Thursday, December 28, 2006

Jólin... jólin


Jólin hafa verið fín. Alveg hreint stórfín. Á aðfangadag fór ég í messu. Presturinn var akfeitur og latur. Hann virtist ekki nenna að halda messuna. Hann sagði ekki neitt skemmtilegt eða hugvekjandi. Það var eins og hann væri reyna að segja ég nenni þessu ekki mig langar bara að panta pizzu og detta í það. Afhverju sagði hann það ekki bara? Menn verða koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Engar málalengingar. Bara partý í kirkjunni og málið er dautt.

Svo fór ég heim og borðaði rjúpur. Það voru dýrindis rjúpur. Opnaði síðan pakkana. Fékk fullt af góðu stöffi. DVD-spilara, fluguveiðistöng, monnínga, skrifborðslampa, bækur, sokka, nærbuxur, leðurhanska og sitthvað fleira sem ég man ekki. Mér finnst leiðinlegt að fá föt. En harðir pakkar eru skemmtilegir. Ég hef semsagt ekkert breyst frá því ég var lítill.


Tuesday, December 19, 2006

Dave Navarro og Carmen Electra



Ég horfði á þátt á Skjá Einum um daginn sem fjallaði um undirbúning brúðkaups tveggja stjarna í Hollywood. Þetta voru rokkstjarnan Dave Navarro, sem var í Red Hot Chili Peppers og stjórnaði þættinum Rock Star: Supernova og glamúrgellan, leik- og söngkonan Carmen Electra.

Þau voru semsagt ástfangin upp fyrir haus og á leiðinni að ganga í það heilaga. Í þættinum var sýnt frá allskonar uppátækjum turtildúfnanna. Dave Navarro ákvað meðal annars að fara í ristilúthreinsun fyrir giftinguna. Honum fannst hann vera eitthvað svo óþægilega mikið spenntur innan í sér að hann hreinlega þurfti á smá losun að halda. Hann kvaðst einnig með þessu vera að nýta sér síðasta tækifærið sitt til að geta borgað kvenmanni fyrir að „snerta sig“.

Svo brunaði Navarro til miðaldra kerlingar sem kvaðst vera sérfræðingur í ristilúthreinsun. Kerlingin sagði þessa iðju sína vera allra meina bót því að líkaminn væri fullur af skít eða eins og hún orðaði það: Your body is full of shit. Svo veifaði hún dauðhreinsaðri plastslöngu í myndavélina og hófst síðan handa við að losa Navarro ræfilinn við alla innri spennu.

Carmen fór ekki í neina slíka úthreinsun í þættinum. Hinsvegar heimtaði hún að þau yrðu bæði sprautuð með B12 vítamíni í rassinn fyrir giftinguna. Kannski missti ég af því en það kom ekki fram afhverju hún vildi vítamínsprautu í rassinn. Ef til vill óttaðist hún bráðan vítamínskort í
giftingunni sem hugsanlega gæti stuðlað að algjöru heilsuleysi þeirra beggja og þannig komið í veg fyrir hjónabandið. Engin vítamínsprauta ekkert hjónaband.

En læknirnn var kallaður til með sprautur og vítamín. Carmen byrjaði á því að sprauta Navarro í afturendann og sagðist hann ekki finna fyrir neinu en bar sig þó ekkert sérstaklega vel. Navarro vildi síðan sprauta Carmen í rassinn en hann fékk það ekki. Hún var víst eitthvað efins um að rokkarinn væri fær um slíkt. Henni var greinilega mjög annt um bossann sinn.

Daginn eftir að ég sá þennan þátt ætlaði ég að brydda upp á spennandi umræðum um nýjasta slúðrið í Hollywood. Ég var staddur í kunningjahóp og sagði frá þættinum um Carmen og Navarro. Ég sagði frá þessu hreykinn og glaður í bragði því að mér þótti þetta svolítið skemmtilegt.

En upp úr dúrnum kom að allt þetta sem ég hafði sagt voru gamlar fréttir. Ég væri ekki að segja neitt nýtt. Allir vissu allt um málið. Og í lokin var mér tjáð að Carmen og Navarro væru löngu fráskilin. Þau höfðu skilið fyrir mörgum mánuðum.

