Thursday, June 29, 2006

Lögfræðistofan Klandur


Ef læknisfræðin fer í fokk þá ætla ég í lögfræði. Svo ætla ég að stofna lögfræðistofu. Og ég veit hvað hún á að heita.

Wednesday, June 28, 2006

Páfugl elskar bensíndælu. Og bróðir hans sem elskaði kött.


Ég horfði á fréttirnar um daginn. Meðal annars var fjallað um páfugl sem var ástfanginn af bensíndælu.

Umræddur páfugl er eitt dýranna á búgarði á Englandi. Fugl þessi hafði lagt það í sinn vana að dvelja lungann úr deginum uppvið steinvegg sem afmarkaði landareign búgarðsins. Þar stóð hann, gaggaði og gólaði eins og að hann væri graðasti fugl í heimi. Það var nefnilega ljóst að söngur páfuglsins gaf til kynna að hann væri tilbúinn að eðla sig.

Bóndinn á bænum veitti þessu atferli fuglsins athygli og ákvað að kanna málið. Hinum megin við steinvegginn var þjóðbraut og bensínstöð. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að páfuglinn gargaði aðeins þegar einhver var að dæla bensíni. Svo virtist því vera sem að gargið væri ætlað bensíndælunni, sem gaf frá sér seiðandi dæluhljóð. Fuglinn gat hinsvegar ekki séð yfir vegginn og hafði því aldrei barið ástina sína augum. Miðað við hegðan fuglsins mætti gera ráð fyrir því að það hafi ekki einusinni hvarflað að honum að það sem leyndist hinum megin við vegginn gæti verið fyrirbrigði allsendis óskylt páfuglum. Hvað þá að það væri bensíndæla.

Skemmst er frá því að segja að bróðir umrædds páfugls, þ.e.a.s. hinn páfuglinn á búgarðinum, var ástfanginn af kettinum á bænum. Og fyrir þessu kattarræksni gerði hann hosur sínar grænar allan liðlangan daginn.

Bóndinn á bænum virtist bara skemmta sér yfir þessu. Honum fannst ekkert athugavert við ástarmál páfuglanna og þeirra kenndir. Þó að bóndinn hefði ekki sagt það berum orðum, þá datt honum ekki til hugar að draga í efa uppeldið á bænum. Hann setti bara upp torkennilegan svip og flissaði. Þannig endaði fréttin.



Myndin ætti að vera nokkuð lýsandi fyrir ástandið á bænum.

Sunday, June 25, 2006

Stílbrot á HM: Dömubindi.

Ég hef verið nokkuð ötull við það að fylgjast með heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Keppnin hefur hingað til verið gríðarskemmtileg og sumir leikirnir hafa tekið á taugarnar. Spennandi leikir eru framundan. Þjóðverjar hafa staðið sig með prýði, bæði á vellinum og sem móthaldarar. Umgjörðin öll er til fyrirmyndar og allt mjög stílhreint, fyrir utan það eitt sem ég veitti eftirtekt í dag. Boltarnir sem notaðir eru í leikjunum eru hvítir með mynstri sem minnir á dömubindi. Og núna þegar boltinn er í nærmynd get ég ekki hætt að hugsa um þessi klessulegu dömubindi. Það er eins og einhver hafi tekið alla boltana og rúllað þeim yfir breiðu af blautum dömubindum. Þetta er stílbrot á HM.

Grillveislan


Ég var í grillveislu um daginn. Og eins og í öllum góðum grillveislum, þá var verið að grilla. Menn voru með kjöt af ýmsum tegundum. Lamb, svín, naut og kjúkling. Einnig mátti sjá grænmeti á grillinu, þar á meðal nokkuð sem heitir kúrbítur.

Við grillið fóru fram umræður. Menn ræddu heima og geima og af og til var tæpt á einhverju sem tengdist grillinu eða því sem var á grillinu. Kúrbíturinn barst í tal og hita leiksins kom upp hugmynd að rannsókn sem gengi út á það að kanna fylgni milli þess að fá nábít eftir að hafa borðað kúrbít.

