Monday, September 25, 2006

Nei, við seljum ekki bjór en við seljum titrandi typpahringi



Ég hef verið nokkuð ötull við það undanfarið að versla inn í matvörubúðum. Og þar sem ég hef ekkert sérstaklega gaman að því að ýta á undan mér innkaupakörfu og velja ofaní hana þá á ég auðvelt með að missa einbeitinguna þegar ég sé eitthvað sem fangar athyglina.

Við kassann í nokkrum matvöruverslunum (m.a. Nóatúni og 10-11) er oftar en ekki að finna hillu eða stand frá smokkaframleiðandanum Durex. Það væri svosem ekkert í frásögur færandi ef þessi standur væri aðeins með úrvali af smokkum. En í þessum stöndum eru ekki bara smokkar. Og reyndar er bara örlítill hluti af þessum standi notaður undir smokka. Megnið af vörunum í standinum er af öðrum toga. Þetta er alls kyns unaðsaukandi dót fyrir kynlífið. Þar má nefna sleipiefni, nuddolíur og einn hlut í viðbót sem fær mann til að staldra við. Við erum að tala um titrandi typpahringi eða vibrating cock ring eins og hann heitir á ensku. Slíkur gripur fæst víst aðeins í svæsnustu (hardcore) kynlífsbúðum í útlöndum. En hérna heima getur maður keypt titrandi typpahring í sömu búð og maður kaupir mjólk og brauð.

Og það sem meira er... maður getur ekki keypt bjór í sömu búðinni og maður kaupir titrandi typpahringi. Á Íslandi kaupir maður titrandi typpahringi í 10-11 en bjórinn verður maður að kaupa í Ríkinu.



- Já, góðan daginn, seljið þið bjór?
- Nei, því miður. Við seljum bara mjólk, brauð og titrandi typpahringi.
- Já, ég fæ þá bara mjólk og brauð og einn titrandi typpahring.

Sunday, September 24, 2006

Hlerað í búningsklefanum


Ég var að koma uppúr sundlauginni og var að klæða mig í fötin í búningsklefanum. Á meðan heyrði ég samtal lítillar stúlku og föður hennar.

- Pabbi, afhverju eru strákar með typpi?
Þá kom nokkuð löng þögn. En svo svaraði pabbinn.
- Eins og ég var búinn að segja þér, þá setja þeir það inn í mömmu og þá koma börnin.


Spurning og svar. Einfalt.

Saturday, September 23, 2006

Herra vinsæll


Núna eru 315 manns búnir að skoða prófílinn minn á þessari síðu. Það þýðir náttúrulega að traffíkin á síðunni er rosaleg. Kannski mörg hundruð heimsóknir á dag. Þetta er mjög mikið. Sérstaklega miðað við það að ég er bara búinn að blogga í örfáa mánuði.

Og ég er næstum því handviss um:

að um 90% af innlitunum á síðunni eru sætar stelpur sem eru aðdáendur mínir númer eitt

að ég hafi kysst (að minnsta kosti) meirihlutann af stelpunum sem skoða síðuna mína

að ég er með símanúmer meirihluta þessara sætu stelpna í gemsanum mínum

að vinsældir síðunnar minnar (og vinsældir mínar að sjálfsögðu) eigi eftir að fara vaxandi

að sætu stelpurnar sem eru alltaf að skoða síðuna mína séu búnar að segja sætu vinkonunum sínum frá síðunni minni

að sætu vinkonur sætu stelpnanna eru núna líka alltaf að skoða síðuna mína

að mér hættir til fá óraunhæfar hugmyndir en það er allt í lagi af því að ég er svo vinsæll
16 laxar

Jæja, þá er maður kominn aftur úr sex daga veiðiferð í Grímsá. Við pabbi veiddum 16 laxa og einn sjóbirting. Laxarnir voru á bilinu 4ra til 8 punda og sjóbirtingurinn var 5 pund. Við settum flestalla laxana í hólka, héldum þeim þannig lifandi í ánni og svo voru þeir sóttir í ker og verða notaðir til undaneldis.

