Tuesday, October 31, 2006

Lesstofan í Ármúla



Lesstofa læknanema á 3-6. ári er flutt úr Barónsstígnum að Ármúla 30. Við erum nýbúin að flytja og þetta er allt á byrjunarstigi. Lesborðin og nokkrir stólar eru komnir en mestallt góða stöffið eins og ísskápar, örbylgjuofnar og sófar eru ennþá á Baró. Vonandi fáum við það bráðum.

Eins og er erum við aðeins örfá sem lesum í nýju lesstofunni. Þetta er eins og að vera landkönnuður. Stemmningin er góð en það veit enginn almennilega hvernig á að haga sér. Menn eru svoldið mikið að ráfa um og segja eitthvað sem er út í bláinn en það á eftir að koma reynsla á hlutina.

Sumir eru í einkaherbergjum en aðrir eru í stóru lesrýmunum. Ég krækti mér í mjög gott lesherbergi og er það er ríkidæmi mitt eins og stendur.

Hérna er ég alveg chillaður í einkaherberginu mínu. Sennilega að hugsa um að fara jafnvel að lesa eitthvað.


Eftir dálitla umhugsun ákvað að glugga aðeins í bók. Þarna er ég að lesa fæðingalæknisfræði. Ansi spennandi.


Eftir að hafa lesið í smá stund leit ég upp til þess að velta því aðeins fyrir mér sem ég hafði lesið. En þegar ég komst að því að ég mundi ekki neitt af því þá ákvað að fara bara inn í eldhús.



Hérna er ég kominn inn í eldhúsið. Og eins og sést á myndinni er eldhúsið okkar mjög frumstætt. Þar er aðeins að finna samlokugrill, brauðrist og vatnshitara. Mig langaði annað hvort í AB-mjólk eða 1944 lasagne. En hvað átti ég að gera? Setja AB-mjólkina í vatnshitarann og lasagnað í brauðristina? Eða öfugt? Að lokum fékk ég mér bara kex.

Sunday, October 29, 2006

Músík og minningar



Það kemur mér oft á óvart hversu sterk tengsl geta myndast á milli tónlistar og minninga. Ef ég heyri tónlist sem ég hlutstaði mikið á einhverjum tíma þá kemur sá tími upp í hugann á mér og allt sem var þá að gerast. Stundum hellast minningarnar bara yfir mann.

Ef ég heyri til dæmis lagið Poison eða Voodoo People með Prodigy þá kemur strax upp í hugann tímabilið sem ég bjó úti í Kaupmannahöfn á árunum 1995-1996. Ég hlustaði mikið á Prodigy á þeim tíma. Ég átti Sony Walkman vasadiskó fyrir kasettur og hlustaði á þessa brjálæðislegu raftónlist á meðan ég gekk í skólann, nánar tiltekið í Hyltebjerg Skole sem er grunnskóli í Vanlöse í Kaupmannahöfn. Ég man þegar bekkjarsystkini mín í skólanum fengu að hlusta á Prodigy hjá mér og urðu hissa. Þau vissu ekki alveg hvað þeim átti að finnast um þessa tónlist. Þau hlustuðu bara á hallærislega danska popptónlist og vissu ekkert um Prodigy. Ein bekkjarsystir mín spurði mig hvað trommarinn í Prodigy héti.
- Altsaa, Svea (hún gat ekki sagt Sverrir), hvad hedder han som spiller paa trommer i Prodigy?
Og ég svaraði.
- Der er ingen som spiller paa trommer i Prodigy. Musikken er elektronisk og er lavet af computere og synthesizere og den slags instrumenter.

Ef ég heyri lög eins og 1979 eða eitthvað annað lag af plötunni Mellon Collie and The Infinite Sadness með Smashing Pumpkins minnir það mig á tímabilið þegar ég var oft í heimsókn hjá Árna Helgasyni vini mínum þar sem við vorum gjarnan í tölvuleiknum Championship Manager.



Ef ég heyri Yellow eða eitthvað annað lag af plötunni Parachutes með Coldplay þá finnst mér ég vera kominn aftur í menntaskóla á tímabilið þegar það var verkfall og ég byrjaði með fyrstu kærustunni minni. Þá vann ég líka á Flögu hf við það að setja saman svefnrannsóknartæki.