Þessi hugmynd að rannsókn var rædd í þaula. Til dæmis rökræddu menn hversu margir þyrftu að taka þátt í rannsókninni og hvar hún gæti farið fram. Rannsóknin yrði tvíblind þannig að hvorki rannsakandi né þátttakandi vissi hvort hann væri með kúrbít eða gervi-kúrbít (placebo) undir höndum.

Svo myndu þátttakendur svara spurningalista um hvort þeir hefðu fengið nábít eða ekki. Gögnunum væri síðan safnað saman og skrifuð grein í vísindatímarit með öllu því helsta: Inngangi, bakrunni, aðferðum, niðurstöðum og umræðum. Til tals kom að slengja fram í greininni hugtökum eins og staðalfráviki (standard deviation), skekkju (bias) og orðasambandinu “tölfræðilega marktæk niðurstaða”.

Og þegar allt þetta hafði verið rætt höfðu flestir gert sér grein fyrir því að rannsóknin gæti orðið hin besta. En sumir voru ekki sannfærðir um gildi rannsóknarinnar og drógu í efa gagnsemi hennar. Efasemdamennina setti hinsvegar snarlega hljóða þegar viðstaddir sammæltust um að lokasetningin í umræðukaflanum, þ.e. lokasetning greinarinnar, yrði að taka af allan vafa um gagnsemi rannsóknarinnar. Setningin var ákveðin á staðnum: “Rannsókn þessi var framkvæmd vegna þess að henda má að henni gaman.”

Tuesday, June 20, 2006

Kvenréttindaplottið í Straumsvík


Gærdagurinn var bleikur í af tilefni af 91. árs afmælis kosningaréttar kvenna. Efnt var til ýmiss konar atburða. Fólk átti að gera hitt og þetta í tilefni dagsins, meðal annars að klæðast bleiku og hafa sem flesta hluti í bleikum lit. Allt gert til þess að vekja athygli á kosningaréttinum og stöðu kvenna.

Ég held að bilunin í Álverinu í Straumsvík sé liður í þessari kvenréttinda- afmælisdagskrá. Hér er um að ræða samantekin ráð einhverra óprúttinna femínista sem hafa það í huga að gera Rannveigu Rist, forstjóra Álversins, að kvenhetju Íslands eða jafnvel að þjóðhetju.

Mín kenning er sú að þessir óprúttnu femínistar hafi sent vírus í tölvupósti til Álversins sem ruglað hefur stjórnunarbúnað þess og lamað framleiðsluna. Síðla nætur læddust svo umræddir skemmdarvargar að Álverinu með geysistóran bleikan hnapp og tengdu hann við suðurhlið fyrirtækisins. Bleiki hnappurinn er þeim eiginleikum búinn að þegar á hann er ýtt eyðist vírusinn og framleiðslugeta Álversins verður eðlileg á ný.

Spáin er því þessi:
Á morgun munu allir helstu fjölmiðlarnir fjalla um það þegar Rannveig Rist finnur “fyrir einskæra tilviljun” stóra bleika happinn á suðurhlið fyrirtækisins og ýtir á hann í beinni útsendingu. Álverið losnar þá úr viðjum vírusins og Íslendingar eignast nýja kven-þjóðhetju.

Monday, June 19, 2006

Batterí í klósettinu

Í gær var ég í heimsókn hjá Óla Ísberg vini mínum. Við vorum að fara að horfa á Ísland-Svíþjóð í handboltanum. Það var ýmislegt í gangi eins og t.d. það að Óli var að hita kaffi fyrir mig og ég var í sófanum að bíða eftir kaffinu. Svo varð mér skyndilega mál, ég þurfti að fara á klósettið.