Sunday, December 17, 2006

Póker



Við félagarnir hittumst í gær og spiluðum póker. Við vorum með spilapeningasett og maður keypti sig inn fyrir þúsund kall. Ef maður tapaði öllu þá var hægt að kaupa sig aftur inn. Ég hafði einsett mér að gera betur en síðast þegar við spiluðum því að þá tapaði ég tvöþúsund krónum.

Mér gekk illa framan af en svo var eins og gæfan hefði snúist mér í vil. Ég var þá með hrúgu af spilapeningum og þótti það ekki leiðinlegt. Í lokin ákváðum við svo að spila upp á stóran pott. Ég lagði undir og hélt að með því hefði ég spilað rassinn úr buxunum. En ég fékk þá mjög góð spil og vann pottinn. Samtals var þetta næstum því nóg til þess að kaupa eina pizzu eða eitthvað álíka.




Thursday, December 14, 2006

Hjólreiðagatan Langahlíð



Langahlíð er gatan sem ég keyri nokkrum sinnum á dag til þess að komast leiðina heim til mín. Gatan liggur þvert á Miklubrautina og útfrá henni ganga aðrar hlíðagötur, þar á meðal Drápuhlíðin.

Nýverið var skipulagi Lönguhlíðar breytt. Verktakar voru allt sumarið og nánast allt haustið við framkvæmdir. Gatan var þrengd úr fjögurra akreina í tveggja akreina götu. Þessum tveimur akreinum sitt hvorum megin var breytt í stíg ætluðum hjólreiðamönnum. Núna hafa gangandi vegfarendur, ökumenn og fólk á hjóli sínar brautir. Gangstétt, ökubraut og hjólabraut. Ég held að Langahlíð sé fyrsta gatan í Reykjavík sem er með þessu skipulagi. Allavega er hún með þeim fyrstu.


Kannski var Langahlíð endurhönnuð með danska fyrirmynd í huga. Á svona hjólreiðastígum hjóla Danir (og eflaust fleiri Evrópubúar) á hverjum degi fram og til baka. Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn var fólk byrjað að hjóla á svona hjólastígum fyrir klukkan sex á morgnana. Þessir hjólreiðakappar voru hressari en allt. Ég var bara Íslendingur sem fór seint að sofa og bölvaði þessum hressu Dönum sem fóru að sofa strax eftir fréttir og vöknuðu eldsnemma til að geta farið að hjóla á hjólastígum.

En hjólastígurinn í Lönguhlíð er ekki eins og hjólastígarnir á meginlandinu. Ég hef ekki ennþá séð einn einasta mann hjóla á þessum hjólastígum. Ég hef reyndar ekki tekið eftir neinu öðru en bílum á þessum stígum. Íbúar Lönguhlíðar og hlíðanna í kring virðast nefnilega ekki víla fyrir sér að leggja bílunum sínum á nýju hjólabrautunum.

Til að stemma stigu við þessu voru í upphafi sett færanleg skilti með mynd af reiðhjól á brautirnar. En í íbúarnir gerðu sérð lítið fyrir og færðu skilitin upp á gangstéttarnar. Og héldu síðan áfram að leggja bílunum sínum í trássi við skilaboðin. Síðan voru skilti með sömu mynd boruð föst í jörðina við hliðina á hjólastígunum. En allt kom fyrir ekki. Ennþá lögðu menn bílunum sínum á hjólastígana.

Borgin gafst ekki upp og bætti við skiltum. Ofan á skiltið með hjólinu var sett skilti sem bannaði fólki að leggja bílum á þessum stað. Svo leið og beið. Engin breyting varð á. Fólk hélt áfram að leggja á hljólastígana.

Og seinast þegar ég leit á skiltin þá hafði þeim fjölgað. Þriðja skiltinu hafði verið komið fyrir á sömu stöng og hin tvö skiltin héngu á. Nýjasta skiltið var mynd af pílu. Pílan þjónar sennilega þeim tilgangi að benda fólki á hvar hjólastígurinn er svo að það viti um hvaða hjólastíg hin tvö skiltin gilda. Núna ætti þetta að vera orðið nokkuð ljóst. Mynd af hjóli, bannað að leggja og píla sem bendir á hjólastíginn.