Ef ég heyri eitthvað lag með Led Zeppelin af plötunum I-IV þá finnst mér ég vera kominn aftur til vorsins 2002 þegar ég vann sem málari og verkamaður hjá Málarakompaníinu. Þá átti ég rauðan Volksvagen Golf og hlustaði alltaf á Zeppelin þegar ég var á leiðinni í vinnuna.


Ef ég heyri lag eins og Waiting for My Man eða Femme Fatale með Velvet Underground & Nico þá minnir það mig á sumarið í hitteðfyrrasem þegar ég bjó á Hringbrautinni í íbúðinni sem Þórbergur Þórðarson rithöfundur bjó í á sínum tíma.

Saturday, October 28, 2006

Mig langar í bát



Ég veit núna hvað það er sem mig langar mest af öllu til að eignast. Það er bátur. Mig langar rosalega til að eignast bát. Ég fattaði það þegar ég var að skoða mynd af mér þegar ég var lítill. Á myndinni er með pabba og við erum í bát. Þar er ég skælbrosandi og hæstánægður með það að vera í bát.

Ég var bara búinn að gleyma því hvað mér finnst gaman að vera í bát en núna mundi ég það og mig langar í bát. Ég ætla að byrja að safna fyrir honum í dag. Eða kannski vill einhver gefa mér bát. Jólin eru að koma þannig að ef ég bið fallega og haga mér vel þá fæ ég kannski bát í jólagjöf.

Óskalistinn yfir jólagjafir í ár verður því svona:

1. Bátur
2. Bátur
3. Bátur


Wednesday, October 25, 2006

Bílastæði til sölu




Ég fór í ræktina um daginn. Ég lagði bílnum og um leið og ég var að stíga út úr honum heyrði ég kallað: Bílastæði til sölu.

Ég leit í kringum mig en sá ekki neinn. Svo stuttu síðar þegar ég var kominn með íþróttatöskuna úr aftursætinu heyrði ég þetta kallað aftur. Bílastæði til sölu.

Það var greinilegt á röddinni að það var krakki sem var að hrópa, mjög líklega einhver strákur. Ég gekk í áttina að líkamsræktarstöðinni og svipaðist um á leiðinni. Svo alltíeinu var kallað aftur og þá var það alveg við hliðina á mér. Þar stóð strákpjakkur í auðu bílastæði. Þar stóð hann bara og horfði á mig.

Ég stoppaði og ákvað að spyrja hann.
- Ertu að selja bílastæði?
Hann hélt áfram að horfa á mig dágóða stund og svaraði síðan.
- Nei, ég er bara að selja þetta bílastæði til þess að einhver komi.

Ég stóð kyrr á meðan ég reyndi að fá botn í svarið. Ég skildi ekki baun í svarinu og vissi þaðan af síður hvað ég ætti að segja næst. Síðan hrökk upp úr mér: Jáhá.

Svo hélt ég áfram að ganga. Og rétt áður en ég var kominn inn snéri ég mér við fyrir tilviljun. Þá voru tvær rosknar konur að labba framhjá stráknum. Stráksi sá sér þá leik á borði. Hann fór alveg upp að þeim og hrópaði eins hátt og hann gat: Bílastæði til sölu!!!!!

Tuesday, October 24, 2006

Ljósmóðirin sem skammaði mig út af osti



Ég var á spítalanum í dag á kvennadeild. Morgunninn hafði verið mjög mikill mánudagsmorgunn. Ég hafði gleymt að borða almennilegan morgunmat og var orðinn svangur. Mig langaði allt í einu alveg ofboðslega í ristað brauð með osti. Af fyrri reynslu var ég nokkurn veginn viss um að það yrði mikil hættuför fyrir mig að læðast inn í býtibúrið og fá mér ristað brauð með osti.

Ég var á deild þar sem ljósmæður hafa gætur á öllu og maður má helst ekki gera neitt án þess að þær viti af því. Og það sem meira er þá eiga ljósmæður það til að verða mjög auðveldlega pirraðar á læknanemum.

