Monday, November 27, 2006

Próflestur


Þessa dagana er ég í próflestri. Ég er að lesa kvensjúkdóma- og fæðingalæknisfræði. Að lesa fyrir próf er að sitja við skrifborð, horfa á pappír og nota gulan áherslupenna. Hljómar kannski spennandi en er ekki svo spennandi. Sem betur fer klára ég næsta fimmtudag. Síðan eru ekki próf fyrr en eftir áramót. Það eru góðar fréttir.

Tuesday, November 21, 2006

Casino Royale



Ég skellti mér á hana í gærkvöldi. Hún var þrusugóð. Framleiðendurnir hafa greinilega haft það markmið að brjóta upp gömlu klisjurnar. Nýi Bondinn jagast til dæmis ekki á því hvort hann vilji drykkinn sinn hristan eða hrærðan. Hann segist bara vera drullusama hvernig drykkurinn er framreiddur.

Nýi Bondinn, Daniel Craig, er massaður en samt svolítið hversdagslegur náungi. Ég átti frekar erfitt með það að taka hann alvarlega þegar ég áttaði mig á því hvað hann er nauðalíkur Halldóri Jónssyni junior bæklunarskurðlækni.




Myndin hefst á æsispennandi upphafsatriði og sagan er nokkuð vel skrifuð. En einhvernveginn vantar risið í myndina. Hún er mjög góð fram að hléi en missir svolítið dampinn í lokin. Sem dæmi má nefna vont atriði sem gerist í sökkvandi húsi í Feneyjum. Bond er þar að kljást við þorpara og dettur það snjallræði í hug að skjóta gat á uppblásna belgi sem virðast gegna þeim tilgangi að halda húsinu á floti. Belgirnir springa og húsið sekkur til botns í mjög langdregnu atriði. Svona kjánalegum atriðum á að sleppa.

Þar sem ég er mikið læknisfræðinörd skemmti ég mér konunglega þegar Bond fékk digitalis eitrun. Digitalis er hjartalyf og er m.a. notað við hjartabilun og hjartsláttaróreglu. Í of stórum skömmtum virkar það sem eitur.

Aðal vondi gæinn í myndinni, Le Chiffre (leikinn af Mads Mikkelsen), byrlar Bond þetta lyf með það fyrir augum að gera Bond óhæfan til að spila póker. Bond fær dæmigerð digitalis eitrunareinkenni, byrjar að rugla, fær sjóntruflanir, verður óglatt og þarf að kasta upp. Bond flýtir sér inn á klósett og ælir. Það mun ekki vera gott því við uppköst tapast kalíum úr líkamanum og getur það aukið eitrunaráhrif digitalis. Eftir að hafa kastað upp hefði Bond því átt að fá sér banana eða nýpressaðan appelsínusafa, sem hvort tveggja er kalíumrík fæða. En nei, í ruglástandinu hjóp Bond út í bílinn sinn.

Svo heppilega vildi til að í hanskahólfinu var sprauta og mótefni gegn digitalis. Þetta hefur sennilega verið Digibind (digoxin immune Fab) sem er einstofna mótefni gegn digitalis og losar líkamann við eitrið. En það dugði ekki til og Bond áttaði sig á því að hann væri um það bil að fá hjartastopp. Því tók hann upp hjartarafstuðtæki sem var líka í hanskahólfinu. En verður of seinn til, hjartað hættir að slá og hann liggur steindauður í bílnum. Til allar hamingju kom þá Bondgellan honum til bjargar.

Og þá beið ég spenntur eftir því að hún færi að hnoða Bond í gang eins og maður á að gera í hjartastoppi. Það má nefnilega alls ekki gefa rafstuð við hartastoppi. En gæran hafði ekki hugmynd um það smellti einu stuði í hetjuna. Þá hélt ég að hún hefði endanlega klúðrað þessu. En annað kom á daginn. Bond vaknaði og var hressari en nokkru sinni fyrr. Það hvarflaði ekki einusinni að honum að skamma dræsuna fyrir að vita ekki réttu meðferðina við hjartastoppi.

Sunday, November 19, 2006

Hvort er skemmtilegra?



Að vera að læra


Eða vera ekki að læra?

Friday, November 17, 2006

Dagur íslenskrar tungu...



var í gær. Og ég steingleymdi því. Shitturinn. Æ, fokkit. Það bíttar ekki diff.

Tuesday, November 14, 2006

Sexý Subway



Kvöldmaturinn minn í dag var á Subway í Skeifunni. Það er svosem ekki í frásögur færandi nema afþví að þar gerðist svolítið hressandi.

Þegar ég kom inn gekk ég rakleitt að afgreiðsluborðinu og pantaði mér Subway bræðing í parmesan oregano brauði. Það var stelpa að afgreiða mig. Og þar sem ég stóð og horfði á hana setja áleggið á bátinn tók ég eftir einhverju krassi á innanvert á vinstri framhandleggnum. Þar hafði eitthvað verið skrifað með svörtum tússi.