Óli á eitthvert bláasta klósett sem til er í heiminum. Það er svo blátt á litinn að það er ótrúlegt. Í hvert sinn sem ég kem inn á baðherbergið hjá Óla, þá segi ég við sjálfan mig: “Vá, hvað þetta er blátt klósett.” En þetta klósett er nú svosem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að í þetta skipti voru ofan í því batterí. Já, það voru batterí ofan í klósettinu hjá Óla. Tvö venjuleg batterí voru ofan í klósettinu, svona AA batterí held ég að þau séu kölluð. Og þegar ég sá batteríin, þá fór ég að hugsa. Hvernig í fjandanum komust batterín í klósettið?

Mér duttu í hug allskonar tilgátur um það hvernig batteríin enduðu í þessu klósetti. Sumar tilgáturnar voru ansi skrautlegar, vægast sagt. Þegar ég kom fram eftir að hafa verið á klósettinu, þá sagði ég Óla og Lilju, sem var þarna með okkur, frá því að það væru batterí í klósettinu. Og svo sagði ég þeim frá einni tilgátunni sem mér hafði dottið í hug. Ég sagði þeim frá tilgátu sem mér þótti mest við hæfi að segja og þau hlógu mjög mikið. Tilgátan gekk út á það að einhverjum hefði verið “mikið mál”, farið á salernið og að þetta, tvö batterí, hafi verið afraksturinn. Einsog ég sagði þá fannst mér þessi tilgáta mest við hæfi en hún er kannski ekki líklegust til að vera rétt. Líklegra er til dæmis að einhver hafi verið með þessi batterí í höndunum og bara hent þeim ofan í klósettið. Það er sennilega líklegasta skýringin. En þegar ég hafði sturtað niður, þá sá ég að það var bara eitt batterí eftir. Hitt hafði skolast burt og er núna á botninum á Faxaflóa, eða kannski í maganum á heimskum fiski sem hefur átt leið hjá og ekki getað staðist freistinguna um að éta batteríið.

Thursday, June 15, 2006

Notandanafn og lykilorð

Dagurinn í dag fór í að henda reiður á öllum þeim lykilorðum sem ég hef lært undanfarna daga. Og það er ekkert spaug. Síðan ég byrjaði að vinna í sumar þá hef ég þurft að læra mjög mörg ný notendanöfn og lykilorð. Allskonar ný notendanöfn og lykiorð sem ganga að allskonar nýjum forritum sem eiga að gera mér kleift að gera hitt og þetta.

Ég er mjög lélegur í að muna lykilorð, og sem dæmi þá er ég með miða í veskinu mínu þar sem ég er búinn að krota á öll leyninúmer og PIN kóða sem hugsast getur. En ég er mjög lúmskur því að leyninúmerin eru falin innan í uppskálduðum símanúmerum. T.d. er númerið á Landsbankadebetkortinu mínu í símanúmerinu sem “Palli” á. Bæði símanúmerið og “Palli” eru uppskálduð en hluti símanúmersins er PIN kóðinn fyrir debetkortið. Og símanúmerið hjá “Evu” inniheldur PIN kóðann á Svarta kortinu mínu. Svo er ég með fleiri uppskálduð nöfn og fleiri uppskálduð símanúmer og auðvitað hefur það komið oft fyrir að ég man ekkert hvaða nafn stendur fyrir hvaða kort svo að ég hef staðið kolruglaður með þessa uppskálduðu símaskrá og ekki haft hugmynd um hvaða “símanúmer” á við kortið sem ég ætla taka út af í hraðbankanum.

En sem betur fer ég er búinn að skrifa öll nýju notendanöfnin og lykilorðin á lista og ætla svo sannarlega að standa mig í því að glata ekki listanum. Þá væri ég algjölega úti á þekju í nýju vinnunni. Með tölvu og voða flottheit en gæti ekki einusinni komist inn í hana. Þannig að ég ætla geyma þennan lista á góðum stað og það er ekki séns að ég búi til gervisímaskrá sem inniheldur þessi lykilorð dulbúin sem símanúmer. Það væri t.d. fáránlegt ef ég stæði mig að því að vita ekki hvort ég ætti að nota símanúmerið hans “Gunna” eða “Dodda” til þess að logga mig inn í Windows.

