta sem ég hugsaði: Vá hvað það væri nú neyðarlegt ef einhver myndi klúðra smørrebrøðinu af spaðanum. Maður myndi líta út eins og algjör lúði.

Svo var komið að mér að fá mér smørrebrøð númer tvö. Það fyrra var gómsætt. Ég var fullur sjálfstrausts. Greip spaðann, skelltu honum undir eina sneiðina og ætlaði að kippa henni á diskinn minn. En það var ekki það sem gerðist. Einhvern veginn tókst mér að vippa fína smørrebrøðinu í fangið á mér. Ég bókstaflega kastaði sneiðinni beint framan á mig með spaðanum.

Þá störðu sessunautar mínir á mig. Og mig langaði til að gufa upp, hverfa frá borðinu. Svo leit ég niður og sá að smørrebrøðið var ekki lengur eins og smørrebrøð heldur var það komið í öreindir. Það var gjörsamlega dreift út um allt. Það var á buxunum, á peysunni, á stólnum og á dúknum. Það eina sem hrökk upp úr mér var:

- Æ, demit.

Svo var mér skyndilega rétt servíetta og ég reyndi að tjasla saman leifunum af smørrebrøðinu. Svo þurrkaði ég það sem eftir var af frómasinu og laxinum á dúknum og peysunni. Ég tíndi saman stærstu leifarnar á diskinn minn. Svo reyndi ég með gafflinum að endurbyggja smørrebrøðið. En það sem var á diskinum var orðið að einhverri kássu. Langt í frá að vera kræsilegt. Ég lagði frá mér gaffalinn. Og svo reyndi ég bara að láta lítið fyrir mér fara og þóttist vera mjög einbeittur að fylgjast með umræðunum um almannatengsl í heilbrigðisþjónustu.

Thursday, January 11, 2007

Sverrir vinnur ekki lengur hjá Borgarspítalanum.



Sverrir vinnur núna hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi.

Monday, January 08, 2007

Tja... eins og í tjakkur?



Tja... ég veit það nú ekki alveg.
Tja... vandi er um slíkt að spá.

Eins og sjá má á dæmunum hér að ofan grípur fólk stundum til orðsins „tja“ þegar það er að hugsa sig um eða er ekki alveg visst um hvað það ætlar að segja. En stafirnir sem mynda orðið „tja“ eru þeir sömu og fyrstu þrír stafirnir í orðinu „tjakkur“. Ekki skyldi mann undra þó að einhver ræki nú upp stór augu því að svo gæti verið að löng leit á uppruna orðsins „tja“ sé loksins á enda. Málvísindamenn hafa nefnilega leitað uppruna orðsins tja í meira en 100 ár.

Niðurstaðan er semsagt sú að sá sem fyrstur sagði þetta „tja“ hafi ekki ætlað að segja bara tja... heldur hafi hann ætlað að segja „tjakkur“. Einhver hlýtur að hafa gripið fram í fyrir þessum upphafsmanni tja-sins þannig að hann náði ekki að ljúka við setninguna. Nærstaddir hafa á þeim tíma að öllum líkindum dregið þá ályktun að tja væri nýtt orð sem væri gott að grípa til í óvissu eða þegar maður hugsaði sig um. Og þannig gæti orðið tja hafa fest sig í sessi í málinu.

Sunday, January 07, 2007

Ráðstefna, skíði og fjör


Núna er ég búinn að panta flugmiða til Noregs á ráðstefnu um hjartaskurðlækningar. Ráðstefnan er í byrjun febrúar og er haldin árlega. Hún er fyrir læknanema og unga vísindamenn sem hafa unnið við rannsóknir í hjartalæknisfræði.

Ráðstefnan er í bænum Geilo sem er þekktur fyrir sín frábæru skíðasvæði. Ég fer þangað ásamt nokkrum félögum mínum í læknadeild. Við erum allir að vinna að rannsóknum undir handleiðslu sérfræðinga við hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítalans. Þarna verður semsagt hlustað á fyrirlestra og skíðað.

Í tilefni af þessu fór ég og keypti mér nýjan brettajakka. Þetta er Sessions jakki og ég er mjög ánægður með hann. Ég held að þetta sé akkúrat jakki sem maður þarf á svona ráðstefnu, já þetta er örugglega mjög góður svona skíðaráðstefnu jakki.