Af forvitni reyndi ég að rýna í það sem þar stóð. Hendurnar hennar fóru hratt fram og til baka með áleggið þannig að ég átti erfitt með að sjá hvað þetta var. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti ekki bara að spyrja hana hvað stæði á hendinni á henni. Ég hugsaði bara jújú afhverju ekki og lét spurninguna vaða.
- Hvað stendur þarna?
Hún hætti að föndra við bátinn og leit upp.
- Ha? Hvar?
- Hvað stendur þarna? Og ég benti á höndina hennar.
Hún leit þangað sem ég benti. Svo fór hún rosalega hjá sér. Varð feimin og vandræðaleg en samt svona hálfbrosandi og var að hugsa sig um hvað hún ætti að segja.
- Gvvvvuuuuuððððð.......... Æi.... Og svo brosti hún enn meira. Og eftir stutta þögn hélt hún áfram.
- Sko við vorum í íslenskutíma og við áttum að beygja sagnir í kennimyndum. Ég og vinkona mín áttum að beygja sögnina "að ausa". Og það endaði með að vinkona mín sagði "ég jósaði" í þátíð.
Og þegar hún hafði sleppt síðasta orðinu brosti hún út að eyrum og flissaði pínulítið. Svo sýndi hún mér hvað stóð á handleggnum. Þar stóð stórum stöfum:

Ég jósaði :)

Friday, November 10, 2006

Framköllun Samdægurs



Í dag var ég minntur á það hvað ég var mikið kjánaprik þegar ég var lítill.

Þegar ég var lítill var ég oft í heimsókn hjá ömmu. Amma bjó í Vesturbænum. Ég var oft að leika mér við Úlfarsfell, verslunarsamstæðuna þar sem hin vinsæla Ísbúð Vesturbæjar er núna. Þar var líka verslun sem hét Framköllun Samdægurs. Reyndar er þessi verslun ennþá á sama stað. Þetta er ritfangaverslun og þar er hægt að fara með filmur í framköllun og fá þær afgreiddar samdægurs, rétt eins og nafnið gefur til kynna.

En þegar ég var lítill áttaði ég mig ekki á nafni þessarar framköllunarsjoppu. Ég stóð nefnileg lengi lengi í þeirri trú að Framköllun Samdægurs héti það vegna þess að maðurinn sem ætti búðina héti Samdægur.

Thursday, November 09, 2006

Massastemmning á lesstofunni



Já, það er sko rífandi stemmning núna á lesstofunni. Menn eru búnir að hrista af sér slenið og komnir í gírinn. Allskonar nýir hlutir eru komnir í hús og fólk er farið að slá á létta strengi. Það er ekkert verið að grenja yfir bókunum núna, annaðhvort er maður stöðugt flissandi eða í hláturskrampa.




Við erum búin að setja upp Tuborg Julebryg fánann og þetta er bara einsog í massagóðu partýi.


Ég er búinn að setja upp dyrasíma á herbergið mitt. Ég hengdi hann bara beint á hurðina. Og það er sko fullt af fólki búið að vera hringja og gera at í mér með dyrasímanum og við höfum hlegið mikið að þessu. En dyrasíminn er ekki tengdur því að ég er búinn að týna snúrunni. Það getur líka verið bara gott að hafa dyrasímann ótengdan því að ef það kemur t.d. geðveikt sæt gella í playboy kanínubúningi að spyrja eftir mér þá vil ég ekkert bara tala við hana í dyrasíma um hitt og þetta blablabla. Ég vil auðvitað koma til dyra og hitta kanínuna!


Svo er líka alltaf hægt að bregða á leik með eldfimu efnunum sem við erum með í einu af herbergjunum. Það getur verið viðbjóðslega fyndið að kasta logandi tilraunaflösku yfir einhvern sem er eitthvað að detta úr stuði.



Svo ef maður er alveg búinn á því eftir gott lesstofupartý þá getur maður bara farið að sofa á næstumþví tvíbreiðu uppblásnu dýnunni og vaknað ferskur í eftirpartýið.

Monday, November 06, 2006

Mánudagur á spítalanum




Það var rosalegur mánudagur í fólki á spítalanum í dag. Menn voru svolítið ruglaðir í ríminu. Vissu ekki hvort þeir væru að koma eða fara. Og samtölin voru skrautleg. Það var einsog fólk væri ekki að tala sama tungumálið.


Halló, hvað er í gangi hér?
-Ég veit það ekki, hvar er ég?

Eruði að leita að plástrum?
-Nei, við erum að baka piparkökur.

Er meðgöngueitrun hættuleg?
-Hvaða vitleysa, ég var að hella upp á kaffi.

Ertu með ofnæmi fyrir köttum?
-Ha? Er kominn tími til að senda mig í hjartalínurit?

Er enginn sérfræðingur hérna á deildinni?
-Hvað segirðu... gleymdirðu að taka inn lyfin þín?