Og ég, læknaneminn, var þarna sársvangur og lagði á ráðin hvernig ég ætti að laumast inn í býtibúrið og komast óséður út. En ég var og svangur til að hugsa svo að ég lét bara til skarar skríða.

Ég skundaði inn í býtibúrið og var snöggur að finna brauð og skellti því í ristina. Fann svo smjörið. Svo leitaði ég að ostinum og sá að það voru tveir pakkar af ostsneiðum inní ísskápnum. Annar pakkinn var opinn og í honum var aðeins ein ostsneið mjög skorpin og gömul. En hinn pakkinn var óopnaður og fullur af gæðalegum ostsneiðum.

Á meðan ég virti fyrir mér ostapakkana heyrði ég í ljósmæðrunum. Þær voru allar saman komnar í kaffistofunni við hliðina á býtibúrinu. Ég hugsaði með mér: Á ég að sætta mig við þessa gömlu skorpnu ostsneið eða á ég að taka áhættu og opna nýja pakkann? Ég ákvað að taka áhættu. Ég greip óopnaða pakkann og réðst á hann með hníf. Ég ætlaði sko aldeilis að fá mér nýjan ost á brauðið, skilja gömlu ostsneiðina eftir og komast óséður út úr býtibúrinu með dýrindis brauð og nýjan ost.

Og þar sem ég var að hamast á nýja ostsneiðapakkanum heyri ég hvernig einhver nálgast býtibúrið. Ég hugsaði ónei núna er ljósmóðir að koma þrammandi og ég er hérna að laumast í ostinn! Og það leið ekki að löngu. Ein ljósmæðranna var mætt í býtibúrið og rak upp stór augu. Hún horfði fyrst á mig, svo á gamla ostapakkann og því næst á nýja ostapakkann sem ég hafði verið að hamast á. Svo horfði hún aftur á mig með stingandi augnaráði. Brauðsneiðarnar voru komnar upp úr brauðristinni en ég þorði ekki að hreyfa mig.

Þá benti ljósmóðirin á plastbox sem var á rúlluvagni við hliðina á ísskápnum og tók til máls.
- ÞÚ ÁTT AÐ NOTA OSTINN SEM ER Í ÞESSU BOXI.
Hún horfði svo á mig hneyksluð og sýndi mér hvað var á vagninum. Allskonar meðlæti á brauð og svo auðvitað ostur.
Ég sagði þá æ æ, fyrirgefðu, ég vissi þetta ekki…

Ég var frekar vandræðalegur á þessu augnabliki með gamla ostapakkann á borðinu og þann nýja í höndunum sem ég hafði reynt að tæta í sundur. Ég ákvað bara að brosa eins og engill á meðan hún var inni í býtibúrinu. Svo þegar hún fór smurði ég brauðsneiðarnar og fékk mér ost. Og sneiðarnar voru að sjálfsögðu úr nýja pakkanum.

Friday, October 20, 2006

Sverristún - Partýkastali



Ég veit hvar ég mun búa í framtíðinni. Ég var nefnilega að komast að því að það er til gata í Neskaupsstað sem heitir Sverristún. Þar ætla ég búa. Þar mun ég eiga kastala sem verður partýkastali. Og ég er þegar búinn að láta hanna skiltið og partýkastalann.
Þetta er skiltið. Allir sem sjá það hugsa bara partý!!!!





Svona verður partýkastalinn minn. Það verður allt í honum, meira að segja útisundlaug og gufubað. Svo verður auðvitað risastór fáni með mynd af mér. Handalausinn kallinn til vinstri er að æla útaf því að hann er búinn að skemmta sér svo vel. Svo er hann líka búinn að týna höndunum af því að hann var að skemmta sér svo vel. Þetta er sko partýkastali!!!

Monday, October 16, 2006

Múslí í lestrartörn



Jæja núna var enn ein lestrartörnin að klárast. Ég kláraði barnalæknisfræðikúrsinn í dag. Skriflegt próf og munnlegt próf og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta gekk mjög vel.