En ennþá er ekkert nema bílar á hjólastígunum. Fullt af kyrrstæðum bílum en enginn á hjóli.

Monday, December 11, 2006

Húð- og kynsjúkdómafræði


Ég er nýbyrjaður að læra húð- og kynsjúkdómafræði. Fyrirlestrarnir eru haldnir á næstefstu hæð í Landakotsspítala. Þar er stundum mikið stuð.

Eins og gefur að skilja þá gengur húðsjúkdómafræðin að stórum hluta út á það að geta greint rauða flekki á húðinni. Í húðsjúkdómafræðinni er því mjög mikilvægt að vera duglegur að skoða myndir af útbrotum og öðlast þannig færni í greiningu á flekkjum og blettum á húðinni.

Og auðvitað höfum við kennara sem kennir okkur um húðsjúkdóma. Og ég held að hægt sé að fullyrða að það væri á misskilningi byggt ef þessi kennari væri flokkaður í hóp manna sem þættu stórskemmtilegir. Það eru nefnilega afar litlar eða jafnvel hverfandi líkur á því að hann færi með gamanmál í tíma. Honum myndi sennilega seint detta til hugar að slengja fram brandara eða vera með einhvers konar uppistand. Hann er heldur ekki maður sem myndi allt í einu fara að hoppa eða dansa upp á grínið eða þá tvista eða taka stuttan sjómannaræl rétt fyrir frímínútur. Hann er bara ekki þannig maður.

Í raun mætti segja að hann væri andstæðan við hinn stórskemmtilega mann. Hann byrjaði til dæmis fyrsta tímann á því að messa yfir okkur um nútíma kennsluhætti sem eru ömurlegir að hans mati. Hann gerði okkur það ljóst að honum finnst fráleitt að láta nemendur fá fyrirlestrana á tölvutæku formi. Það er að hans mati einsog að breyta læknadeild í bréfaskóla. Menn geti þá bara verið heima hjá sér og fengið fyrirlestrana hjá félögum sínum sem nenntu að mæta. Í þessu samhengi finnst honum það einnig út í hött að ekki skuli vera skyldumæting í fyrirlestra.

Svo hélt hann áfram eins og óðamála klerkur og ræddi um mikilvægi þess að kunna allt um húðsjúkdóma og útbrot. Hann sagði að prófið væri að hluta til byggt á myndum og því þyrftum við skoða myndir af útbrotum eins og við ættum lífið að leysa. Síðan lét hann okkur síðan fá svarthvítt útbýtti með fyrirlestrunum. Í því var allt svarthvítt. Allur textinn og allar myndirnar. Allar myndirnar af útbrotunum voru svarthvítar. Og það var engan veginn hægt að sjá eitthvað vitrænt út úr myndunum. Bara svarthvítar klessur. Þetta fannst honum greinilega vera rétta kennsluaðferðin. Halda ræðu um mikilvægi þess að þekkja útbrot og dreifa síðan svarthvítu útbýtti þar sem myndirnar eru eins lélegt ljósrit af vatnslitamálverki eftir smábarn.

Og við höfum reynt að benda honum á það hversu tilvalið það væri að dreifa fyrirlestrunum á tölvutæku formi. Þá gætum við glósað undir myndirnar, sem væru skýrar og fallegar og í lit. Þá gætum við þekkt útbrotin sem hann vill að við kunnum. Þá yrðum við fyrirtaksnemendur í húðsjúkdómafræðum. En allt kom fyrir ekki. Hann situr við sinn keip, blessaður maðurinn.

Í tíma hjá honum um daginn flaug mér í hug eitt stykki ultmate joke. Í mínum vinahópi er ultimate joke brandari sem er tekinn alla leið, þ.e. ef maður byrjar á ultimate joke þá hættir maður ekki fyrr en maður er kominn yfir strikið. Það er the ultimate joke – maður fer alla leið.

Og þessi ultimate joke er þannig að í miðjum tíma hjá þessum and-stórskemmtilega manni myndi ég spyrja hann spurningar og síðan halda áfram að tala þangað til að ég væri staðinn upp úr sætinu og farinn að þykjast mála með málningarrúllu á vegginn í kennslustofunni.