Ég heyrði líka margar sögur, venjulegar sögur og veiðisögur. Einhver sagði frá veiðimanni sem hafði séð undarlegt kvikindi svamla um í fossinum fyrir neðan veiðihúsið. Maðurinn mændi á kvikindið sem var feiknastórt og synti í hringi. Að vel athuguðu máli gekk hann upp í veiðihúsið, vakti dóttur sína og sagði henni að það væri minkur í fossinum. Dóttirin fór á fætur, gekk út og sá kvikindið. Hún sagði föður sínum að þetta væri ekki minkur heldur særður lax. Þau hringdu í umsjónarmann árinnar og lögðu sig svo, algerlega uppgefin. Umsjónarmaðurinn kom á staðinn og sá kvikindið. Jú, það var þarna syndandi og það var algert ferlíki. Þetta var sko ekki minkur og ekki særður lax. Svo var kvikindið skotið og það reyndist vera stærðarinnar selur.

Ég heyrði margar svona sögur. Dró af þeim mismikinn lærdóm og hló mismikið að þeim. En það verður að viðurkennast að það er nokkuð fyndið að glápa lengi á risastóran sel synda í hringi og vera algerlega sannfærður um að selurinn sé minkur. Menn eru greinilega misjafnlega glöggir.

Monday, September 11, 2006

Hrós



Ég fór alltíeinu að hugsa um það þegar ég hætti að vinna sem aðstoðarlæknir á Kleppi. Þegar ég hætti kvaddi ég alla bless bless og sagði takk fyrir mig. Áður en ég fór átti ég samtal í einrúmi við sérfræðinginn sem ég var mest með .
- Sverrir, þú hefur staðið þig mjög vel.
- Já, er það?
- Já, þú hefur staðið þig mjög vel, þú ert eiginlega ómissandi á deildinni núna.
- Já, þakka þér fyrir.
- Já, þú hefur staðið þig mjög vel og ég vil að þú vitir það.
- Já.
- Já? Já, þú hefur staðið þig frábærlega.
- Já, takk fyrir það.
- Já, og svo verður þú að læra að taka hrósi.
- Já.
- Já, þú verður að læra að taka hrósi.
- Já.
- Takk fyrir samstarfið.
- Já, takk fyrir samstarfið.

Svo tókumst við í hendur.

Sunday, September 10, 2006

40 laxa holl... Haustmenn eru bestir


Ég er kominn heim úr veiðinni, var í Grímsá í tvo daga. Ég fékk tvo laxa, einn 5 punda og einn 9 punda. Ég missti líka þann þriðja í löndun. Pabbi fékk einn lax. Hollið okkar fékk 40 laxa þessa tvo daga sem er hærra en meðalveiði og sérstaklega hátt miðað við árstíma. Þetta eru líka allt þaulvanir veiðimenn, allir félagar í veiðifélaginu Haustmönnum sem við pabbi ásamt fleirum stofnuðum á sínum tíma.

Svo fer ég aftur næsta laugardag og þá verð ég í 6 daga. Þá verð ég pottþétt aflahæstur, með stærsta fiskinn og enda svo á réttarballi alveg í ruglinu og vakna á einhverjum sveitabæ við hliðina á heimasætunni sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir... og hugsa svo með mér: Djöfull var gaman í gær, ég man ekki neitt.



Thursday, September 07, 2006

Grímsá


Jæja, þá er ég að fara í Grímsá á morgun. Ég verð fram á sunnudag og svo fer ég aftur þarnæsta laugardag og verð í sex daga. Verður þetta eins og fyrir þremur árum þegar ég fékk 18 pundarann? Það var stærsti laxinn það árið. Hann tók Rauða Francis númer 10 og ég var í einn klukkutíma og 45 mínútur að landa honum. Ég landaði honum næsta veiðistað fyrir neðan kannski kílómeter frá þar sem hann tók. Þetta var um kvöld og það var kolniðamyrkur þegar við náðum honum í háfinn. Ég sá ekki handa minna skil og pabbi reiknaði út staðsetningu ferlíkisins útfrá birtu norðurljósanna sem endurspegluðu dropana á flugulínunni.