Wednesday, June 14, 2006

Syfjaður, þreyttur og búinn að vera.

Hvernig stendur á því að ég er svona syfjaður? Ég fór að sofa eldsnemma í gær, var kominn upp í rúm fyrir klukkan ellefu eins og hvert annað gamalmenni. Ég er búinn að drekka eitthundraðogeitthvað kaffibolla í dag en samt sofnaði ég í vinnunni. Ég sofnaði í miðju viðtali sérfræðings við sjúkling. Og hjúkkan sem var með okkur hló bara að með og hvíslaði: "Þú þarft að fá þér expressó." Þetta var semsagt einhvern veginn svona:

Sérfræðingur: Bla bla bla bla bla bla bla bla bla bla.
Sjúklingur: Bla bla bla bla bla bla bla bla bla blaaaaa.
Sérfræðingur: Bla bla bla blí blí blí blí blí blí blí blí.
Sjúklingur: Blí blí blí blí bla bla blaaaaaa.
Ég: ZZZZZZZZzzzzzzzzzzzzzZZZZZZZZZZZzzzzzzzzz
Hjúkka (hvíslar): Þú þarft að fá þér expressó.


Kannski svaf ég bara ekki nógu vel. Ég man allavega eftir því að hafa vaknað í miðjum draumi. Mig var að dreyma köttinn minn sem hefur verið týndur í nokkur ár. Hann var orðinn mennskur. Og hvað segir svo Freud um það?

Tuesday, June 13, 2006

Ég elska þig, Natalie!!!!!



Ég var hrifinn, en núna er ég ástfanginn.
http://www.nbc.com/Video/videos/snl_1439_natalieraps.shtml

Monday, June 12, 2006

Bland í poka

Í dag fræddi ég sérfræðing í geðlækningum um portal háþrýsting, ástæður fyrir honum, afleiðingar og möguleg meðferðarúrræði. Hann hlustaði á með athygli og hreinlega gapti af undrun þegar ég sagði mjög hratt "transjugular intrahepatic portosystemic shunt" (skammstafað TIPS og er n.k. rör sem er notað til að veita blóði framhjá stíflaðri lifrarblóðrás). Hann hafði gleymt þessum atriðum og var eiginlega bara alveg sama. Þá ákvað ég að ég skyldi aldrei gerast geðlæknir.

Ég held því fram að það væri fyrir utan velsæmismörk ef ég færi út á götu og segði við næsta mann: "Haltu kjafti þarna helvítis fíflið þitt og drullaðu þér heim til þín, hóruungi."

Samstarfið við Framsókn hefur reynst Sjálfstæðisflokknum dýrkeypt og sérstaklega í borginni. Vilhjálmur spilaði rassinn úr buxunum.

Í dag ætlaði ég með Patrolinn í viðgerð en viðgerðarmaðurinn sagði mér að snáfa í burtu því það væri svo mikið að gera hjá sér.

Ég fór að veiða á Þingvöllum í gær og þá mundi ég alltíeinu hvað það er gaman að kasta flugu.

Friday, June 09, 2006

Setumótmælin, sigurinn og Nils sem kom í staðinn fyrir Jóhannes.

Það hafðist. Við læknanemar gerðum samning við Landspítalann án þess að bera skarðan hlut frá borði. Í fljótu bragði sýnist mér að við höfum gert góðan samning. Við boðuðum setumótmæli og mættum í anddyri Landspítalansvið Hringbraut með stóla, kaffibrúsa og bakkelsi. Ég kom með sólstól af svölunum mínum, viðarklappstól stóran og mikinn. Og þar sem flestir mættu með fislétta og fíngerða útilegustóla þá ráku menn upp stór augu og spurðu hvers vegna ég væri að koma með mublu. Ég sagðist bara vera með rammgerðan stól, í takt við okkar rammgerða málsstað.

