Wednesday, August 30, 2006



Núna er meistarinn kominn heim frá Flórída. Og að sjálfsögðu er ég orðinn hel tanaður og hel massaður. Í Flórída var heitt. Það voru ekki bara 5 gráður og ekki 10 gráður eins og hérna heima. Þarna voru sko 90 gráður. Og þeir voru ekki með C heldur F. Það er sko miklu betra að vera með 90 og F heldur en bara 10 og C. Ég hef nefnilega komist að því að þeim mun lengra sem maður ferðast þeim mun hærri verður talan og þeim mun aftar fer maður í stafrófinu. Þannig er þetta og þessvegna fer maður til útlanda.


Tuesday, August 15, 2006

Í víking


Jæja nú ætlar strákurinn að skella sér til útlanda á morgun. Ég er að fara til Flórída. Höstla gellur á ströndinni og svona, tja... vonandi eru þetta ekki alltsaman krumpukellingar og ellilífeyrisþegar þarna á hrukkuströndinni (wrinkle beach). En það má reyna. Enda strákurinn orðinn helmassaður, búinn að massa sig upp fyrir ferðina, skorinn dauðans og með sixpakkið jájá. Með svarta beltið í kúng fú og meiraprófið á barinn, masterspróf í rugli og strax kominn í tómt tjón með Visa. Þetta er allt að smella. Svo verður það bara dancing with girlies á diskótekunum alltsaman í boði Budweiser og Vodka RedBull. Ég er líka búinn að kaupa hjólhýsi, safna hellaðri mottu (yfirvaraskeggi) og kominn í hlýrabolinn, tilbúinn í rednekkinn. Þetta verður rosalegt.

Monday, August 14, 2006

Til athlægis í bílalúgunni á KFC


Það ætti ekki að teljast neitt tiltökumál þó að maður verði sér til athlægis svona við og við. Segjum til dæmis að maður sé á stað sem er manni allsendis ókunnugur og einhvers sé ætlast til af manni sem maður veit ekki nákvæmlega hvað er, þá er ekki ólíklegt að sjónarvottar hlæi er maður gerir eitthvað vitlaust, enda aðstæðurnar næstum til þess gerðar að gera mann tímabundið að fífli.

Um helgina ákvað ég að bregða mér í bílalúgu KFC í Skeifunni. Mig langaði í kjúklingahamborgara og var sársvangur eftir líkamsrækt. Ég var á Nissan Patrol sem er reffilegur jeppi. Ég kom mér svo fyrir aftast í biðröðinni við fyrrnefndan skyndibitastað. Það voru þónokkrir bílar á undan mér. Röðin myndaði hring í kringum húsið og ég sá ekki lúguna þarsem hún var handan við næsta horn.

Ég var með útvarpið í botni og söng af innlifun með laginu. Það var “Sýnd en ekki gefin veiðin” með Megasi Það fyrsta sem ég sá þegar ég keyrði í röðina var risavaxinn upplýstur matseðillinn. Ég varð pínulítið hissa á því að hann væri ekki á sama stað og lúgan. Ég var nefnilega alveg viss um að maður ætti bæði að panta og vera afgreiddur í lúgunni, alveg eins og á BSÍ. Og þarsem matseðilinn var ekki við hliðina á lúgunni ályktaði ég sem svo að maður ætti fyrst að skoða matseðlinn og leggja á minnið hvað mann langaði í og svo ætti maður að bíða í röðinni, keyra svo fyrir hornið þar sem lúgan var og panta þar.

Ég var sannfærður um að ég væri í mjög góðum málum. Og þessvegna lagði ekkert mig ekkert sérstaklega fram við að skoða nánasta umhverfi heldur horfði bara á matseðilinn og sá að Tower Zinger máltíðin var númer 8 og ég lagði töluna á minnið. Nú skyldi ég sko bíða og koma svo eiturhress að lúgunni og segja já ég ætla að fá eina máltíð númer 8 takk. Ég var alveg með þetta á hreinu. Ég stóð allavega í þeirri trú.

