Monday, July 31, 2006

Súrmjólk í hádeginu og Sigur Rós á kvöldin


Tónleikarnir á Miklatúni eru afstaðnir. Þeir voru flottir. Samt ekki jafnflottir og tónleikarnir í Laugardalshöllinni í nóvember í fyrra.


Tónleikagestir að safnast saman fyrir framan sviðið.


Amína hitaði upp. Þær voru í kerlingarlegum kjólum. Ég missti hálfpartinn af þeirra framlagi því að ég var að ráfa um svæðið í leit að crewinu mínu. Viðkvæmir tónar Amínu virtust líka vera of lágstemmdir fyrir víðfemt Miklatúnið.


Crew-ið mitt. Sæmi, Hauksi, Bjarki og Ólöf.



Eimaður metnaðurinn. Jónsi strýkur gítarinn með fiðluboganum og strengjakvartettinn leikur undir.



Ljósasýningin var dulmögnuð. Ég beið eftir því að Jónsi hoppaði í polla.


Meistarinn og hluti af crew-inu.



Á tónleikunum hugsaði ég mikið um hitt og þetta. Ég fór meira að segja að setja draumkennda texta í samhengi við raunveruleikann:

klifruðum skýjakljúfa
sem síðar sprungu upp
friðurinn úti

Þetta textabrot er úr laginu Viðrar vel til loftárása sem er á plötunni Ágætis byrjun. Hún kom út árið 1999. Þremur árum seinna, 11. september 2001, sprungu Tvíburaturnarnir. Og friðurinn var úti.

Saturday, July 29, 2006

Eftirvænting í loftinu...





Monday, July 24, 2006

Flakkari




Ég var að kaupa mér tæki sem kallast "flakkari" á íslensku. Þetta er AivX margmiðlunartryllitæki með 320 gígabæta harðan disk. Maður tengir flakkarann fyrst við tölvuna og hleður niður allskonar skemmtilegu dóti. Svo tengir maður tækið við sjónvarpið og þá getur maður horft á kvikmyndir, spilað tónlist eða séð ljósmynda slide-show. Sá sem hannaði þetta tæki er snillingur, alveg eins og gaurinn sem fann upp "SNOOZE" takkann á vekjaraklukkum.


Eins og sjá má á myndinni þá er ég hæstánægður með flakkarann.

Thursday, July 20, 2006

Dr. Mister & Mr. Handsome


... is it love, is it coke
is it love or is it coke?

Tuesday, July 18, 2006

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri


Ég var í þrjár vikur í verknámi á lyflækningadeild FSA í vor. Læknadeild útvegaði mér húsnæði á Akureyri. Ég bjó á íbúðahóteli sem var alveg í miðbænum, steinsnar frá ráðhústorginu og rétt hjá Sjallanum. Í tuttugu skrefa fjarlægð var Café Amor. Kaffi Akureyri var einnig rétt hjá sem og bíóið. Snilldarstaðsetning.

Móttökurnar á FSA voru til fyrirmyndar. Sérfræðingarnir gáfu sér tíma til kenna manni og maður fékk tækifæri til að spyrja og spreyta sig. Ég var eina viku á meltingu, eina á hjarta og eina á lungna. Svo tók ég fullt af vöktum. Hápunkturinn var sennilega sjúkraflugið sem var AKUREYRI-EGILSSTAÐIR-REYKJAVÍK-AKUREYRI. Einnig fór ég á skurðlæknaþingið og eftir það út að borða og á "ball" með skurðlæknum og læknanemum á Hótel KEA.


Myndin er tekin um borð í sjúkraflugvélinni.


Það snjóaði massíft allan tímann sem ég var á Akureyri. Það var yfirleitt kafaldsbylur. Mannhæðarháir skaflar mynduðust. Akureyrarbær er byggður í brekku (snarbrattar brekkur allstaðar sem maður lítur) og þar sem ég var fótgangandi var ég sífellt að ganga upp ísi lagðar götur eða algjörlega ófæra troðninga. Svo þegar ég þurfti að komast niður brekkurnar þá gat ég ekki gengið heldur varð að renna mér - ég held að ég hafi skautað niður hverja einustu brekku á Akureyri - á leðurskóm.