Fjölmiðlar mættu og yfirstjórn spítalans sendi mann nokkurn að nafni Nils Chr. Nilsen sem sinn málsvara og til að semja við okkur. Nils þessi var þarna í drapplituðum frakka og lét lítið fyrir sér fara þangað til að hann boðaði talsmennina okkar á sinn fund. Að sögn þeirra sem þekkja til er Nils mun betur í stakk búinn til að stunda samningaviðræður heldur en Jóhannes Gunnarsson lækningaforstjóri. Nils skiptir ekki skyndilega um ham einsog Jóhannes, sem maður veit aldrei hverju tekur upp á.

Málið hlaut því farsælan endi og getur maður dregið þá ályktun að það sé mikilvægt að standa fast á sínu. Það er því lexía dagsins og ánægjuefni.

Tuesday, June 06, 2006

Stjórnmálin í upplausn

Þá hefur garmurinn hann Halldór Ásgrímsson sagt af sér. Hann tók ákvörðun um að víkja og ætlaði málinu friðsamlegan endi, velja nýjan formann án þess að lítið bæri á. Núna er hver höndin upp á móti annarri. Framsóknarmenn skiptast á að stinga hver annan í bakið. Menn hafa uppi ummæli sem vart gætu talist sæmandi milli manna sem eru í sama flokknum. Valgerður treystir ekki Guðna og Guðni virðist sár út í Halldór. Kannski eru særindin ný af nálinni en líklegra er að þau eigi sér eldri orsakir og blossi núna upp sem nokkurs konar uppgjör. Finnur Ingólfsson kom fram á sjónarsviðið en varð að draga sig í hlé. Hann var ekki jafnvinsæll og Halldór gerði ráð fyrir en ef til vill hefur Finnur ekki viljað hætta sér út á blóðugan vígvöllinn.

Ég mun ekki sakna Halldórs. Og ég myndi heldur ekki sakna Framsóknarflokksins þó að hann færi allur. Ég held að það séu nýir tímar í vændum og að Framsókn verði að herða tökin og mynda sér skýrari og nútímalegri stefnumál. Hagsmunir bænda eru ekki í tísku. Frelsið er í tísku og það gerir til dæmis kröfur um viðskiptaumhverfi sem er laust við verndartolla og styrki sem tryggja afkomu bænda en viðhalda háu matarverði.

Nú er lag fyrir Framsóknarflokkinn sem hefur verið eins og úlfur í sauðargæru. Byggja nýjan flokk frá grunni eða bara pakka saman og sökkva skútunni í bænda-styrkja-verndartolla-stóriðju-lóni.

Monday, June 05, 2006

Ákveðið að kaupa hillur og rykið strokið af.

Dagurinn í dag fór meðal annars í tiltekt. Ég var búinn að ferja allar bækurnar mínar af lesstofunni á Barónsstígnum inn í herbergið mitt. Þetta er ekkert smá mikið af bókum og möppum, ég komst varla inn í herbergið með þetta. Ég fékk líka strax skipun frá mömmu um að koma þessu fyrir á öðrum stað. Ég þurfti að rökræða svolítið við hana en við mættumst á miðri leið og ákveðið var að kaupa hillu. Í vændum er sumsé verslunarferð í IKEA.

Svo ryksugaði ég hálfa íbúðina á móti systur minni sem ryksugaði hinn helminginn. Svo þurrkaði ég líka af inni hjá mér. Ég held að ég hafi aldrei séð jafnmikið af ryki á ævinni. Ég hef bara einusinni áður séð svona mikið af ryki og það var þegar ég var í eldgömlum strætisvagni sem var fullur af ryki. En núna er líka mjög gott andrúmsloft í herberginu mínu. Gott að geta dregið að sér andann án þess að hósta eins og berklasjúklingur.

Sunday, June 04, 2006

Þessi færsla var of stór fyrir bloggkerfið þannig að ég varð að birta þetta í þremur bútum.