Ég myndi þannig byrja á að spyrja hann enn einu sinni afhverju hann vildi ekki láta okkur fá fyrirlestrana á tölvutæku formi svo við gætum skoðað myndirnar vel sem er svo mikilvægt þar sem við verðum að þekkja öll útbrotin. Og ég myndi rökstyðja þetta með þeim hætti að það væri alls ekki auðvelt að greina útbrot og sérstaklega ef maður hefur bara gagnslaust svarthvítt útbýtti til að styðjast við. Svo myndi ég halda áfram og segja að það væri svosem í lagi að hafa ekki fyrirlestrana á tölvutæku formi ef það væri leikur einn að greina útbrot. Þ.e. ef það væru bara til örfáar tegundir útbrota og þau væru öll mismunandi á litin en ekki öll rauð eins og þau virðast vera í raunveruleikanum.

Og í framhaldinu tæki ég dæmi um mann sem væri með grænan blett á hægri kinninni. Þessi maður kæmi inn á stofu til læknis sem hefði aðeins skoðað svarthvítar myndir af útbrotum. Og vegna vankunnáttu sinnar getur læknirinn ekki ályktað öðruvísi en svo að maðurinn með græna blettinn á kinninni hefði verið að mála með grænni málningu og rekið sig í og þannig fengið málningu í andlitið. Síðan myndi ég byrja að flauta vel þekkt stef úr málningarauglýsingu (frá Málningu ehf. held ég) sem flestir ættu að kannast við. Svo stæði ég upp og labbaði að veggnum og byrjaði að þykjast mála með málningarrúllu á vegginn. Rólega, upp og niður myndi ég þykjast mála vegginn og flauta lagstúfinn á meðan.

Friday, December 08, 2006

Bubbi á Þorláksmessu á NASA



Það lítur út fyrir að maður sé að fara á tónleikana. Heppinn.

Wednesday, December 06, 2006

Á stofuborðinu


Þegar ég er einn heima á ég það til að leggja frá mér hluti á stofuborðið. Og stundum hrúgast þeir upp. Ef maður horfir yfir borðið er hægt að sjá hvað ég hef verið að bardúsa síðastliðna daga.
Á stofuborðinu í dag er þetta:

Geisladiskurinn Aqualung með Jethro Tull
Skrifað eintak af Aqualung því að sumir diskanna sem ég keypti í USA virðast ekki virka í geislaspilaranum í jeppanum
Blood on The Tracks með Dylan
The Freewheelin' Bob Dylan
Tvö gluggaumslög frá bankanum sem innihalda yfirlit yfir debetkortafærslur s.l. tímabils
Lykill að búningsherberginu á Barnaspítalanum
Bíllyklar
Otrivin nefúði af því að ég var með kvef
Tvær greinar um meðfædd ósæðarþrengsli (coarctation of the aorta) - fyrir rannsóknina mína
Tvöhundruð krónur í klinki

Monday, December 04, 2006

Lifðu lífinu



lifandi. Af hverju er fólk alltaf að segja þetta við hvert annað sí ofan í æ? Það er ekki eins og að maður geti lifað lífinu dauður. Sá maður þætti að öllum líkindum ekki stíga í vitið ef hann væri hlaupandi um og segði halló ég lifi lífinu lifandi en er samt dauður. Þannig að þetta er eiginlega jafnlélegur frasi og þessi: Þú opnar Ora dós og gæðin koma í ljós. Ef maður opnar Ora dós sem er til dæmis full af bökuðum baunum þá er ekkert eins og það hellist yfir mann tilfinnging sem lyftir manni á æðra tilverustig. Spurningin er hversu langt maður getur gengið í því að tala um gæði þegar umræðuefnið eru bakaðar baunir og tómatsósa í niðursuðudós.

Sunday, December 03, 2006

Stemmning



Þá er ég búinn í prófum. Ég kláraði verklegt próf í fæðinga- og kvensjúkdómafræði fyrir helgi. Þá er það komið í hús. Það er mjög gott að vera búinn í þessu. Núna get ég farið að hugsa um hitt og þetta, ekki neitt og bara allt það sem skiptir engu máli.