Akureyri er alls ekki hönnuð með gangandi vegfarendur í huga. Á Akureyri eru allir á bíl. Menn keyra fram og til baka, í öllum erindagjörðum á bíl, og horfa gapandi út um gluggann á þá sem eru fótgangandi: Hver skyldi vera þarna á ferð? Nei, sko er nýr maður í bænum? Og bara fótgangandi... hann hlýtur að vera eitthvað skrýtinn... hann hlýtur að vera drukkinn.
Svo mikil er bílamenningin að það er siður að keyra í hringi í miðbænum. Þetta hreyfingarleysi bæjarbúa hefur orsakað offituvandamál. Mín tilgáta er sú að um það bil 95% Akureyringa séu of feitir, sérstaklega kvenþjóðin. Það er leitun að grönnum kvenmanni á Akureyri.

Ég hafði oft lagt leið mína í gegnum miðbæinn og útað höfninni. Við höfnina var skip sem var augljóslega í niðurníðslu, algjör ryðkláfur. Ryðtaumarnir á því voru svo áberandi að það sætir furðu að skipið hafi ekki verið fjarlægt fyrir löngu síðan. Það er að mínu mati skömm að þessari ryðhrúgu, hún varpar skugga á annars ágætlega útlítandi miðbæinn.

Ég fór einusinni að tala um þetta skip í vaktherberginu á lyflækningadeildinni. Þegar ég hafði sagt mína skoðun og berlega gefið í skyn hvað mér fyndist um þessa ryðdollu þá komst ég að því að sem gestur í bæ verður maður að gæta tungu sinnar. Mér var úthúðað af nærstöddum starfsmönnum, sjúkraliðum, hjúkkum og læknum. Meira að segja reyndi útlendur sjúkraþjálfari að skammast í mér á bjagaðri íslensku. Mér var sko aldeilis gert ljóst að þetta skip væri enginn ryðdallur heldur dýrmætt og sögulegt skip, hvorki meira né minna en bæjarprýði sem sameinaði Akureyringa í anda.

En nokkrum dögum síðar, einmitt í þessu sama herbergi, vakherberginu á lyflækningadeild, náði ég hátindi frægðar minnar og vinsældar á Akureyri. Í vaktherberginu er stór og mikill gluggi þar sem maður getur séð yfir allan fjörðinn. Það var þegar snjóhríðinni slotaði um stundarsakir að ég vatt mér uppað glugganum. Mig hafði alltaf langað til að sjá "Pollinn" á Akureyri. Ég hafði ímyndað mér hann lítinn og sætan, jafnvel svo smágerðan að hann sæist ekki úr fjarlægð. Ég stóð þarna við gluggann og virti fyrir mér útsýnið, sá fjöllin og allan fjörðinn stóran og mikinn og reyndi svo að koma auga á lítið vatn eða litla tjörn, sem gæti samrýmst "Pollinum".
Hvar er svo þessi Pollur, spurði ég hátt og snjallt.
Dauðaþögn. Allir litu upp og horfðu á mig. Nú voru fleiri í vaktherberginu en þegar ég sagði skoðun mína á ryðdallinum. Ónei, ekki aftur hugsaði ég. Svo byrjaði einhver að flissa og síðan komu hlátrasköllin. Menn tóku bakföll og hlógu í kór lengi lengi. Fjörðurinn sem þú sérð drengur, já allur þessi sjór þarna, þetta er Pollurinn. Velkominn til Akureyrar.

Saturday, July 15, 2006

Þýskur klámmyndaleikari


Kallarnir.is höfðu samband við mig í dag. Gillzenegger sjálfur var í símanum. Hann hafði sent mér þessa mynd á e-mail og spurði mig hvort ég kannaðist við náungann sem er til hægri á myndinni, þennan sem er með sítt að aftan, eða “dúdinn með massífa Þjóðverjann,” eins og Gillz orðaði það.
Jújú, ætli maður kannist ekki aðeins við kauða, sagði ég.
Þá tilkynnti Gillz mér að ég hefði lent í fyrsta sæti í keppninni “Hver er næsti þýski klámmyndaleikari Íslands?”

Í verðlaun var allskonar cool stöff eins og ferð til Þýskalands með Köllunum og aðalhlutverk í þýskri mynd þar sem “lágmarks leikarahæfileikar eru æskilegir”.

Ég sagði Gillz að ég væri þokkalega til í slaginn.Við ákváðum síðan kíkja á kæjann í kvöld og hita aðeins upp fyrir ferðina. Þetta verður massa stemmning og ég er strax byrjaður að hlakka til. Sælar.