Og núna er hann uppstoppaður í sumarbústaðnum okkar. Þar trónir hann yfir gestum. Uppstopparinn sagði að hann hefði ekki verið minna en 25 pund þegar hann var nýrunninn í ána. Lítil börn hafa meira að segja ruglað honum saman við krókódíl. Pabbi, pabbi ég er hræddur við krókódílinn!! Nei, nei þetta er allt í lagi þetta er lax, já... þetta er stórlax. Veiði ég annan slíkan á morgun eða hinn? Ég get ekki hætt að hugsa um það.



Þetta er 18 punda ferlíkið sem ég veiddi. Pabbi náði að troða sér inn á myndina með meistaranum. Laxinn hangir núna uppstoppaður uppi á vegg. Þið megið koma og skoða hvenær sem er...

Monday, September 04, 2006

Í heita pottinum


Um daginn fór ég í Laugardalslaugina og synti eins og venjulega. Svo fór ég í heita pottinn. Þar hafði ég setið um stund og var farinn að huga að því að koma mér uppúr. Þá kom ég auga á stelpu sem ég kannaðist við. Og mér hefur alltaf þótt hún pínulítið sæt og líka staðið í þeirri trú að hún væri svolítið klár. En svo sá ég að hún var að lesa. Já, hún var að lesa bók í heita pottinum. Og þetta var ekki bara eitthvað svona tískutímarit, nei þetta var heljarinnar stór og þykk skáldsaga. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera vandkvæðum bundið að lesa bók í ólgandi heitum potti, þarsem litlir krakkar eru sífellt buslandi, vatnsbunur standa út úr steinum og gamalmenni eiga það til að hrasa með tilheyrandi öldugangi.

En hún var þarna að lesa bókina og ég fer uppúr pottinum og geng að henni.

Ég: Þetta hef ég nú aldrei séð áður, ertu að lesa hérna í heita pottinum?
Hún verður við þetta örlítið vandræðaleg en segir svo: Nei... hæ.
Ég: Er þetta vatnsheld bók?
Hún segir þá eftir dálitla umhugsun og ennþá vandræðalegri: Nei... uuu.. hún er bara svona venjuleg.

Þá var samtalinu lokið. Ég gekk burt. Fór inn í sturtuklefann. Hugsaði um tilsvarið: Nei, hún er bara svona venjuleg. Jájá, ok þetta var bara svona venjuleg bók. Það var einsog að hún hefði gert ráð fyrir að ég hefði virkilega haldið að bókin væri vatnsheld. Já, hún semsagt hélt að ég hefði séð hana vera að lesa bók í heita pottinum og komið upp að henni með það eitt í huga að spyrja hana hvort þetta væri raunverulega vatnsheld bók.

Auglýsing á Rás 1: “Vorum að taka upp nýja sendingu af vatnsheldu kiljunum - Mál og mennig.”

Nei, ég held ekki.

Ef hún hefði bara sagt jáhá þetta er sko vatnsheld bók og kastað bókinni í vatnið. Þá hefðum við horft á blaðsíður bókarinnar drekka í sig vatnið og bókina sökkva til botns í pottinum. Svo hefði hún horft á mig, búin að setja mig örlítið útaf laginu. Þá hefði ég sko ekki gengið rakleiðis burt í sturtuklefann. Og þetta hefði þá sennilega endað á allt annan hátt. Kannski einhvern veginn þannig að ég hefði misst út úr mér:

Heyrðu, mætti ég ekki tylla mér þarna hjá þér?