Fyrstu dagana eftir próf kemur maður því í verk sem stöðugt var frestað. Til dæmis þá svaf ég út í dag. Það hefur ekki gerst í háa herrans tíð. Ég vaknaði úthvíldur og það fyrsta sem mér datt í hug var að eitthvað hlyti að vera að mér. Ég var búinn að gleyma því hvernig manni líður þegar maður er útsofinn.

Svo tók ég líka til í herberginu mínu og ryksugaði. Og þá mundi ég allt í einu hvað það er leiðinlegt að ryksuga. Sérstaklega þegar maður þarf að ryksuga mikið. Ég ryksugaði alla íbúðina og hún er ekki neitt voðalega lítil. Mig minnir að hún sé rúmlega eitthundraðogfjörtíu fermetrar.
Og mér leiddist allan tímann sem ég var að ryksuga. Ég hugsaði með mér afhverju er ekki löngu búið að framleiða ryksugu sem skemmtir manni á meðan maður ryksugar?

Sem dæmi þá gæti "Skemmtilega ryksugan" sagt manni brandara eða farið með skondnar vísur á meðan hún er í gangi. Hún þyrfti að sjálfsögðu að segja brandarana hátt og skýrt til að yfirgnæfa soghljóðið en ég held að að það kæmi ekki að sök, hún væri bara með stórum innbyggðum hátalara. Og svo væri hún kannski líka með innbyggðum hláturnema sem myndi slökkva á soginu á meðan mestu hlátturrokurnar gengju yfir. En ryksugan gæti náttúrulega líka verið hönnuð þannig að hún myndi hlæja með manni ef sá gállinn væri á henni.

Svo væri það líka skemmtilegur möguleiki ef maður gæti stillt hana á að tala þýsku. En það kæmi auðvitað líka til greina að kaupa ryksugu sem hefði annars konar hæfileika. Það gæti til dæmis verið ryksuga sem kemur manni stöðugt á óvart eða þá ryksugu sem væri svolítið rugluð. Ég held að það gæti verið dálítið spennandi að eiga ruglaða ryksugu. Hún væri kannski stillt á það að minna mann á það hvenær maður á að ryksuga næst og í staðinn fyrir að segja "Það er kominn tími á að ryksuga núna!" þá myndi hún segja eitthvað allt annað sem væri algjörlega út í hött af því að hún væri svo rugluð. Hún segði kannski alltíeinu "Rabbabararúna!!!" og það væri þá hennar leið til að minna á hreingerningarnar.

Þá myndi maður kannski hrökkva í kút þegar hún væri að öskra þetta "rabbabararúna" þar sem hún væri inni í geymslu. En það gerði auðvitað ekkert til ef manni myndi bregða því að rugluð ryksuga veit náttúrulega ekkert hvað hún á að segja. Þetta myndi gera hreingerningarnar skemmtilegri. Manni myndi ekki lengur leiðast að ryksuga. Maður myndi bara hlusta á brandara, gátur, þýskar vísur eða bara eitthvað sniðugt. Eða jafnvel bara einhverja tóma steypu.


Saturday, December 02, 2006

Mr. Hot


Mig rak í rogastans þegar ég kom síðast að skrifborðinu mínu á lesstofunni. Það var þakið piparkökum. Og piparkökurnar voru skreyttar þannig að á þeim voru bókstafir eða önnur skilaboð til mín.

Á miðju skrifborðinu stóðu margar piparkökur saman í röð og mynduðu orðið ÁSTARHNOÐRI. Svo voru nokkrar piparkökur á víð og dreif á borðinu. Á þeim stóð meðal annars:

Sverrir!
MR. HOT
ÞÚ + ÉG?

Og svo var ein í viðbót sem var dálítið óljós. Hún var ekki með neinum bókstöfum en það hafði verið teiknað á hana. Ég þurfti að virða hana fyrir mér dágóða stund áður en ég áttaði mig á henni. Mig grunar að sú piparkaka hafi átt að vera reðurtákn þar sem hún var í laginu einsog typpi.