Eins og alltaf þegar maður er í prófastússi þá hrúgast ýmislegt upp sem maður hefur ekki tíma til að sinna. Maður fer á fætur, borðar, er á spítalanum yfir daginn og eftir það er lesið langt fram á kvöld. Enginn tími til að gera neitt annað.

Ég tók eftir því að múslípakkarnir hrúguðust upp inní eldhúsi. Ég keypti alltaf nýjan og nýjan pakka og hugsaði með mér ég hendi bara þessum tómu á morgun. Svo bara allt í einu var ekki þverfótað fyrir múslípökkum í eldhúsinu.



Múslípakkarnir hrúguðust upp í eldhúsinu.



Og að lokum var ekki þverfótað fyrir þeim.

Monday, October 09, 2006

Bláar táslur



Eftir allar veiðiferðir sumarsins ákvað ég að taka Patrolinn í gegn. Þvoði hann hátt og lágt og ryksugaði. Inni í honum mátti líka finna stybbu af fiski og vöðlum. Því ákvað ég að kaupa lyktareyði til að hengja upp í baksýnisspegilinn.

Ég skundaði inn á bensínstöð og valdi mér lyktareyði. Ég skoðaði úrvalið. Í boði voru allskonar tegundir lyktareyða til að hengja upp í spegilinn. Mér leist best á höfrunginn og ilina. Reyndar talaði afgreiðslumaðurinn ekki um "il" heldur "táslur". Þannig að ég var þarna inni í bensínstöðinni í hrókasamræðum við hann um höfrunga og táslur. Að lokum keypti ég bláar táslur.

Á leiðinni í bílinn tók ég táslurnar úr umbúðunum og það gaus upp mikill ilmur. Ég efast ekki um að allir á bílaþvottaplaninu hafi fundið ilminn af nýju bláu táslunum mínum. Þá hugsaði ég með mér vá það á ekki eftir að verða líft inni í bílnum ef það er svona sterk lykt af þessum táslum.

En ég hengdi þær upp og ók af stað. Eftir skamma stund fann ég hvernig bíllinn smám saman mettaðist af lyktinni. Og stuttu seinna var orðið erfitt að anda í bílnum. Þannig að ég hugsaði að þetta hlyti bara að vera svona rétt á meðan táslurnar væru nýjar. Þannig að ég andaði bara með munninum til að finna ekki lyktina.

Svo ágerðist fnykurinn og ástandið var orðið óbærilegt. Ég ákvað því að opna gluggann. En þegar glugginn var kominn hálfa leið niður byrjaði ég að hósta. Og stuttu seinna var ég kominn með óstöðvandi hóstakast. Og svo byrjaði ég að hlæja ofan í hóstann. Ég var hlæjandi og hóstandi á víxl. Og þannig var þetta þangað til ég kom á áfangastað. Þá fór ég út úr bílnum og hélt áfram að hósta og hlæja. Hósta vegna bláu táslanna og hlæja að bláu táslunum. Ég hugleiddi að henda táslunum en þær hanga enn í speglinum.

Saturday, October 07, 2006

Fólk bloggar mismunandi



Sumir blogga svona:
Hallo, í dag fór ég í skólann og eftir skólann fór ég í fiðlutíma. Svo fór ég heim og gaf Gussa hamstrinum mínum að borða. Svo borðaði ég kvöldmat. Það var fiskur og kartöflur. Ég hlakka til að fara í Þórsmörk næstu helgi með mömmu og pabba og afa og ömmu og langömmu.


Aðrir blogga svona:
Stefna Framsóknarflokksins í utanríkismálum hefur ekki verið færð til betri vegar. Á síðasta flokksþingi var samþykkt að lækka ekki innflutningstolla á kjöti. Steingrímur J Sigfússon fer mikinn þegar hann talar um kjöt. Það ætti að fá Steingrím í Framsóknarflokkinn til að tala um kjöt.