Friday, July 14, 2006

Veiðiferð í Svarthöfða í Hvítá


Um daginn fór ég með fjölskyldunni að veiða lax í Hvítá í Borgarfirði. Veiðisvæðið heitir Svarthöfði (jájá alveg eins og í Star Wars nema bara þetta er veiðistaður en ekki illmenni) og er þar sem Flókadalsá rennur út í Hvítá. Við áttum kvöldvakt og morgunvakt daginn eftir. Með svæðinu fylgir lítið og fallegt veiðihús. Við veiddum 5 laxa, einn sexpunda og fjóra fimmpunda. Þeir voru silfraðir og grálúsugir og lúsin var með hala. Það þýðir að þeir voru alveg nýgengnir í ána. Laxarnir losa sig nefnilega við lúsina á fyrstu sólarhringunum eftir að þeir koma í ferskvatnið. Stundum getur maður séð kríuna steypa sér hnitmiðað til að kroppa lýsnar á yfirborði árinnar og þá veit maður að það er veiðivon. Þetta var ágæt byrjun á laxveiðinni hjá mér. Ég á hinsvegar eftir að fara í átta daga í Grímsá í haust einsog undanfarin ár.


Ég og Gunni brósi vorum að fíflast í tölvunni í sumarbústaðnum okkar áður en við lögðum í hann.



Ég og systir mín fyrir utan veiðihúsið. Hún fékk einmitt maríulaxinn sinn í þessari ferð. Og ég er í nýju rándýru SIMMS vöðlunum mínum. Mér hlýnar um hjartarætur þegar ég hugsa um nýju vöðlurnar mínar.

Hérna er ég í kunnuglegum stellingum með fluguna. Til þess að fá fisk verður maður að trúa því að hann taki fluguna. Jafnframt verður maður að vera einbeittur en samt líka æðrulaus. Þrátt fyrir að vera þaulvanur veiðimaður á ég það til að verða frústreraður ef ég fæ ekki fisk fljótlega. Sérstaklega ef það er mikill fiskur og aðrir eru búnir að fá fisk. Laxinn getur sótt á sálina hjá mér. Spyrjði bara pabba, hann hefur þurft að veita mér nokkurs konar áfallahjálp í löngum og ströngum veiðitúrum.

Einn fimmpundari á land og allir kampakátir. Mig minnir að þessi hafi tekið flugu sem heitir Snælda. Frá vinstri: Nonni, Gunni bróðir, Pabbi og svo auðvitað meistarinn. Pabbi þolir ekki húfuna sem ég er með á þessari mynd en ég er alltaf með hana í veiðiferðum, bæði vegna þess að hún er hlý og laus við allt yfirlæti, en svo finnst mér líka nett gaman að því að pabbi skuli taka húfuna svona nærri sér.

En þetta var skemmtileg veiðiferð. Ég keyrði heim klukkan þrjú um nótt. Að bruna eftir þjóðveginum svona seint um nótt er einsog að vera í draumi.

Wednesday, July 12, 2006

Brúðkaupsveislan


Ég fór í brúðkaupsveislu á laugardaginn. Doddi (Þóroddur Ingvarsson, nýútskrifaður læknir) og Allý (Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir, læknanemi og læknisfrú) voru gefin saman um miðjan maí síðastliðinn. Veislan var svo haldin s.l. laugardag á bænum Indriðastöðum í Borgarfirði.

Dagskráin hófst um miðjan daginn. Veislugestum var skipt í tvö lið og svo var farið í leiki. Liðin fengu nöfnin “Naglarnir” og “Ógurlegir”. Ég var einn Ógurlegra. Hvatningarorð Ógurlegra var: “Koma svo Ógurlegir!” og það að drundi í fjöllunum þegar þetta var öskrað. Við köstuðum öxum, hlupum boðhlaup, klifruðum upp þverhníptan vegg og vörpuðum bocciakúlum. Boðhlaupið var þannig að maður átti að hlaupa átta hringi í kringum keilu og ennið átti að snerta keiluna allan tímann. Við þetta urðu keppendur afar ringlaðir og það vakti mikinn fögnuð þegar þeir reyndu að hlaupa til baka eftir snúningana. Menn ýmist lögðust í grasið, kollsteyptust eða hlupu í vitlausa átt. Svo fór að Naglarnir unnu nokkuð afgerandi sigur. Ógurlegir tóku þó tapinu með reisn.