Skilgreining á kaldhæðni I

Í nótt dreymdi mig einhverja bölvaða vitleysu. Í daumnum reyndi ég meðal annars að skilgreina hugtakið "kaldhæðni". Ég reyndi hvað ég gat að koma sem skýrustu orðum að því hvað kaldhæðni rauverulega þýddi en án árangurs, mér tókst það ekki. En áður en ég reyndi að skilgreina hugtakið tók ég það fram að það væri aðeins á færi skarpgreindustu manna að skilgreina kaldhæðni. Ég varð fyrir vonbrigðum með sjálfan mig. Ekki eins klár og ég hélt.

En ég held að mig hafi dreymt þetta vegna þess að ég hef áður spurt félaga mína hvort þeir gætu skilgreint kaldhæðni. Ég hafði nefnilega varpað fram þessari þraut í eldhúsinu á Barónsstíg og auðvitað með þeim inngangi að það væri aðeins á færi greindustu manna að... og allt það. Og mér algerlega að óvörum þá svaraði Ásthildur bekkjarsystir mín spurningunni á örskotsstundu, eiginlega á þess að þurfa að hugsa sig um: "Það er þegar þú segir eitt en meinar annað". Mig setti hljóðan. Ásthildur hafði skilgreint kaldhæðni á nóinu, bara einn, tveir og bamm komin með skilgreininguna.

Ég stóð bara orðlaus yfir hæfileikum Ásthildar og mér datt ekki einu sinni til hugar að véfengja skilgreininguna. En núna hef ég áttað mig á því að skilgreiningin er ófullkomin. Í hana vantar þáttinn um fyndnina sem felst í kaldhæðni. Þannig að nú ætla ég að bæta við skilgreininguna: "Það er þegar þú segir eitt en meinar annað í fyndni". Og nú er ég aldeilis ánægður með sjálfan mig. Mér tókst að skilgreina kaldhæðni, með örltítilli hjálp samt, og ætti því að geta talið sjálfan mig meðal mjög skarpgreindra manna.
Skilgreining á kaldhæðni II

En það sem er auðvitað erfiðast við þetta er að skilgreina "fyndnina". Það er ekki hægt að skilgreina það sem er fyndið. Það er ekki hægt að segja: "Þetta er fyndið en ekki hitt". Eða hvað? Jú, eiginlega er það hægt. Mér skilst allavega að Þjóðverjar hafi gert viðamiklar rannsóknir á húmor og komist að því hvað er fyndið og hvað ekki.

Og öll þessi vitleysa minnir mig bara á eitt. Það er atburður sem átti sér stað í Menntaskólanum í Reykjavík í líffræðitíma þegar ég var í 6. bekk. Vilhelmína E. Johnsen, lífrræðikennari, var mjög ötul við að dreifa ljósrituðum glósum til nemenda. Ég held að blöðin sem við fengum hjá henni hafi talið mörg hundruð og ég minnist þess sérstaklega hvað það var erfitt að halda utan um öll þessi blöð og koma þeim skipulega fyrir í möppu. Ég átti stundum erfitt með að þola öll þessi ljósrituðu blöð en enginn átti þó jafnerfitt með það og Árni Helgason, sem var með mér í bekk. Hann beinlínis þoldi ekki öll þessi blöð og honum fannst líffræði líka frekar leiðinleg. Ég man hvað það fór mikið í taugarnar á honum þegar Vilhelmína kom með nýjan bunka til að dreifa.
Skilgreining á kaldhæðni III

En til þess að geta klárað söguna þá verð ég að segja frá því að Vilhelmína var einnig mjög gjörn á að láta nemendur skilgreina hitt og þetta. Maður mátti aldrei spyrja hana að neinu án þess að hún gripi frammí fyrir manni og spyrði mann snöggt um að skilgreina hugtakið sem maður var að spyrja um. Ef maður var t.d. að spyrja hana um osmósu, þá myndi hún strax grípa frammí fyrir manni og segja: "Skilgreindu osmósu!"