Svo líður og bíður og lagið er í botni og ég syng hástöfum með sjálfum mér inni í bílnum. Eftir skamma stund finnst mér ég heyra einhverskonar óhljóð. Það var helst eins og niðurbælt öskur svona eins og heyrist þegar maður reynir að tala með límband fyrir munninum. Ég hætti að syngja og fór að hugsa með sjálfum mér hvort þetta væru nú raunveruleg óhljóð eða bara skruðningar í hátölurunum. Svo hélt óhljóðið áfram sem varð til þess að ég lækkaði aðeins í græjunum. Þá heyrðist óhljóðið aðeins betur en er samt óskýrt. Alltíeinu fannst mér einsog að einhver gæti verið að hrópa á hjálp eða jafnvel nafnið mitt svo ég fór að kíkja, horfði í baksýnisspegilinn og svo í hliðarspeglana. En ég sá engan og það var enginn fyrir aftan mig í röðinni. Hvaða hljóð var þetta eiginlega?

Svo hættir óhljóðið í dálítinn tíma. En byrjar svo aftur. Og þá ákvað ég að gera eitthvað í málunum. Ég skrúfa niður rúðuna og sting höfðinu út um gluggann. Ég horfi fyrst aftur eftir bílnum og svo fram. Sé ekkert athugavert. Svo virði ég fyrir mér vegginn á KFC sem stendur á samsíða bílnum. Þá sé ég að við hliðina á risavaxna matseðlinum er frekar stór svartur kassi og á honum stendur: STOPP PANTIÐ HÉR.

Þá fór ég að hugsa mjög hratt. Lækkaði alveg niður í tónlistinni en hélt áfram að horfa út um gluggann og kom þá auga á myndavéina sem hékk niðuraf þakskyggninu og starði beint á mig. Þetta hugsaði ég:
Ókei, shitturinn. Þessi svarti kassi er örugglega til þess að taka á móti pöntunum. Og ég á að vera búinn að panta fyrir löngu. Hljóðið sem ég er búinn að vera að heyra hefur örugglega komið úr svarta kassanum sem rödd einhvers starfsmanns sem hefur verið að hrópa til að reyna að ná athygli minni á meðan ég hef verið inni í bílnum með útvarpið í botni og að syngja með. Og á þetta hefur allt starfsfólkið á KFC verið að horfa í beinni útsendingu og hefur hlegið sig máttlaus yfir fíflinu sem heldur að hann eigi að panta í lúgunni.

Um leið og ég hafði hugsað þetta var öskrað út um svarta kassann:
Þú þarna í jeppanum, viltu gjöra svo vel að bakka aðeins, þú átt að panta hérna áður en þú ferð í lúguna!!!
Og ég heyrði það á röddinni að manneskjan átti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum.
Svo pantaði ég: Ehem jájá uuuuuu hérna eeeeehhh eina máltíð númer 8 takk.
Svarti kassinn: Verður tilbúið í lúgunni.
Ég: Ehhhh já... takk.

Svo kom loksins að mér í lúgunni. Stelpan sem afgreiddi mig var með lymskulegt bros á vör og fyrir aftan hana var hópur starfsmanna sem voru allir einhvernveginn flissandi eða hlæjandi. Gjörðu svo vel og verði þér að góðu, brosti hún.
Eeeeehhh... já... takk.

Friday, August 11, 2006

Atsjúúúúú


Fyrir rúmu ári þegar ég vann rannsókarverkefnið mitt við Ónæmsifræðideild Landspítalans var mér kennd regla um hnerra. Hún er svona:

Ef þú
hnerrar einusinni þá er einhver ástfanginn af þér
hnerrar tvisvar þá ert þú ástfanginn af einhverjum
hnerrar þrisvar þá ertu að fá kvef

Allar götur síðan hef ég verið með þessa reglu á heilanum. Nú tel ég alltaf hversu oft ég hnerra og get ekki hætt að hugsa um regluna. Hversu oft hnerraði ég? Hvaða þýðingu það hefur fyrir mig? Hver er ástfanginn af mér? Er ég orðinn ástfanginn? Ónei, er ég að fá kvef? Svona er þetta alltaf. En samt reyni ég alltaf að telja mér trú um að þessi regla sé ekkert annað en vitleysa og uppspuni. Staðreyndin er þó sú að þessi regla hefur oftar en ekki verið sannspá. Allavega hefur það hent mig að geta tengt fjölda hnerra við örlögin. Þannig er nú það.