Eftir kappleikina var boðið upp á hressingu í hesthúsinu. Menn köstuðu mæðinni og gæddu sér á kaffi og meðþví. Og á meðan gestir sötruðu kaffið unnu gestgjafar og aðstoðarmenn þeirra hörðum höndum að því að gera allt tilbúið fyrir hápunkt veislunnar sem var glæsilegur kvöldverður í hlöðunni.

Í hlöðunni voru langborð og búið að dekka fyrir um hundrað manns eða svo. Á veggjunum voru trjágreinar þar sem maður átti að hengja litla hjartalaga miða með skilaboðum til brúðhjónanna. Allt mjög fallegt, pent og sætt. Þá var svið fyrir skemmtiatriði og tjald fyrir videosýningu í sitthvorum enda salarins. Á þessu tjaldi var giftingin sjálf sýnd í allri sinni lengd. Brúðhjónin höfðu látið taka hana upp á DVD eins og þykir víst móðins í dag.

Einu veitti ég sérstaka eftirtekt. Það voru stólarnir við langborðin, sem voru æðifjölbreytilegir að gerð og lögun. Þarna voru viðarstólar, plaststólar, stólar með áföstum púðum og meira að segja bekkir. Í eitthvert skiptið þegar ég var að fá mér sæti þá var ég að fylgjast með einni gamalli konu sem sat í plaststól. Hún var að kalla á litla stelpu og segja henni að koma til sín. Gamla konan sagði: “Komdu hérna til mín og sestu hérna hjá mér í eggjabikarinn.” Og þegar hún hafði sleppt orðinu fór ég að hugsa. Ég endurtók í huganum það sem hún hafði sagt. Komdu hérna og sestu hérna hjá mér í eggjabikarinn? Hvaða fjandans eggjabikar var sú gamla að tala um? Svo varð mér litið á stólinn sem hún sat í. Ég virti hann fyrir mér um stundarsakir. Þegar ég svo áttaði mig á því að stóllinn var alls ekki svo frábrugðinn eggjabikar að lögun, og í rauninni bara alveg eins og eggjabikar, þá veinaði ég úr hlátri, innan í mér. Ég vildi ekki móðga þá gömlu og nennti ekki að útskýra fyrir sessunautunum að ég væri að hlæja að gamalli konu í stól sem væri alveg einsog eggjabikar.

Aðalréttir kvöldsins voru grillað svínakjöt og lambakjöt. Hvorttveggja fannst mér bragðast frábærlega, sérstaklega lambið. Og á meðan kvöldverðurinn var snæddur fóru fram skemmtiatriði og ræðuhöld. Ræðan hans Baldurs (aka Bóbó, bróðir Dodda) stóð uppúr og myndskeiðið sem fylgdi í kjölfarið var afbragðs skemmtun.

Svo enduðu öll herlegheitin með balli þar sem þrusugóð sveitaballahljómsveit lék fyrir dansi. Einhver lítil frænka í fjölskyldunni tók lagið með bandinu við gríðarlegan fögnuð og var síðan klöppuð upp. Hún tók lagið “Á tjá og tundri” með Sálinni og bókstaflega átti salinn.

Um miðja nóttina þegar ég var að fá mér frískt loft úti í náttúrunni heyrði ég allt í einu hrópað HRRRRRRRÚÚÚÚÚÚÚÚTUR. Þetta var karlmannsrödd og áherslan var á “ú-ið”. Mér fannst einhvern veginn eins og að þetta hlyti að vera útlendingur sem væri að kalla. Svo heyrði ég þetta aftur og ég fór að svipast um. Ekki leið á löngu fyrr en ég fann hávaðasegginn sem var færeyskur töffari að nafni Flóvin. Ég hafði spjallað við hann fyrr um daginn og kunni ágætlega við kappann. Ég gekk upp að honum og spurði hversvegna hann væri að hrópa þetta HRÚTUR um miðja nótt.
- Jú, sagði hann, HRRRRRÚÚÚÚÚÚÚÚTUR, mig langar svo í súrsaða hrútspunga.
Svo hrópaði hann HRÚTUR nokkrum sinnum í viðbót og mig verkjaði í magann af hlátri. Þessar samræður okkar Flóvins enduðu með því að ég sagði honum að móðir mín væri frábær kokkur og kynni að elda súrsaða hrútspunga. En að því er ég best veit hefur mamma aldrei eldað súrsaða hrútspunga og hefur óbeit á þorramat. Þannig að ég veit ekki afhverju ég var að blanda henni í málið. En ég toppaði þetta svo með því að gefa Færeyingnum tölvupóstfangið hennar mömmu. Ég skrifaði það meira að segja niður á blað fyrir hann. Hann sagðist pottþétt ætla að hafa samband.
HHRRRRRRRRRRRRRÚÚÚÚÚÚÚÚÚÚTUR.