Þorvaldur Hrafn Yngvason, sem þá var líka bekkjarfélagi minn gerði mikið grín að þessum skilgreiningarlátum í Vilhelmínu. Hann var farinn að herma eftir henni í tíma og ótíma og biðja mann um að skilgreina hitt og þetta. Og núna kemur að því sem mig langaði svo að segja frá.

Það var í einum líffræðitímanum þegar Vilhelmína er dreifa glósum og Árni verður mjög pirraður á blöðunum og getur ekki haldið lengur í sér. Hann spyr hana hátt og með pirringstón í röddinni: "Vilhelmína, áttu ljósritunarvél?" Og þá, eiginlega áður en Árni náði að klára spurninguna, grípur Þorvaldur frammí fyrir honum og segir: "Árni, skilgreindu ljósritunarvél!"

Saturday, June 03, 2006

Deilt um keisarans skegg: Hárgreiðsla Tom Hanks í Da Vinci Code

Mér finnst það athyglisvert að umræðan um stórmyndina sem "allir hafa beðið eftir" og gerð var eftir einni mest seldu skáldsögu undanfarrina ára skuli snúast um hárið á Tom Hanks. Spurningarnar sem brenna á vörum fólks eru: Er hann með hárkollu eða ekki? Er hann með of há kollvik? Er óþolandi að horfa á hárið á honum þegar það er greitt svona aftur og getur hann verið með svona hár en verið samt með svona há kollvik? Vangaveltur sem þessar hef ég heyrt oftar en einusinni. Fjölmiðlar skrifa um hárgreiðsluna, fólk talar um hárgreiðsluna en ég hef fáa heyrt tala um innihald myndarinnar.

Friday, June 02, 2006

Já, komið þið sæl. Ég ætla að byrja aftur að blogga. Ný síða, nýtt útlit. Ég hef ákveðið að byrja nýja bloggið á því að vitna í einhver fallegustu orð sem hafa verið skrifuð á íslensku. Þetta er úr Sjálfstæðu fólki eftir Laxness. Bjartur í Sumarhúsum virðir fyrir sér bæjarstæðið sitt og talar við hundinn sinn:

"Og Bjartur í Sumarhúsum geingur um í sjálfs síns túni, rannsakar vallgrónar rústirnar, athugar steinana í stekkjarveggjunum, rífur í huganum og byggir upp aftur samskonar bæ og hann er fæddur í og uppalinn fyrir austan heiði.
Það er ekki alt komið undir risinu, segir hann upphátt við tíkina, einsog hann hefði hana grunaða um að gera sér of háar hugmyndir. Þú getur haft mig fyrir því, að frelsið er meira vert en lofthæðin í bænum, enda hef ég unnið fyrir því í átján ár. Sá maður sem sjálfur á sína jörð, hann er sjálfstæður maður í landinu. Einginn hefur yfir honum að segja. Ef ég dreg fram mínar kindur og stend í skilum frá ári til árs, - þá stend ég í skilum; og hef dregið mínar kindur fram. Nei, það er frelsið í landinu sem við erum öll að sækjast eftir, Títla mín. Sá sem stendur í skilum er konúngur. Sá sem dregur fram sínar kindur býr í höll."


En annars hef ég undanfarna mánuði gert lítið annað en lesið læknisfræði. Lesið tíu, tólf eða fjórtán tíma á dag. Ég hef þessvegna lítið getað fylgst með þjóðmálaumræðunni og lítið getað hugsað um annað en það sem stendur í kennslubókunum. Þetta námsár var mjög erfitt. Ekki jafnerfitt og klásus gamli forðum en kemst samt nokkuð nálægt því. Ég lagði mig allan fram og svona langur lestur og langvarandi álag hefur einkennileg áhrif á líkamsstarfsemina. Ég hélt á tímabili að ég væri orðinn klikkaður. En þökk sé góða leshópnum á Barónstígnum, allt fór vel.