Wednesday, August 09, 2006

Pípóla


Tvær litlar stelpur
sem vilja popp
sem vilja kopp

Tvær litlar stelpur
sem þurfa gloss
sem þurfa koss
og örlítið meira hoss

Sjóræningjar karabíska hafsins: Dauðs manns kista


Ég skellti mér með Bjarka bjarkitekt á nýju sjóræningjamyndina um daginn. Satt að segja varð ég fyrir vonbrigðum. Mér fannst myndin hvorki hafa upphaf né endi og söguþráðurinn var losaralegur. Atriðin voru flest of löng, lopinn teygður við hvert tækifæri þannig að manni leiddist. Svo inn á milli komu algerlega tilgangslaus atriði sem voru svo áberandi ekki í takt við framvindu myndarinnar að við gátum ekki annað en hlegið að vitleysunni eftirá. Ef ekki væri fyrir vel útfærðar tæknibrellur þá hefði maður allteins geta verið sofandi í bíósalnum.














Johnny Depp var hlaupandi um með augnskugga og málaður eins og kerling. Ekki nærri jafnsannfærandi einsog hann var í fyrri myndinni. Orlando Bloom var nokkuð góður en virðist ekki geta losað sig við álfaímyndina úr Hringadróttinssögu. Davy Jones, skipstjórinn með kolkrabbann á hausnum, var leikinn af einhverjum sem enginn veit hver er en var ágætur sem skipstjóri með kolkrabba á hausnum. Svo er það Keira Knightley. Hún er sæt. Og það ætti að vera nóg. Í einu atriðinu var hún eins og kjáni. Það var þegar hún var á ströndinni og fór að dansa og æpa á meðan allir aðrir voru að berjast um kistuna. Sæt og alveg eins og kjáni á ströndinni. Og það er alveg bara ágætt.

Monday, August 07, 2006

Hlaupið í vinnuna


Eins og allir vita þá er Glitnir með átak í gangi. Bankinn skorar á fólk að hlaupa í vinnuna. Ég ákvað að taka áskoruninni og hljóp í vinnuna. Ég var líka í góðum félagsskap.



Sunday, August 06, 2006

Hvammsvík


Ég dreif mig í veiðiferð með Önna og Árna í gær. Við fórum í Hvammsvíkina. Ég veiddi þrjá regnbogasilunga og Árni einn regnbogasilung sem var hans fyrsti fiskur á ævinni. Önni veiddi engan. En við Önni fundum upp orðasamband sem lýsir fiski sem bítur svo laust á öngulinn að hann festist ekki. Það er kandífloss tussu fiskur.

Svo gerðist svoldið ótrúlegt. Ég setti í kola var næstum búinn að landa honum. Já, í þessum eldispytti setti ég í kola (sem er flatur sjávarfiskur og á ekkert að vera þarna í ferskvatninu) og þegar ég dró hann að landi varð mér svo um að ég missti hann. Það hefði verið viðbjóðslegt að veiða kola í ferskvatni á flugu.

Ferðin endaði með því að við snæddum pizzu á Mótel Venus við Borgarfjörð. Það er eins og allir vita frægur framhjáhaldsstaður. Á borðinu við hliðna á okkur voru fjórar trukkalessur, feitar og ófrýnilegar. Þær voru samt hressar og ein þeirra hljóp alltíeinu út úr mótelinu og stökk yfir einhverja girðingu. Ég skildi ekki bofs í þessu. Hvað var hún eiginlega að gera? Svo kom hún aftur og þá tók ég eftir því að hún var með túrban á höfðinu. Hún hefði verið góð í Pirates of The Caribbean - feit trukkalessa sem getur stokkið yfir grindverk.

Thursday, August 03, 2006

Sokkar

Ég fór um daginn að kaupa mér sokka. Lagði leið mína í Útilíf í Glæsibæ, Pumabúðina á Laugarvegi og búðina sem var áður Nike-búðin á Laugarvegi. Ég keypti þrenna Puma sokka, þrenna Nike sokka og þrenna sokka af óþekktri tegund, sem eru svona wannabe fínir sokkar en eru í rauninni bara drasl. Allir sokkarnir voru svartir á litinn.