Og svo einhvern tímann seint um nóttina skreið maður inn í tjald. Það var nístingskuldi og ég fór í svefnpokann. Þegar ég vaknaði var ég klæddur flíspeysu og húfu að ofan en nærbuxunum einum að neðan.

Svo keyrðum við heim snemma daginn eftir með viðkomu í sundlauginni í Borgarnesi og KFC í Mosó. Og ég er alveg sammála honum Ingvari (pabbi Dodda og Baldurs) sem sagði einhvern tímann í lokin á veislunni að þetta hefði ekki bara verið yndislegt... heldur mjög yndislegt. Takk fyrir mig.

Friday, July 07, 2006

Tómaturinn og eggið


Undanfarið hef ég mikið gert af því að elda mér pasta í kvöldmatinn. Ég hef eldað nokkrar tegundir af pasta en uppáhaldið mitt er ostafyllta tortelini-ið frá Barilla. Með þessu fæ ég mér yfirlett ristað brauð með osti. Osturinn er yfirleitt venjulegur brauðostur en stundum er það hvítur kastali, blár kastali eða gullostur. Með pastanu nota ég tómatsósu. Einusinni setti ég meira að segja saman salat með feta osti. Eftir á að hyggja var þetta salat í mýflugumynd miðað við önnur salöt sem ég hef séð, það var bara gert úr niðurskornum tómötum. Engu að síður var ég ánægður með salatið.

Pastað læt ég sjóða í ellefu mínútur. Ég hef eldað þetta svo oft að ég veit að ef pastað er soðið í nákvæmlega ellefu mínútur þá er það fullkomið. Og afþví að ég er svo oft illa áttaður í tíma þá þarf ég alltaf að stilla eitthvað sem hringir þegar pastað er tilbúið. Í eldhúsinu mínu eru tvær upptrekkjanlegar skeiðklukkur sem gerðar eru til þess arna. Það eru tómaturinn og eggið.

Þessi tvö niðurteljandi fyrirbæri eru nokkuð áþekk að gerð enda framleidd af sama fyrirtækinu. Tómaturinn er rauður og úr plasti en eggið er silfrað og úr áli. Ég nota þau nokkurn veginn til skiptis. Það fer í rauninni bara eftir því hvort þeirra ég finn á undan.
Ég hef alla tíð staðið í þeirri trú að þessir ágætu tímaverðir væru jafnfærir um að telja niður mínúturnar. Undanfarið hefur þó læðst að mér sá grunur að ekki sé allt með felldu. Svo gæti verið að tómaturinn og eggið telji ekki tímann jafnhratt niður. Mín tilfinning er nefnilega sú að tómaturinn sé sneggri að telja en eggið.

Ég hef reynt að finna skýringar á þessu . Mér datt í hug að þar sem tómaturinn var keyptur langt á undan egginu, þá kynni svo að vera að mér fyndist eldamennskan skemmtilegri (og tíminn liði þarafleiðandi hraðar) þegar tómaturinn væri að telja niður heldur en þegar eggið er í því hlutverki. Einnig hef ég leitt hugann að því að tómaturinn er bara drasl úr plasti og gæti því auðveldlega í ruglast í ríminu við talninguna. Eggið hefði þá vinninginn sem betri tímavörður enda er það völundarsmíð úr áli. Eggið var líka dýrara en tómaturinn.

En þetta hefur haft þau áhrif að núna nota ég tómatinn oftar við eldamennskuna. Ég hef eiginlega sagt skilið við eggið. Og í gær þegar ég var búinn að setja pastað í pottinn hugsaði ég með mér: “Núna ætla ég sko að setja tómatinn í gang af því að hann miklu fljótari að þessu en helvítis eggið.” Ég var líka orðinn mjög svangur.


Tómaturinn og eggið.