Wednesday, January 03, 2007

Meira og meira fjör á gamlárskvöld


Og eftir miðnætti fór maður í hvert partýið á fætur öðru. Hitti vini, kunningja og annað fólk sem maður þekkti bara ekki baun. Koddu með mér í gamlárspartý.... úúúúúúúújeeeeeeeeee.

Tuesday, January 02, 2007

Gamlárspartý með klámhundum



Eins og venjan er þá fór ég í veislu með fjölskyldunni á gamlárskvöld. Við vorum saman komin hjá frænku minni sem býr í Vesturbænum. Þarna voru ættingjar mínir og kunningjafólk en einnig voru í húsinu þrír hundar.

Tveir þessara hunda eru systkini. Þau eru svört, lítil og loðin og heita Fróði og Freyja. Fróði er aðeins loðnari og meiri um sig en systir hans. Þau systkinin eru svolítið stressaðar týpur og eru stundum á þeytingi en geta líka verið stillt og prúð. Þriðji hundurinn var frekar stór blendingstík, undirgefin, fyrirferðarlítil og ósköp ljúf og hét Fía.

Við í fjölskyldunni höfðum komið okkur fyrir í sófunum í stofunni og sátum í hring og vorum að spjalla. Umræðuefnið var eitthvað frekar hversdagslegt. Veislan var rétt að byrja og við biðum eftir því að maturinn yrði tilbúinn.

Og á teppinu í stofunni, í miðjunni á hringnum sem sófarnir og stólarnir mynduðu, voru Fróði og Freyja. Þau voru að leika sér. Og við vorum öll að fylgjast með hundunum leika sér. Við dáðumst að því hvað þau léku sér fallega saman.

Ég er nokkuð viss um að ég geti fullyrt að enginn okkar gestanna hafi getað séð það fyrir að svona angurvær og falleg stund gæti á augabragði snúist upp í andstæðu sína. Sú manneskja væri áreiðanlega gædd yfirnáttúrulegum spádómshæfileikum ef hún hefði séð það fyrir að þessi hugljúfa stund myndi breytast eins og hendi væri veifað í argasta klám og sifjaspell.

Því skyndilega og öllum að óvörum byrjaði litli loðni Fróði að gelta digurbarkalega og svo stuttu síðar hljóp hann að systur sinni. Hann stökk með framlappirnar upp á afturendann á henni, hagræddi sér dólgslega og byrjaði svo að hamast á henni eins og hann ætti lífið að leysa.

Þessi athöfn stóð yfir í þónokkra stund. Á meðan þetta var í gangi breyttist andrúmsloftið í stofunni. Þögnin var í hæsta máta vandræðaleg. En nokkrir gestanna sem tjáðu sig upphátt um að sem fyrir augum bar. „Það er nú aldeilis,“ var það að fyrsta sem heyrðist kallað í stofunni og ísinn var þarmeð brotinn. Síðan reyndi eigandi hundanna að kalla til þeirra: „Svona hættiði þessu“. En þau létu skipunina sem vind um eyru þjóta og virtust njóta athyglinnar í botn.

En svo gerðu þau hlé á sýningunni og Fróði hætti að hamast á systur sinni. Hann lagðist þess í stað niður kylliflatur og iðaði allur og lék á reiðiskjálfi og pískraði eins og að hann væri að drepast úr greddu. Þá byrjaði systir hans að sleikja hann. En þá var hrópað úr sófanum: „Sko, þetta fær hann að launum“.

En allt var ekki búið enn. Því Fróði stökk á fætur og hoppaði aftur upp á systur sína með byrjaði að hamast af sömu áfergju og áður. Þá æpti einhver gesturinn: „Sifjaspell,“ og var greinilega algerlega misboðið.

Og þessi seinni hálfleikur í æsandi en vafasömum atöfnum systkinanna varði mun skemur en sá fyrri. En rétt undir lokin kom þriðji hundurinn, hin ljúfa Fía, valhoppandi. Og þegar hún sá ósköpin snarstöðvaði hún, rak svo upp stór augu og byrjaði að gelta. „Fía vill að þið hættið þessu,“ sagði einhver í stofunni. En einhver svaraði um hæl: „Nei, ætli hún vilji bara ekki vera með þeim í þessu“. Og einmitt þá hættu systkinin og hlupu út úr stofunni. Gestirnir horfðu hver á aðra, ýmist kímnir eða óttaslegnir á svip. Svo var maturinn tilbúinn.