Enn aðrir blogga svona:
Tarfurinn fór á feitt djamm með dúddunum um helgina. Fórum fyrst í gymmið á nýja Vipernum hans Hödda og pumpuðum okkur í drasl. Við hittumst svo heima hjá Johnný og fengum okkur nokkra ískalda. Fórum síðan í Smirnoff ICE FM957 Partý á Pravda. Höstlaði heví flotta gellu og reið henni á kátsinum (á sófanum dúd!) hjá fyrrverandi tengdó en þau eru útá Kanarí og gleymdu að láta mig skila lyklinum. Gellan bað mig um að brunda á brjóstin á sér og hún var að fíla það í botn yeaaaaaaahhhh!!!

Thursday, October 05, 2006

Pirraða konan í býtibúrinu



Ég var á spítalanum í morgun einsog venjulega. Alltíeinu langaði mig í kex. Mig langaði annaðhvort í Póló súkkulaðikex eða Kremkex frá Fróni. Það eru bestu kexin á spítalanum. Þau eru eiginlega bara nammikex.

Þannig að ég skundaði inn í næsta býtibúr. Þar inni var gömul kona að lesa blað. Hún sat við borð og snéri hnakkanum í mig þar sem ég kom inn. Ég vissi nákvæmlega hvar kexið var geymt í þessu býtibúri.

-Góðan daginn mig langar í kex, sagði ég glaður í bragði á leiðinni að kexskúffunni.
-Núúúú? Sagði konan við borðið og ég skynjaði einhvern pirring í tóninum. Hún sýndi annars engin önnur viðbrögð og hélt bara áfram að lesa blaðið.

Ég var hálfundrandi yfir þessu svari en hélt áfram og opnaði kexskúffuna. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ekkert Pólo og ekkert Kremkex til. Bara ógeðslegt hrökkbrauð.

- Oooooo, ekkert gott kex til, sagði ég.
- Ef þetta er ekki nógu gott fyrir þig þá þarftu ekkert kex, sagði kellingin um leið og ég sleppti orðinu. Og ekkert meir. Hún leit ekki einusinni við. Hún hélt bara áfram að lesa blaðið.

Þá var þögn í býtibúrinu. Kexskúffan var ennþá opin og ég horfði á kellinguna. Ég virti hana fyrir mér og sá þá hvað hún var gömul og feit. Og ég sá líka hvað hún var pirruð. Hún var alveg rosalega pirruð. Hún var svo pirruð að ég hefði getað sagt við hana gúgúgúgúgúgúgú búbúbúbúbú og hún hefði samt ekki sýnt nein viðbrögð.

Ég lokaði bara skúffunni. Stóð svo stundarkorn kyrr og brosti. Ef ógeðslegt og þurrt hrökkbrauð er ekki nógu gott fyrir mig, þá þarf ég bara ekkert kex. Og þannig er það bara. Svo gekk ég út.

Tuesday, October 03, 2006

Lesstofan á Barónsstíg


Ég var að skoða myndir frá lesstofu læknanema í heilsuverndarhúsinu á Barónsstíg. Þar var ég að lesa á 4. ári í vor. Það rifjaðist mjög hratt upp fyrir mér hvað þetta var ótrúlega súr tími.



Hérna er ég í miðri lestrartörninni. Mér og félögum mínum þótti það ekkert eðlilega fyndið að ég skyldi mæta í vöðlubuxunum mínum á lesstofuna. Það sést líka mjög greinilega hvað ég var ofboðslega frískur og hress í próflestrinum.


Hérna er ég að þykjast skrúbba mig inn í aðgerð í upplímdum vaski. Við fundum vask og okkur fannst ekkert sjálfsagðara en að líma hann upp á vegg í lesstofunni. Og okkur þótti það líka alveg ótrúlega fyndið. Vaskurinn var reyndar svo þungur að við þurftum síðar að setja undir hann stól.


Hérna er Siggi Árna bekkjarbróðir minn að veita mér verðlaun fyrir eitthvað sem ég veit ekki hvað var. Ég vissi það heldur ekki þá. Ég fékk plakat af heilanum í verðlaun bara fyrir eitthvað. Okkur þótti það ekkert smá fyndið að fá plakat af heilanum í verðlaun. Og bleika skyrtan sem Siggi er í... við fengum hana í þvottahúsinu og við hlógum að henni í marga daga.

Já, það var nokkuð súr stemmning á Barónsstígnum.