Góðan daginn, hvert fer maður í röntgenmyndatöku?
-Nei, ég er búinn að vera hérna síðan í fyrramálið.

Sunday, November 05, 2006

Gömul kona höstlar í sundlauginni



Ég er kominn í mjög gott form. Ég komst að því í dag þegar ég synti rúman kílómetra skriðsund nánast án þess að blása úr nös. En það var líka annað sem gerðist í sundlauginni sem gerist ekki á hverjum degi.

Ég var að klára fimmhundruð metrana þegar ég þurfti að stoppa til þess að taka gufuna úr sundgleraugunum. Ég synti alveg á milljón upp að bakkanum og reis hálfur upp úr vatninu. Þá sá ég að á brautinni við hliðina á mér var gömul kona í miklum holdum að horfa á mig. Og hún var þannig á svipinn að ég hugsaði með mér: Hún er pottþétt að fara að segja eitthvað við mig. Og það reyndist vera svo.
- Flott hjá þér, sagði hún og brosti.
Það kom örlítið fát á mig en svo svaraði ég henni.
- Já, hehe, takk fyrir það.
Svo setti ég sundgleraugun á mig og spyrnti mér frá bakkanum.

Ég hugsaði um þetta í nokkurn tíma. Af hverju var hún að segja þetta? Flott hjá mér? Hvað fannst svona gamalli feitri kellingu svona flott? Og svo hætti ég að hugsa um þetta.

Síðan lauk ég við sundið og ætlaði uppúr í gufuna og heitapottinn. En viti menn. Sú gamla var ennþá á sama stað uppvið bakkann. Og þegar ég leit til hennar gaf hún mér þetta líka rosalega augnaráð. Ég veit ekki hvað hún var að spá með því að setja upp þennan svip. Hún var líklega að reyna vera tælandi, eggjandi eða sexý eða eitthvað. Alveg var svipurinn einsog hún hefði í huga að draga mig á tálar. Og þannig horfði hún til mín á meðan hún gekk rólega í burtu í átt að tröppunni sem gamlingjarnir nota til að komast uppúr lauginni.

Þegar hún var svo horfin stóð ég kyrr í smástund. Síðan brosti ég með sjálfum mér og skellti svo uppúr. Svo fór ég bara í gufuna og heita pottinn.

Saturday, November 04, 2006

Staðlaða afgreiðslukonan




Ég man ekki hvenær ég byrjaði að veita þessu eftirtekt. En sennilega er nokkuð langt síðan. Þannig er nefnilega mál með vexti að það er einsog að afgreiðslukonur í sjoppum, kjörbúðum og þessháttar verslunum séu upp til hópa nokkuð svipaðar í útliti og persónuleika.

Nú má ekki skilja þetta sem svo að ég sé með þessu að fullyrða að afgreiðslukonurnar séu allar eins. Ég er frekar að reyna setja fram þá kenningu að það sé til nokkurs konar staðalímynd fyrir afgreiðslukonur í versluninni á horninu.

Í hverfinu mínu eru sjoppur og kjörbúðir. Í nokkrum þeirra hef ég rekist á mjög svipaðar útgáfur af þessari stöðluðu afgreiðslukonu sem ég held að sé til. Þær eru grannar með svart hár og það er augljóslega litað svart. Þær eru ekki mikið málaðar og bera fáa skartgripi. Þær eru frekar fámálar en þegar þær tala þá gefur röddin til kynna að þær reykja, kannski Salem eða Marlboro Lights. Þær eru kurteisar við afgreiðsluna en ef vel er að gáð er viðmótið nokkuð einkennandi. Það er eins og þeim sé eiginlega bara alveg sama um allt og alla. Þær eru bara þarna, vinna sína vinnu og fara síðan heim. Það er ekkert verið að brosa að óþörfu. Þær henda ekki fram bröndurum við afgreiðsluborðið. Svipurinn er eins og þær beri harm sinn í hljóði.

Og þær eru ekki bara í hverfinu mínu. Ég hef séð þessa grönnu, svarthærðu með salemröddina á fleiri stöðum. Þær eru í sjoppum og kjörbúðum víðsvegar í borginni.

Thursday, November 02, 2006

Allt að gerast í eldamennskunni



Ég tók mig til og eldaði kvöldmat fyrir fjölskylduna. Það mætti segja að þetta hafi verið fyrstu skrefin mín í almennilegri kokkamennsku fyrir utan nokkrar ommilettur, hamborgara og svoleiðis basic stöff. Í matinn var gráðostafyllt grísasnitzel í raspi með kartöflum framreidd með gulum maísbaunum og salati. Þetta tókst bara prýðisvel. Snitzelin voru hæfilega steikt og gráðosturinn kom vel út. Ég er að hugsa um að kokka aftur um helgina. Kannski að ég eldi mexíkanskt kjúklinga burritos en ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað það verður.