Tuesday, July 04, 2006

Viðtal í Stúdentablaðinu árið 2002




Fyrir tilviljun rakst ég á þetta viðtal við mig og Ásthildi bekkjarsystur mína sem birt var í Stúdentablaðinu árið 2002. Við vorum spurð um hvað okkur fyndist um breytingarnar á náminu í læknadeild. Ég var búinn að steingleyma þessu og fannst þetta mjög athyglisvert. Textinn er mjög óskýr á myndinni þannig að hann fylgir með hér að neðan:


SVERRIR INGI GUNNARSSON NEMI Á 2.ÁRI Í LÆKNISFRÆÐI.
Hvað finnst þér um inntökuprófin?
„Ég lenti í þessum árgangi sem barðist fyrir seinkun inntökuprófanna og ég var persónulega mjög feginn að þeim var seinkað því ég var búinn að fara í gegnum clausus og stóð því betur að vígi í því kerfi.“
Hvað finnst þér um þær breytingar að verkleg kennsla hefjist strax á fyrsta misseri?
„Nú byrjar verkleg kennsla strax og ég held að það sé betra að ná tökum á náminu á þann hátt, verkleg kennsla sýnir manni nýjar hliðar á náminu.“
Telur þú að námið betur uppbygt núna en það var fyrir breytingu?
„Já mér sýnist það. Ég er kannski ekki í góðri aðstöðu til að meta það því ég lendi á árunum þar sem breytingarnar eru að ganga í gegn. Námið hjá okkur er mjög strembið núna vegna þess að verið er að hlaða námið til að gera breytingar hér og þar. En mér sýnist að eftir breytingarnar muni námið styttast úr sex árum í fimm og hálft ár. Auðvitað er gott að ljúka náminu sem fyrst en ég veit ekki hvort það er þess virði, því það er ekki gott að vera með of mikla keyrslu á meðan við erum í skólanum. Ég vona að kerfið muni leiða í ljós að það verði þægilegra fyrir nemendur.“


ÁSTHILDUR ERLINGSDÓTTIR, NEMI Á 2. ÁRI Í LÆKNISFRÆÐI
Hefðir þú viljað eiga þess kost að fara beint í inntökupróf?
„Ég veit það ekki, mér fannst allt í lagi að vera í clausus. Þetta er ákveðið verkefni sem maður tekur að sér. Auðvitað eru kostir við þetta inntökupróf, en ég veit ekki hvort ég hefði viljað fara í fyrsta inntökuprófið á meðan enn er ekki komin reynsla á þetta. Það er samt viss sanngirnií clausus, þar byrja þannig séð allir á sama punkti og læra það sama.“
Hver er helsti kostur við inntökuprófin?
„Gallinn við clausus kerfið er að þetta er tímafrekt, rosalega mikið stress, álag og samkeppni, svona almenn leiðindi sem maður losnar kannski við í inntökuprófunum. Þetta er eitthvað sem klárast fyrr og maður getur þá bara farið í eitthvað annað í Háskólanum eða gert eitthvað annað við þennan tíma í stað þess að eyða kannski tveimur-þremur árum í að reyna að komast inn í læknisfræði.“
Hvað finnst þér um hagræðingu námsins?
„Persónulega finnst mér það ekki sniðug breyting. Þetta er nógu þungt nám þó það sé ekki verið að þjappa því saman.“
Hefðir þú viljað byrja strax í verklegu námi?
„Ég er ekki viss um að það hefði skipt svo miklu máli, en auðvitað er alltaf skemmtilegra að fá að gera eitthvað. Það var bara ekki raunhæfur möguleiki í clausus.“

Saturday, July 01, 2006

Skrifstofan mín á Kleppi



Hérna er ég á frábæru skrifstofunni minni á Kleppi.



Hérna er ég í símanum. En þegar myndin var tekin var enginn hinum megin á línunni. Síminn hefur hringt einu sinni í júní.



Þetta er hluti af græjunum mínum. Crash course Psychiatry bókin er svona la la skemmtileg. En mér finnst geðlæknisfræði stundum vera svoldið bla bla bla. Ég er alltaf með tvo gsm síma enda er ég mjög mikilvægur. Reyndar er annar þeirra minn eigin gemsi þannig að ég er í rauninni ekkert svo mikilvægur. Ég hef bara einu sinni þurft að nota stetóskópið í júní.
Æðislegt


Þetta er sjúklega fyndið japanskt grínvídeó.