Fæturnir mínir eru þannig gerðir að þeir passa stundum í skónúmer 42 en þess á milli í númer 43. Einu skórnir sem hafa passað nákvæmlega á mig voru Adidas skór sem ég átti einusinni og þeir voru númer 42 og tveirþriðju. Þeir pössuðu alveg akkúrat nákvæmlega á bífurnar á mér. Það er eins og að Guð hafi lokið sköpunarverkinu með því að segja
.... hummmm já..... ætli þetta sé ekki bara komið..... nei alveg rétt það er eitt í viðbót.... þessi þarna Sverrir á að passa í skó númer 42 og tveirþriðju og engir aðrir skór eiga að passa honum jafnnákvæmlega og akkúrat þeir.

En, allavega. Þessir sokkar sem ég keypti mér voru til í stærðum sem greinilega henta ekki mínum bífum. Sokkarnir voru annaðhvort til í númerum 39-42 eða þá í númerum 43-46. Og til þess að vera viss um að fá einhverja sokka sem myndu passa á mig þá skipti þessu þannig að Nikesokkarnir voru af minni gerðinni og Pumasokkarnir og draslsokkarnir af stærri gerðinni.

Svo fór ég heim og mátaði sokkana. Nike sokkarnir voru of litlir og allir hinir sokkarnir voru of stórir. Nike sokkarnir voru ekkert ofsalega óþægilega litlir, þeir voru bara of litlir. En stóru sokkarnir, og sérstaklega draslsokkarnir, voru ofsalega óþægilega alltof stórir. Ef ég fer í stóru sokkana þannig að hælarnir eru á réttum stað þá eru tærnar langt frá því að ná allaleið fram í sokkana þannig að langur bútur lafir framyfir. Þessi bútur sem lafir framyfir sveiflast til þegar ég geng og ég hef nokkrum sinnum stigið á hann og verið þannig næstum dottinn um sjálfan mig. En ef dreg sokkana alveg upp, þá ná þeir alveg upp að hnjám og jafnvel yfir hnén og þá líður mér eins og brjáluðum Skota eða Línu Langsokk.

Tuesday, August 01, 2006

Hel massaður og hel tanaður.


Ég hef undanfarið verið að koma mér í gott líkamlegt form. Ég hef verið í ágætu formi en stefnan er verða hel massaður. Enda er ég bráðum að fara á til útlanda á sólarströnd. Ég er auðvitað massaður núna, en ég ætla að verða orðinn hel-massaður áður en ég fer. Ég ætla líka að vera svoldið tanaður áður en við leggjum í hann og svo verð ég á ströndinni og þegar ég kem heim verð ég auðvitað hel tanaður og hel massaður.

Til þess að koma mér í form syndi ég einn kílómeter á dag. Og ég syndi bara skriðsund því að þá tekur maður massíft á því. Það er meira að segja núþegar farið að glitta í sixpakkið sem ég var með þegar ég var á 1. og 2. ári í læknadeild. Sixpakkið hvarf undir örlitla les- og bjórbumbu þegar ég komst á þriðja árið. En núna er þetta er allt að koma.

Venjulega syndi ég í Laugardalslauginni (Dirty, Slutty Hooker Money Pool) en þó kemur fyrir að ég fari Vesturbæjarlaug (Boogie Woogie Sensation Pool) eða Árbæjarlaug (Dancing With Girlies Pool!!! Kveðja frá Dr. Mister & Mr. Handsome).

Í búningsklefanum í gær varð ég vitni að atburði sem verður mér eflaust nokkuð minnisstæður þegar fram líða stundir. Þar var náungi sem var að koma uppúr lauginni og var að klæða sig. Það var rosalega áberandi hvað hann var sköllóttur. Hann var alveg nauða nauða sköllóttur. Á bekknum við hliðina á töskunni hans var svo risastór flaska. Það var ekki bjórflaska eða viskíflaska, nei það var risastór flaska af ólífuolíu. Svo tekur gaurinn flöskuna og skvettir dágóðri gusu í lófann á sér, fer að speglinum og bónar á sér skallann! Hann makaði ólífuolíunni á skallann þangað til að hann var orðinn alveg stífbónaður og spegilgljáandi. Og svo skrúfaði hann tappann á flöskuna og brosti út að eyrum, hæstánægður með spegilgljáandi og stífbónaðan skallann.